Eftir að hafa verið að takast á við eigið sjálf og ná sátt við að ég er með vefjagigt og þarf að læra að lifa hamingjuríku lífi með henni. Þá er ég loks komin á þann stað að vera sátt.

Sátt við að læknirinn vill að ég fari í endurhæfingu og að ég sé í sjúkraleyfi, já það hefur reynst mér erfitt að ná þessari sátt.

Í dag horfi ég á sjálfa mig sem fyrirtæki og ef einhver spyr mig: hvar ertu að vinna ?

Þá er svarið hjá fyrirtækinu ÉG SJÁLF EHF

Mín vinna er ég og það að ná sáttinni hefur styrkt þetta fyrirtæki heilan helling.

Sjálfsmynd mín var mjög háð því hvaða stöðu ég hafði á vinnumarkaðinum og mér fannst lengi vel að ég væri ekkert eða allavega verri enn aðrir þar sem ég var heima í sjúkraleyfi!

Eigin fordómar finnast víða en vá hvað þetta hefur verið þroskandi ferli, erfitt en mjög þroskandi ferli og ég hef öðlast alveg nýja sýn á fólk sem ekki getur stundað vinnu einhverra hluta vegna.

Á margan hátt hefur þetta ferli styrkt sjálfið mitt og í dag er ég ekki starfið mitt en ég er ekki heldur sjúklingurinn, nei ég er bara ÉG SJÁLF og það er svakalega gott.

Suma daga er ég ofur hress en aðra daga ekki, mér gengur betur núna, en nokkurn tímann áður, að taka einn dag í einu. Já og leyfi mér bara að liggja í leti ef ég vill og gríp tækifærin sem koma til mín.

Ég hef þurft að sætta mig við að geta ekki lengur gert það sem ég gat, eins og að labba á fjöll en ég get unnið mig aftur á þann stað og það er það sem fyrirtækið ÉG SJÁLF er að gera. Í dag er ég í göngutúrum á jafnsléttu en markmiðið mitt er hátt upp.

Eftir að ég náði sáttinni sem tók alveg nokkra mánuði þá hef ég markvisst verið að þroska mig og í síðustu viku fór ég alein til útlanda.

Ég ákvað að heimsækja eina af mínum bestu vinkonum til Danmerkur og vera hjá henni í nokkra daga.

Það var rosa fín ferð og svakalega notalegt að ferðast ein, var með hljóðbók í símanum til að hlusta á í fluginu ( mæli sko með því).

Við áttum frábærar stundir skruppum yfir til Þýskalands og ég sem hef alltaf verið gasalega sjóhrædd var sultuslök í ferjunni.

Það er svo magnað að vera sáttur í eigin skinni og sáttur við stöðuna í lífinu. Með þessari sátt er ég hætt að hafa áhyggjur af áliti annara, það er jú bara álit þeirra.

Merkilegt hvernig erfiðleikar geta þroskað mann ef maður kýs að nýta þá sér til þroska.

Nú lít ég á fyrirtækið ÉG SJÁLF sem skemmtilegt verkefni og er alveg ákveðin í að efla þetta fyrirtæki þannig að það nái að vaxa og dafna.

Þar sem ég hef unnið mikið við að efla sjálfsmynd fólks kann ég mörg góð trix og eitt af því sem ég nota óspart er:

Power pose en það er líkamsstaða sem styrkir okkur

Set hér inn mynd af ÉG SJÁLF í power pose

Munum að við eigum bara okkur sjálf og það er okkar að lifa þessu lífi til fulls og þroskast.

 

Mæli með að taka power pose 3x á dag 🙂

 

 

SHARE