„Ég þekki þunglyndi mjög vel“ – Verum þakklát, það skiptir máli

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

Verum þakklát, það skiptir máli.

Æskan mín var fullkomin. Í minningunni.
Að sjálfsögðu komu fyrir slæmir hlutir, eins og hendir alla. En ekki svo slæmir að ég muni eftir þeim eða að þeir hafi haft slæm áhrif á framtíð mína.

Mig langar að skrifa um það sem ég er svo þakklát fyrir, en sem svo margir líta á sem sjálfsagða hluti.

Byrjum á mömmu og pabba. Fólkið sem ég hef alltaf, og mun alltaf geta treyst á, sama hvað. Pabbi sem kann sko heldur betur að dekra við litlu prinsessuna sína og mamma sem elskar mann alltaf jafn mikið þrátt fyrir að maður setji ekki óhreinu fötin í óhreina tauið, komi of seint heim og fylgi ekki öllum reglum.
Ég á vini sem eiga ekki mömmu, ég á vini sem eiga mömmu bundna hjólastól og sem getur ekki talað. Ég á vini sem eiga vonda pabba, pabba sem meiða, beita líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi.
Ég er 19 ára gömul og get ennþá (og geri það stundum) skriðið upp í rúm til mömmu og pabba þar sem allt er gott og ég þarf ekkert að óttast. Mamma og pabbi eru ekki alltaf sammála manni eða taka hlutunum ekki alltaf eins og maður vill að þau geri. Á tímabili lífsins eru þau alltaf ósanngjörn og leiðinleg. En þrátt fyrir alla frekjuna, öll rifrildin og alla ósangirnina, þá eru þau þarna, stórir, sterkir klettar, standa við bakið á manni í einu og öllu og elska mann skilyrðislaust.
Bíómyndaforeldrar ekki satt? Þannig eru mínir foreldrar allavega, en því miður ekki allir foreldrar.

Bræður mínir. Þeir eru þarna til að passa uppá mig.
Ég er litla systir tveggja bræðra og að þeirra sögn er ég það sem getur lífinu þeirra gildi. Lítill demantur sem þeir passa uppá, betur en allt. Hvað höfum við oft rifist, slegist og verið óstjórnlega pirruð út í hvort annað? Samt er ég ennþá litli demanturinn þeirra, og ennþá eru þeir fyrirmyndirnar mínar.
Ég á vini sem hafa aldrei kynnst því hvernig er að eiga systkini. Ég á vini sem eiga systkini sem eru ekkert góð við þau. Ég á vini sem eiga systkini í mikilli neyslu. Ég á líka vini sem hafa kynnst því hvernig er að missa systkinið sitt.
Það þarf enginn sérfræðingur að segja mér það að bræður mínir, þessi prakkarar séu engir englar.
En þrátt fyrir það hef ég aldrei fengið að kynnast neinni annarri hlið á þeim, þessa góðu, ljúfu engla hlið. Því þeir passa mig, þeir eru fyrirmyndir mínar og bestu vinir mínir, og þeir vita það.

Amma og afi. Guðsgjafir ekki satt?
Ég á tvær yndislegar ömmur og einn afa, og vill meina það að þau séu þau bestu í heimi. Önnur amman mín er mér þó nánári, og leita ég til hennar ef þörf er á. Frá því hvernig á að sjóða egg og uppí það hvernig á að bjarga mannslífi. Amma veit allt best!
Frá fæðingu hafa amma og afi alltaf getað passað okkur systkinin, þrátt fyrir að hafa kannski einstaka sinum engann vegin nennt því. Að vera með lítinn frekan, öskrandi krakka á laugardagskvöldi sem kann ekki að meta eitt né neitt sem gert er fyrir það.
Þetta fólk er líkalegt það fólk sem hefur kennt mér hvað mest og elskar mig mest þrátt fyrir frekjuna og vanþakklætina.
Ég á vini sem hafa aldrei fengið að kynnast því hvernig er að eiga ömmur og afa. Ég á líka vini sem eiga alls ekkert góðar ömmur og afa. Ég á vini sem að gera sér ekki grein fyrir því hvaða fólk amma og afir eru, þau rækta ekki sambandið við þau og ætla alltaf að kíkja í heimsókn seinna. Mér finnst sumir þurfa að gera sér grein fyrri því hvað ömmu og afa þykri vænt um að fá heimsókn einstöku sinnum frá barnabörnunum sínum.
Önnur amma mín er mér nánari, og ég hleyp yfir í næsta hús til hennar oft og mörgum sinnum, en þvi miður býr hin amma mín hinumegin á landinu, og þess vegna er oft erfitt að halda eins miklu sambandi við hana.
Verum þakklát fyrir ömmu og afa og sýnum þeim það!!!

