“Ég óskaði barninu mínu dauða” – Reynsla konu af meðgönguþunglyndi

Við fengum þessa einlægu frásögn senda inn í Þjóðarsálina:

Mig langaði að deila minni sögu með fólki í von um að einhver skilji mig. Ég ræði þetta ekki við fólk og ástæður þess að ég gerði lítið að því að ræða um líðan mína meðan á þessu stóð segi ég ykkur frá hér að neðan.

Fyrir um þremur árum síðan ákváðum við parið að fara að huga að barneignum. Við vorum bæði búin með námið okkar og okkur var farið að langa mikið til að eignast barn saman. Við fórum að reyna og vorum ekkert að stressa okkur neitt á þessu. Eftir 6 mánaða reynerí var ég farin að spá í hvort að það væru einhver vandamál til staðar. Við ákváðum nú samt að gefa þessu í það minnsta ár þar til við leituðum læknisaðstoðar og viti menn, stuttu síðar varð ég ólétt. Við urðum bæði alveg rosalega glöð enda var þetta það sem okkur hafði dreymt um svo lengi. Ég fór að lesa mér til á netinu og það eina sem ég las á netinu eða í bókum var eitthvað tengt meðgöngu eða barninu. Ég var auðvitað ekki lengi að finna allar slæmu sögurnar og margar greinar um fæðingarþunglyndi. Ég hef stundum heyrt talað um að lítið sé rætt um fæðingarþunglyndi en mín reynsla er sú að þú getur fundið hinar ýmsu greinar um fæðingarþunglyndi og hversu líklegt það er að konur upplifi það. Ég fór fljótlega að verða mjög kvíðin og var svo hrædd um að fá fæðingarþunglyndi og geta ekki hugsað um barnið mitt.

Þegar ég byrjaði að fara í mæðraskoðun fékk ég bæklinga þar sem einmitt er talað um fæðingarþunglyndi. Fljótlega fór ég að finna fyrir miklum kvíða. Hann byrjaði strax á fyrstu vikunum, ég var svo hrædd um að eitthvað kæmi fyrir barnið og að ég myndi missa það en ég hafði lesið um að líkurnar á fósturláti minnkuðu mikið eftir fyrstu 12 vikurnar. Ég var kvíðin og stressuð allar fyrstu tólf vikurnar og ekki hjálpaði ógleðin neitt til. Þegar tólf vikurnar voru liðnar hélt ég að ég myndi skána og fara að líða betur, það voru jú allir að segja við mig að eftir fyrstu 3-4 mánuðina ætti ég að fara að geta notið mín vel. Það var ekki raunin hjá mér, mér fór bara að líða verr eftir því sem vikurnar liðu.

Mér hafði aldrei á ævinni liðið jafn illa. Ég hafði séð fyrir mér að meðgangan væri besti tími lífs míns eins og manni er oft talið trú um. Það er kannski staðalímynd meðgöngunnar. Á mig fóru að sækja slæmar hugsanir. Ég gladdist ekki yfir neinu, hlakkaði ekki til neins og hafði ekki einu sinni lengur tilfinningar til mannsins míns. Ég vildi helst vera heima undir sæng með slökkt ljósin og ég gat ekki hugsað mér að fara út á meðal fólks. Fólk spurði manninn minn hvernig mér liði og hann sagði að ég væri veik. Já, ég var veik, andlega en ekki líkamlega. Ógleðin fór frekar snemma eða þegar ég var komin um 13 vikur á leið en ekki batnaði líðanin. Ef ég missti það út úr mér að ég væri ekki að njóta meðgöngunnar þá var fólk fljótt að segja mér að ég ætti sko að njóta meðgöngunnar enda væri það besti tími lífs míns. Ég ætti að njóta tímans sem ég hefði ein áður en barnið kæmi með makanum og vinum. Fólk sagði mér að ég ætti að vera glöð yfir því að fá tækifæri til þess að verða ólétt, það væru sko ekkert allir svo heppnir!

Ertu ekki glöð? þú veist að það er blessun að fá að eignast barn
Þetta eiginlega gerði það að verkum að ég þorði ekki að ræða vanlíðan mína við einn né neinn. Allar konurnar sem ég þekkti og var með á Facebook voru alltaf að tala um að þær hlökkuðu svo til að eignast litla barnið, að það væri svo gaman að finna spörk og að þetta væri allt saman svo yndislegt. Ég vogaði mér ekki að segja sannleikann. Þannig var fyrir mér komið að mér var farið að líða það illa að ég vildi ekki eignast þetta barn. Ég var orðin reið í garð barnsins og mannsins míns. Þetta var svo ólíkt mér, mig hafði dreymt um að eignast barn í mörg ár og mér fannst ég vond manneskja að hugsa svona. Ég fann engin tengsl við þessa litlu veru í maganum á mér. Ég fann ekki fyrir neinni væntumþykju og ég fann ekki fyrir neinni gleði þegar ég fann fyrsta sparkið. Hvert spark minnti mig bara á vanlíðan mína. Maðurinn minn skyldi ekki hvað var í gangi og hann náði því ekki af hverju mér leið svona illa. Ég fékk líka að heyra: Ertu ekki glöð? Þú veist að það er blessun að fá að eignast barn. Ég þarf ekki að taka fram að þetta hjálpaði mér ekki mikið, þetta lét mér bara líða enn verr og ég var alveg viss um að ég væri hræðileg manneskja. Ég hætti fljótlega að vinna og gerði lítið annað en að liggja upp í rúmi undir sæng með slökkt ljós.

