„Ég þarf bara að berjast við þessa karla“

Svava Kristín starfaði sem íþróttafréttamaður á 365 um nokkurra mánaða skeið og upplifði aldrei vanvirðingu í sinn garð. Hún telur að fjölmiðlafyrirtækin vilji ráða konur en það sé oft erfitt vegna niðurskurðar og reynsluleysis.

„Allir á þessari mynd eru betri íþróttafréttamenn en ég. Það er ekki af því ég er kona, heldur af því ég hef bara sex mánaða reynslu af því að starfa sem íþróttafréttamaður, á meðan þeir hafa verið þarna í mörg ár,“ segir Svava Kristín Grétarsdóttir sem gegndi starfi íþróttafréttamanns á 365 á síðasta ári og vísar þar í auglýsingu frá fyrirtækinu sem gekk eins eldur í sinu um netheima í vikunni. Á henni eru 12 karlmenn og þeir sagðir starfa á öflugustu íþróttadeild landins.

6 ára í viðtali hjá Gaupa

„Auðvitað hefði verið gaman að sjá konu á þessari mynd, en akkúrat núna er bara ekki kona í 100 prósent starfi þarna,“ heldur Svava áfram. Hún er sannfærð um að ástæðan fyrir því að svo fáar konur starfi sem íþróttamenn hérlendis sé ekki sú að það sé ekki vilji til þess að ráða konur á íþróttadeildirnar.

„Ég á karlkyns vini á svipuðum aldri og ég sem hafa sótt um starf á íþróttadeildinni en ekki fengið. Þeir vilja einfaldlega fólk með reynslu. Ég man eftir því þegar ég var sex ára þá tók Gaupi (Guðjón Guðmundsson) viðtal við mig á Pæjumótinu. Eðlilega veit hann meira um íþróttir en ég, hann hefur miklu meiri reynslu. Ég held að þetta sé miklu meira spurning um að það er stöðugur niðurskurður hjá fjölmiðlafyrirtækjunum í landinu og því erfitt að hleypa reynslulausu fólki að. Auðvitað er það svo alveg umræða sem má taka, hvort megi ekki fara að skipta út og yngja upp.“

Hrósað af þjálfara

Sjálf brennur Svava fyrir því að starfa sem íþróttafréttamaður. „Ég er búin að sækja um. Um leið og samningurinn minn rann út í fyrra þá sótti ég um aftur og líka fyrir sumarið. Ég þrái að komast þarna inn aftur. Þetta er skemmtilegasta starf sem ég hef unnið. Ég þarf þá bara að berjast við þessa karla,“ segir hún kímin.

Svava, sem hefur mikinn áhuga á íþróttum og fylgist vel með, viðurkennir að hún hafi verið töluvert stressuð þegar kom að því að taka fyrsta alvöru viðtalið við þjálfara í Pepsídeild karla í fótbolta. „Ég fór að ímynda mér að hann héldi að hann væri að fara að tala við einhverja litla stelpu sem vissi ekki neitt um fótbolta. En það var bara eitthvað sem ég bjó til og var aldrei til staðar. Ég frétti það svo eftir viðtalið að þessi þjálfari talaði um hvað hann hafi verið ánægður með mig, bjóst ekki við því hversu ágeng ég var, enda gaf ég honum ekkert eftir.“

Ekki bara sæta stelpan

Svava segist aldrei hafa upplifað vanvirðingu í sinn garð innan íþróttaheimsins eða frá kollegum. Það hafi frekar verið hinn almenni borgari sem virtist telja að hún væri bara sæta stelpan sem fengi fréttirnar skrifaðar og læsi þær upp.
„Mér fannst frábært að finna virðinguna sem ég fékk frá íþróttamönnum og þjálfurum á landinu, sérstaklega frá strákunum í Pepsídeildinni sem fólk heldur að gagnrýnin sé að koma mest frá.“

 

SHARE