„Ég var bara venjuleg stelpa“ – Samkynhneigð kona segir sína sögu

Ég held að ég hafi verið bara mjög venjuleg stelpa. Skar mig ekkert sérstaklega úr fjöldanum og á ákveðnum aldri fór ég jú alveg að verða skotin í strákum eins og hinar stelpurnar. Það var jú “normið”. Þegar ég varð eldri eignaðist ég alveg nokkra kærasta sem mér þótti mjög vænt um og var alveg skotin í. Við vorum góðir vinir, þeir voru skemmtilegir og fannst kynlífið jafnvel fínt líka. Eða þekkti ég kannski ekkert annað?

Ég stóð mig alveg að því að finnast stelpur mjög sætar og flottar, veitti þeim alveg athygli líka eins og t.d. í blöðum. En hvað? Aldrei benti ég á flottu stelpurnar í blöðunum eða á netinu eða grínaðist við vinkonur mínar að ég væri til í þessa eða þessa. Lokaði frekar á það og dró augun frekar að strákunum, hvað þessi væri nú flottur. Póstaði ekki fréttum um 10 kynþokkafyllstu konurnar á facebook, frekar 10 kynþokkafyllstu mennina með tilheyrandi kommenti fyrir ofan. Eftir á að hyggja fannst mér þær miklu fallegri á allan hátt. Ég bara leyfði mér ekki að finnast það.

Fyrir nokkrum árum kynnstist ég stelpu. Við urðum strax mjög góðar vinkonur og vorum mikið saman. Við áttum svo margt sameiginlegt og nutum þess að vera í kringum hvor aðra, það var engu líkara en að við hefðum alltaf þekkst. Það var einfaldlega einhver tenging. Eftir smá tíma varð nándin meiri og meiri, eitthvað meira en eðlilegt telst í venjulegum vinasamböndum. Það var augljóslega þörf á einhverju meiru, en það var ekki í boði. Við vorum hvorugar samkynhneigðar.

Í nokkur skipti gengum við lengra en vinkonur gera, en svo var lokað á það um leið og allskonar afsakanir fundnar eins og t.d. áfengisneysla eða bara grín. Við erum bara vinkonur. Það er um þetta leyti sem vinskapurinn fór að verða flókinn. Við fórum að koma illa fram við hvor aðra, kannski til að gera tilraun til að minnka hrifninguna á hvor annari sem var það augljós að aðrir sáu í gegnum hana að okkur óvitandi, kannski var þetta afprýðissemi.

Mögulega var þetta hinn venjubundni pirringur fólks í samböndum, sem það getur þá rætt og hvers það ætlast til af hinum aðilanum. Eða jafnvel fengið smá útrás á góðan hátt á hvort öðru eins og mörg okkar þekkjum. Vinskapurinn var farinn að einkennast af pirringi og feluleik, einskonar þegjandi samkomulag um að draga úr honum og svo á endanum slíta honum alveg. Ég er þó nokkuð viss um að hrifningin og duldir draumar um framtíð saman hafi verið enn til staðar. Það var bara ekkert af þessu sem gekk upp. Við tók þegjandi söknuður allavega frá mínum dyrum og finnst ekki ólíklegt að það hafi verið svoleiðis hjá henni líka að einhverju leyti.

Eftir á að hyggja finnst mér þetta sorglegt. Eftir hverju leitar fólk þegar það finnur sér lífsförunaut? Að fólk skuli láta sér hvort annað úr greipum renna af því að það er ekki tilbúið að vera það sem það er. Hugsar frekar um hvað vinunum finnst, hvað fjölskyldunni finnst, manneskjuna sem það er búið í rauninni að leika t.d. með hrifningunni af flottu karlleikurunum og svo ótal margt fleira.

Eftir að þessum vinskap lauk hélt ég áfram leitinni að hinum eina rétta. Á endanum var alltaf eitthvað sem gekk ekki upp þó sambandið og samskiptin væru skemmtileg og góð.
Fyrir tilviljun kynntist ég stelpu sem mér líkaði virkilega vel við. En það sem hræddi mig smá var að upphafið af vinskapnum var alls ekki ólíkt og upphafið af vinskapnum sem ég lýsti hér að ofan. Vorum mikið saman, áttum svo margt sameginlegt, sögðum hvor annari ótrúlegustu hluti mjög snemma, það var var engu líkara en að við hefðum alltaf þekkst. Hljómar kannski kunnulega frá því fyrr í þessari frásögn. En munurinn á framhaldinu er sá að þarna sá ég að ég hefði annað tækifæri. Ég hafði fundið aftur fyrir þessari tengingu sem ég hef aldrei fundið í samböndum með karlmönnum þó að ég hefði haldið að ég væri í góðu sambandi. Ég ætlaði ekki að bæla niður tilfinningar mínar og klúðra því sem mögulega gæti orðið. Þessi stelpa er nú konan mín í dag og búin að vera til nokkura ára. Eigum tvö gullfalleg og skemmtileg börn sem líkjast okkur í einu og öllu. Elskum ennþá að vera í kring um hvor aðra og stunda okkar sameginlegu áhugamál, og nú með tvær litlar skellibjöllur sem æpa stöðugt “mamma!” (heyrum það líklega tvöfallt oftar en aðar mömmur) sem er dásamlegt.

Vinir okkar og fjölskylda tóku sambandinu bara eins og hverju öðru sambandi og ekki hræða sem ekki samgladdist okkur að hafa fundið hvor aðra. Það fór ekkert á milli mála að hrifningin af hvor annari var augljós og leyfði ég mér að sjá hana líka, ég hafði fundið mína tenginu í lífinu. Skora á aðra sem halda að þeir hafi ekki leyft sér að finna hana að láta verða af því.

ÞESSI GREIN ER AÐSEND TIL HÚN.IS EN SKOÐANIR EÐA FULLYRÐINGAR SEM FRAM KOMA Í HENNI ENDURSPEGLA EKKI SKOÐANIR HÚN.IS OG ERU FULLYRÐINGAR Á ÁBYRGÐ ÞESS SEM GREININA SENDIR INN

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here