„Ég verð fyrir andlegu ofbeldi frá konunni minni“ – Þjóðarsálin

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

Ég hef lengi ætlað að skrifa hérna inn og ákvað í kvöld að láta verða af því. Ég er maður á fertugsaldri sem hef verið giftur í mörg ár og tel mig vera ágætlega venjulegan mann. Ég var um daginn á læknastofu og fór að fletta í bækling, sem er ekki frásögu færandi, nema hvað að þessi bæklingur fjallaði um ofbeldi. Ég vil taka það fram að ég er engin aðdáandi ofbeldis en það var ekki úr miklu að moða á þessari biðstofu svo ég lét mér þetta nægja.

Á einni síðu bæklingsins var sagt frá andlegu ofbeldi í makasambandi og það sem ég las fékk mig til að hugsa, því samkvæmt þessum bækling verð ég fyrir andlegu ofbeldi frá konu minni. Ég hef, eins og svo margir, séð fyrir mér að ofbeldi á heimilum sé í flestum tilfellum þannig að maðurinn beiti konuna andlegu ofbeldi en ekki öfugt.

Þetta eru ástæðurnar fyrir því að ég tel mig verða fyrir andlegu ofbeldi:

Það er nefnilega þannig á mínu heimili að konan mín er mjög dugleg að láta mig vita að ég er ekki í sama góða forminu og ég var þegar við vorum að byrja okkar samband og við getum stundum hlegið að þessu en ég verð að viðurkenna að þetta leggst á sálina mína. Ég fer að hugsa með mér að ég sé frekar latur og finnst ég vera algjörlega vonlaus ef ég fer ekki í leikfimi oftar en 3 svar í viku.

Konan mín er líka dugleg við að segja mér að ég gangi ekki nógu vel um á heimilinu og á það til að koma því inn í spjall við vinafólk og verður það til þess að fólk hlær og allt í góðu, en ég gjörsamlega þoli ekki þegar hún gerir þetta.

Hún fer líka í fýlu út í mig og ég veit ekkert af hverju oft á tíðum. Hún lætur mig finna það að hún er fúl og svo kemur upp úr krafsinu að þetta er útaf einhverju sem ég gerði EKKI, tók ekki úr þvottavélinni eða uppþvottavélinni og ég vissi ekki einu sinni að hún ætlaðist til þess af mér.

Hún notar kynlíf til þess að fá það sem hún vill frá mér. Ég fæ ekki kynlíf ef hún er ósátt við mig eða eitthvað sem ég geri, já eða geri ekki og ég þarf að „haga mér vel“ til þess að eiga séns á  því að fá kynlíf.

Þetta eru bara nokkur dæmi og mér finnst allt í lagi að það  komi fram að konur beita líka andlegu ofbeldi í samböndum en ekki bara við karlmennirnir.

 

 

 

 

SHARE