Manni er altlaf sagt að meðgangan sé yndislegt tímabil sem maður á að njóta. Það er talað um að konur geisli eða blómstri á meðgöngunni og það er eins gott að við séum stilltar og gerum það allar, annars eigum við ekki skilið að eignast þessi börn, þetta eru þau skilaboð sem ég fékk.

Ég vildi að ég hefði getað aflað mér meiri upplýsinga um þunglyndi á meðgöngu. Ég áttaði mig í rauninni ekki á því fyrr en eftir fæðingu hversu illa mér hafði liðið. Þá fór ég að leita mér upplýsinga um þunglyndi á meðgöngu og ég vildi óska að ég hefði vitað meira um þetta meðan á meðgöngunni stóð. Ég var of upptekin í að hafa áhyggjur af því að ég fengi fæðingarþunglyndi til að átta mig á því að ég var illa haldin af meðgönguþunglyndi.

Mig langaði að deyja og ég gat ekki séð fram á að lifa næsta dag, svona gekk þetta í marga mánuði og ég skil bara ekki hvernig ég komst í gegnum þetta. Ég minnist meðgöngunnar ekki með gleði heldur fæ ég hroll þegar ég hugsa til þessa tímabils. Ég þarf líklega ekki að taka það fram en fæðingin var á engan hátt ánægjuleg enda litlar líkur á því ef maður er kvíðinn fyrir henni og er þunglyndur á háu stigi ofan á allt. Ég óskaði barninu mínu dauða á meðgöngu, mér finnst hræðilegt að skrifa það þó ég komi ekki undir nafni og ég mun örugglega aldrei segja nokkrum manni frá þessum hugsunum mínum  á meðgöngu. Skömmin er það mikil, ég bara líð kvalir þegar ég hugsa til þess að ég hafi getað hugsað svona ljótt um yndislega barnið mitt.

Ég veit það samt í dag að ég var veik. Ég réð ekkert við þetta og ég er ekki vond manneskja. Ég var einfaldlega veik á geði og ég áttaði mig ekki á því. Það þarf að tala meira um þunglyndi á meðgöngu og að það eru ekki allir sem geta notið meðgöngunnar af ýmsum ástæðum. Ég veit ekki hvað gerðist en eftir að barnið mitt kom í heiminn elskaði ég það frá fyrsta degi . Það var eins og eitthvað gerðist inn í mér og þessi litli engill breytti lífi mínu, hann bjargaði mér og þetta er kannski klisja en ég myndi leggja meðgönguna á mig aftur fyrir hann. Ég veit samt að ef ég upplifi svona svartnætti aftur þá þarf ég að leita mér hjálpar og tala um vanlíðanina.

Ég veit ekki hvað olli þessu hjá mér, ég var ekki í aukinni áhættu, hafði ekki barist við þunglyndi áður, var í sterku sambandi, átti góða fjölskyldu, hafði langað að eignast barn lengi og var vel stödd fjárhagslega. Það gæti verið að hormónarnir hafi haft þessi áhrif og allskonar annað sem hefur spilað inn í. Mér fannst til dæmis mjög erfitt að sjá líkamann breytast og meðgöngukvillar hjálpa ekki til þegar manni líður illa andlega. Ég vil bara vekja athygli á því að það eru ekki allar meðgöngur frábærar og það eru ekki allar konur sem eru það heppnar að njóta meðgöngunnar.

Ég tel mig hafa sloppið við fæðingarþunglyndi og það er víst algengt að konur sem þjást af þunglyndi á meðgöngu fái fæðingarþunglyndi líka. Þegar barnið mitt fæddist breyttist allt og ég varð aftur ég sjálf. Ég elska þetta barn meira en allt annað og nýt þess að vakna með englinum mínum á morgnana og eyða með honum deginum. Hvert bros, hjal og allar þær stundir sem ég fæ að kúra með þessum engli gera mig meira hamingjusama en ég gæti mögulega lýst með orðum.

Ég vildi að ég væri nógu sterk til að segja öllum frá þessu en ég skammast mín enn of mikið til að gera það. Ég vona að einn daginn þori ég að segja mínum vinum og kunningjum frá þessu en sá dagur er ekki enn kominn. Ég veit að ég á ekki að skammast mín en ég bara geri það samt. Ég vona að mín frásögn hjálpi einhverjum í sömu sporum og þær konur sem þjást af meðgönguþunglyndi, þið eruð ekki einar!

 

SHARE