Einstæðir feður geta líka haft það slæmt – Reynslusaga

Ég er 27 ára gamall strákur og horfi á sjálfan mig sem aumingja.

Ég bý á norðurlandi með dóttur minni sem gengur rosalega vel. Hún er í leikskóla og ég er í vinnu. Ég vinn fyrir heimilinu eða allavega reyni að gera það. Ég horfi á sjálfan mig sem veikan einstakling og tel mig vera það án þess að hafa fengið það staðfest frá lækni. Ég hef alltaf hugsað um dóttur mína númer  1,2 og 3. Mig langar ekki að bregðast henni. En málið er þannig að ég hugsa það oft á dag að ég geti ekki meira. Ég átti yndislega kærustu sem hugsaði vel um dóttur mína en hún vildi ekki vera stjúpa og fór í raun frá okkur  til að finna sig og hvað hún vildi. Rétt fyrir jólin 2012 var dóttir mín hjá mömmu sinni og fjárhagurinn var MJÖG slæmur hjá mér, var í vinnu sem borgaði lítið sem ekkert og fékk útborgað 102.000 og er að borga leigu á húsi sem er 105.000. Ég sá ekki fram á að geta haldið jól, hvað þá að geta gefið dóttur minni sem átti að koma eftir 5daga jólagjöf og í vinnunni minni var haglabyssa og ég ætlaði að enda þetta þarna. En ég hætti við það og ákvað í staðinn að ganga úr vinnunni út í buska klæddur í nánast ekkert og vonaðist til að enginn myndi sjá mig. Ég gekk í 2 tíma í átt að sjónum grátandi og hugsaði hvað ég gæti gert fyrir yndislegu dóttur mína og hvernig ég ætti að láta þetta ganga. Þegar ég kem út að sjó þar sem að risastór fjara er settist ég niður og fór að hugsa um hvar ég væri án hennar í dag. Ég væri líklegast í reykjavík, atvinnulaus og bara aumingi en hugsaði svo hvað ég væri að gera gott fyrir dóttir mína og komst að því að það var ekki mikið og þá langaði mig ennþá meira að fyrirfara mér. Eftir nokkrar mínútur komu tengdamóðir mín og pabbi keyrandi og fundu mig og báðu mig að koma með sér og ég neitaði. Eftir að hafa labbað með jeppa á eftir mér og tengdamömmu mína hliðiná mér í 20mínútur komum við að ós sem ég hafði hugsað mér að hoppa útí og finnast ekki aftur, straumurinn var ekki mikill þar sem ég var svo mig vantaði að komast á brúnna til að hoppa þaðan oní og hélt af stað. Þegar ég ætla á brúnna kemur lögreglan með björgunarsveitina og sjúkrabíl og biðja mig að koma með sér, ég hélt nú ekki og varð svo reiður að vita að þeim þarna að ég tryllist og það þurfti 5 menn til að ná mér niður og var svo settur í sjúkrabíl og keyrður með hraði á geðdeild, mér leið ekki vel þar og talaði við lækni þar sem sá ekki tilgang í að halda mér lengur svo ég fór þaðan og fékk smá aðstoð frá félagsyfirvöldum yfir jólin. Sá tími reddaðist alveg. Núna tveim mánuðum seinna er ég kominn í svipaða stöðu nema dóttir mín er hjá mér og ég myndi aldrei fyrir mitt litla líf enda líf mitt með hana hjá mér. Mér var sagt upp af stelpunni sem ég elska meira en margt í lífinu og veit í raun ekki hvað ég hef að gera ennþá. Mig langar að halda áfram að vera í vinnu og reyna að finna ástina aftur en sé samt ekki framtíðina svona. Ég hef alltaf treyst á fólkið í kringum mig og geri það enn þann dag í dag en finnst það bara rangt auðvitað á ég bara að treysta á sjálfan mig og halda áfram með lífið en ég hef aldrei verið þannig. Ég hef alltaf verið of mikið með tilfinningar í öllu og get ekki bara hætt því. Mig langar til læknis og fá hjálp en þá finnst mér ég vera að gefast upp og bregðast dóttir minni. Ég á ekki bíl og ég á í raun ekkert og get ekkert farið og gert neitt. Ég hef ekki haft efni á því að kaupa mér neitt fyrir mig í meira en eitt ár, fötin mín eru slitin og mér líður eins og heimilislausum aumingja.  Dóttir mín er glöð hjá mér og það er ekki vandamálið, hún elskar pabba sinn og ég sé það alveg. En einhvernvegin horfi ég á mig sem slæman pabba. Ég geri allt fyrir hana en samt finnst mér það.  Konur segja alltaf að karlmenn hafi ekki tilfinningar, en ég held að ég hafi fengið þær allar. Sit og hlusta á lög, græt og hugsa um að lífið geti ekki gengið án ástinnar.

Mig langaði að skrifa þetta til að sýna fólki að við strákarnir höfum það ekki alltaf gott, það eru ekki bara konur sem að hafa það slæmt á íslandi, og hvað þá einstæðir feður.

SHARE