Stundum velti ég því fyrir mér hvort það sé alltaf allt tipp topp heima hjá öðrum.

Ég meina við erum þrjú fullorðin í heimili og fjórir kettir og það er reglulega eins og það hafi farið skýstrókur um heimilið!

Jebb… stundum flæðir þvotturinn út um allt og vaskurinn er troðinn. Við eigum sko alveg þvottavél og uppþvottavél en stundum þá bara finnst okkur þessi verk ekki vera aðalmálið.

Ekki miskilja mig, meira svona  við erum ekki nein sóðaprik, kanski smá á köflum draslarar myndi ég segja. Æ þið vitið peysa hér og sokkar þar og svoleiðis…

Svo er bara allt út um allt, ég hef stundum velt því fyrir mér hvort þetta sé bara hjá okkur. Mér finnst alltaf svo fínt hjá öllum hinum þegar ég kem í kaffi eða eitthvað.

Ég játa það reyndar skammlaust að ég er hætt að stressa mig á smá drasli og nenni alls ekki að taka geðveikan gestasprett áður en einhver kemur. Nei sú tíð er löngu liðin.

Æi hérna í gamla daga þá var ég með tuskuna á lofti og tók geggjaða gestaspretti allt alveg tipp topp þegar einhver kom og var frekar geðill og leiðinleg þó ég segi sjálf frá.

En nei ekki í dag í dag nenni ég ekki þessu bulli lífið er alltof dýrmætt til að eyða því í endalaus heimilisþrif, ég meina á meðan það er ekki skítur þá er smá drasl bara heimilislegt og hamingjan meiri á heimilinu af því húsfrúin er slakari og skemmtilegri.

Eða hvað er ég kanski bara orðin löt með hækkandi alldri eða komin með mótþróþrjóskuröskun?

Þið vitið ég er hætt svo mörgum sem var skylda að gera að ég hélt eins og að baka og þrífa í drep, ganga í þessari ömurlega óþægilegu flík brjóstarhaldara og láta álit annara trufla mig.

 

Nei þetta  er ekki mótþróaþrjóskuröskun að mínu mati þetta er frelsi.

SHARE