Ekki leggja í stæði ætluð fötluðum! – Barnið mitt myndi alveg vilja skipta við þá sem þurfa ekki á þessum stæðum að halda!

Fyrir nokkrum árum spáði ég ekki mikið í stæði fyrir fatlaða. Þau voru bara þarna og ég vissi að ég ætti ekki að leggja í þessi stæði, aðrir þurftu á þessum stæðum að halda. Það var ekki fyrr en ég eignaðist mikið fatlað barn sem ég áttaði mig á alvarleika þess að leggja í þessi stæði þegar þú þarft ekki á því að halda. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að geta lagt í þessi stæði vegna þess að barnið okkar á erfitt með að komast milli staða enda er það alveg bundið við hjólastól og ýmis tæki. Barnið mitt þarf til dæmis að fara upp á Barnaspítala reglulega og við höfum lent í því að öll stæðin séu upptekin. Það væri skiljanlegt ef bílarnir hefðu verið merktir en ég hef því miður séð bíla sem hafa ekki réttindi til að leggja í merkt stæði, taka þessi stæði þannig að við sem þurfum á þeim að halda þurfum að leggja langt frá inngangi spítalans og koma barninu inn, það getur verið mjög snúið. Það skiptir ekki máli hvar stæðið fyrir fatlað fólk er staðsett, fólk sem er ekki hreyfihamlað eða með fatlað barn eða ættingja á EKKI að leggja í þessi stæði! Þessi stæði eru fyrir fólk sem þarf á þeim að halda og það er ástæða fyrir því að þessi stæði eru nálægt inngangi bygginga. Þakkaðu fyrir það að þurfa ekki á þessum stæðum að halda. Ég er viss um að barnið mitt myndi frekar velja það að þurfa ekki á þessum stæðum að halda, barnið mitt myndi alveg vilja skipta við þá sem þurfa að leggja aðeins lengra frá.

Mér og okkur fjölskyldunni finnst mjög sorglegt að sjá myndir af fólki leggja í stæði sem ætlað er fötluðu fólki. Nú síðast sáum við mynd af manni sem lagði ekki í eitt heldur tvö stæði!! Er það eðlilegt? Mér finnst það ekki og ég myndi skammast mín að vita til þess að ég gæti hugsanlega verið að gera fólki sem þarf að komast og nýta sér einhverja þjónustu mjög erfitt fyrir. Ég segi við það fólk sem leggur það í vana sinn að leggja í þessi stæði; Settu þig í spor annarra! Ef þú þyrftir á þessum stæðum að halda myndi þér finnast ásættanlegt að fólk sem er fullkomlega heilbrigt taki þessi stæði og leggi í þau af því að þeim finnst þau betri en allir aðrir og nenna ekki að labba nokkur auka skref?

Ég bið ykkur um að sýna tillitsemi og hugsa um fólkið sem virkilega þarf á þessum stæðum að halda. EKKI VERA FÁVITI!

 

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

SHARE