Ekki amaleg búbót að hafa hænur

Það er fátt er vinalegra en að hafa hænur spásserandi í garðinum heima hjá sér. Íslensku landnámshænurnar hafa mikinn karakter og eru bæði sjálfbærar og duglegar. Þær borða gróður og skordýr í garðinum,  auk þess borða þær mat sem til fellur frá heimilinu og þær þurfa ekki mikið pláss.

Að vísu þurfa þær kofa, tilvalið er að breyta dúkkukofanum sem barnið er vaxið upp úr í hænsnakofa eða smíða hann sjálfur og fyrir þá sem hafa ekki tök á því er hægt að kaupa notaðan eða nýjan. Kofinn þarf að vera einangraður og helst með ljósi svo hægt sé að hafa hitaperu hjá þeim yfir veturinn. Gott er að hafa útigerði svo þær komist sjálfar út og inn, ílát undir vatn og fóðurkassi eru líka nauðsynlegir inanstokksmunir og prik í loftinu, þær elska prik. Sú sem ræður pantar efsta prikið svo koll af kolli eftir því hvar þær eru staddar í goggunaröðinni.

Abbadísirnar þurfa líka varpkassa sem gott er að fylla til hálfs með sagi. Hænur er mjög viðkvæmar skepnur og til eru dæmi þess að þær fari í varpverkfall ef ekki fer nógu vel um þær eða ef rafmagnsstrengur liggur í jörðu nálægt kofanum. En yfirleitt eru þær hamingjusamar, eins og öll húsdýr eru ef hugsað er vel um þau, og þá fyllist varpkassinn jafnóðum af nýorpnum eggjum, ekki amaleg búbót það.

SHARE