Frændur og frænkur. Ég á risa stóra fjölskyldu, og ekki er það fólk af verri endanum. Eins og gefur að skilja eru aðrir nánari manni en hinir. Til að nefna dæmi á ég eina frænku, sem er mér eins og systir, hvað hefur hún ekki kennt mér? Það er ýmislegt sem ég kynni ekki, ef hún væri ekki mín. Hún á þrjá fallega syni, þeir eru litlu demantarnir mínir. Elsti bróðir minn á son, og allir þessir litlu guttar eru mínir demantar. Ég á stóra bræður sem kenndu mér hvernig á að fara með mikilvæga, fallega demanta eins og þá. Þeir eru það sem gefur mínu lífi gildi og eru það fallegasta sem ég á, ásmt öllum þeim frændsystkinum sem ég á, sem eru ábyggilega hátt upp þúsund.
Og ekki eru þau eldri eitthvað verri, hafa leyfa mér að búa hjá sér, passað mig og komið fram við mig eins og sitt eigið barn. Þeim þykir svo vænt um mig. Allt þetta fólk er svo ómetanlegt!

Síðast en ekki síst vinirnir.
Eins og með afa og ömmu, þá tel ég mig eiga bestu vini veraldar. Ég á vini sem eru skilningslausir og ótraustir. En ég á líka vini sem eru svo skilningsríkir og traustir að það er næstum því óraunverulegt. Og maður gleymir oft að vera þakklátur fyrir það, einblynir á það hvað hinir og þessir eru miklir hálvitar og geta aldrei haldið kjafti.
Þó að ég ætli ekki að fara skrifa um einelti hérna, þá heyrir maður allt, allt of mikið af krökkum, og fólki yfir höfuð sem eiga ekki vini og eru lagðir í einelti, það gróft einelti að það er að eyðileggja mannslíf.

Þrátt fyrir þetta fullkomna fólk sem ég á, og fullkomna æsku þá er lífið mitt alls ekki svo fullkomið. Síðastliðin ár hef ég þurft að takast á við mikið af vandamálum og hef lent í ýmsu. Ég hef verið að glíma við mikið þunglyndi og það er erfitt, og það er sérstaklega erfitt þá, að eiga vini sem eru óskilningsríkir. En svo ómetanlegt að eiga fjölskyldu og vini sem eru skilningsríkir og hjálpa.
Ég hef mikið verið að lesa greinar sem fólk er að skrifa, um hvað það eigi erfitt. Það hefur lent í nauðgunum, ofbeldi og öðru slíku, sem er hræðilegt að lesa, og mér finnst leiðinlegt að sjá hversu margir hafa lent í slæmum hlutum sem eru að hafa slæm áhrif á líf fólks og hversu margir íslendingar eru þunglynir. Ég þekki þunglyndi mjög vel, það er erfitt að vera jákvæður, það er erfitt að vakna, það er erfitt að vera vakandi og lífið er svo erfitt!!

Ég fór einu sinni til sálfræðings sem sagði mér að skrifa, skrifa og skrifa. Skrifa bara um allt og ekkert, skrifa bara það sem ég hugsaði. Ég hef oft hugsað, þegar ég les greinar á netinu, um að skrifa grein, um það sem ég hef þurft að ganga í gegnum og hvað ég hef haft það erfitt. Og ég hef sko heldur betur skrifað, og í rauninni gæti ég skrifað heilu bækurnar um það eitt, hvernig mér líður. En ég hef komist að því, þó það hjálpi mér rosalega upp að vissu marki, þá dregur það mig líka niður. Ég ákvað þess vegna að skrifa eitthvað jákvætt, því maður hefur jú, inná milli líka lesið frábærar greinar um það hvað fólki hefur gengið vel og hvað það á frábært líf.
Þetta sem ég er að skrifa núna, dregur mig ekki niður, ekki neitt, og af hverju ætti þetta að gera það? Ég á fullkomið fólk, og þegar ég hugsa um þetta, ég var svo þunglynd á tímabili að mér fannst lífið tilgangslaust og ég hafði ekkert til að lifa fyrir. En það er bara kjaftæði, ég á fullkomna fjölskyldu, ég á fullkomið fólk í kringum mig. Ég á mömmu og pabba sem eru mér allt, ÉG gef lífi bræðra minna gildi, og ég er ekkert annað en fallegt blóm og skært ljós í lífi ömmu og afa. Ég hef svo margt að lifa fyrir. Ég á lítil frændsystkini sem eru mínir demantar, og ég er fyrirmynd þessara demanta. Ég er búin að læra hvernig á að fara með svona dýrmæta demanta sem maður eignast, og ég ætla að gera eins vel og mitt fólk hefur gert.
Hvar væri ég stödd í lífinu ef ég ætti ekki þetta fólk, það er ekkert sjálfsagt að allir í kringum mann séu svona ljúfir og góðir, og fullkomnir! Ég get ekki sjálf skilið í dag, hvernig ég gat hugsað að lífið mitt væri einskins virði og ég hafði ekkert til að lifa fyrir. Það er svo mikið af fólk í þessum heimi sem á enga að. Ég er svo þakklát fyrir þetta fólk!

Ég var vanþakklát, ég var vanþakklát fyrir það fólk mitt, ég tók fólkinu mínu sem sjálfsögðum. Ég er búin að átta mig á því, að fólkið mitt er fullkomið, með þessari hugsun á hverjum einasta degi er ég að sigrast hægt og rólega á þunglyndinu mínu, fólkið mitt bjargaði lífi mínu.
Njótum hvers augnabliks með þeim sem okkur þykir vænt um.

Fyrsta skrefið að því að verða hamingjusamur, er að vera þakklát fyrir það sem maður á..

SHARE