„Ekki vill maður mynda beran rassinn á flugunni”

„Það er pínu kúnst að taka myndir af skordýrum. Í raun má ekkert út af bera. Ef örlítil vindgola gustar um blómkrónuna þar sem flugan situr, þá getur flugan orðið stygg og jafnvel flögrað í burtu. Þegar viðfangsefnið er fluga þá getur verið örlítill vandi að finna fókusinn því hún er svo lítil að gerð. Maður þarf að vanda sig vel og þetta getur verið erfitt sport; ég þarf að beygja mig og fetta við myndatökuna og jafnvel vera á hnjánum í nokkra stund og í þeirri stellingu að teygja mig fram og getur það verið nokkur kúnst að halda jafnvægi því hendurnar eru á myndavélinni. Bara það að finna réttu líkamsstellinguna við tökuna sjálfa er líkamleg áreynsla. Það er ævintýralega erfitt á stundum að finna rétta sjónarhornið. Maður vill ekki bara ná mynd af rassinum af flugunni og því þarf maður að snúa upp á sig og fetta sig og bretta.” 

Þessu svarar Ásta Magnúsdóttir, 45 ára gömul aðspurð um æði sérstakt áhugamál; hún er brennandi dýralífsunnandi sem hefur fangað ófá augnablik úr íslenskri náttúru á filmu. Hún leitar uppi fugla sem búa í villtri náttúru Íslands og beri svo við, tekur hún einnig gullfallegar nærmyndir af íslenskum flugum, köngulóm og kvikindum sem flestir myndu veigra sér við að fara nærri.

 

10659241_578277752276753_8178871251136073207_n
Örsmá íslensk húsfluga á rósrauðri blómakrónu séð gegnum linsu Ástu

Íslenskar flugur fallegar, fíngerðar og furðu snöggar

„Ég hef aðallega verið að mynda fugla, en það er líka gaman að taka myndir af íslenskum flugum. Erfitt en skemmtilegt. Auðvitað má ekkert út af bera, ég þarf að vera grafkyrr meðan á tökunni stendur, því ef ég læt á mér bæra þá flýgur flugan samstundis í burtu og með það er hún farin og augnablikið glatað að eilífu. Ég get ekki bara sagt flugunni að sitja um kyrrt, til að halda henni grafkyrri þyrfti ég að pinna hana niður með títuprjón en það er ekki minn stæll.”

 

10610837_578278932276635_1216792385108756526_n
Hér er sennilega vespa á ferð, nema um hunangsflugu sé að ræða?

 

Heilluð af nýjum lit- og formbrigðum í íslenskri dýralífsflóru

Ásta segir af og frá að hún sé hrædd við skordýrin. Þvert á móti búi íslensk skordýr yfir formfegurð sem henni þyki færast í aukana með hverju ári og að það sé gaman og áhugavert að fara út með aðdráttarlinsuna til þess að fanga formin á filmu. „Ég er ánægð með hversu er að fjölga í íslenskri dýralífsflóru og þar er ég bæði að tala um aukingu skordýra og fugla. Auðvitað eru ekki öll skorkvikindin sem hingað berast góð; þar erum við til dæmis að tala um vondar trjálúsir og snigla sem hafa borist til landsins líka. En sum skordýrin eru öðruvísi í laginu en þau sem við Íslendingar áttum áður að venjast. Þá eru farin að koma fram ný litbrigði í dýraríkinu og það finnst mér rosalega spennandi. Hérna áður fyrr var þetta allt við það sama; maður ólst upp við hús- og fiskiflugur og brúnar köngulær en í dag eru dýrin orðin fleiri og ólíkari.”

 

1925992_10152363401457993_9198206931437747006_o
Nákvæmnin gæðir flugurnar ævintýralegri fegurð í náttúrulegum ramma

Ætlaði sér aldrei að fanga flugur á filmu

En hvernig skildi standa á því að ríflega fertugur áhugaljósmyndari fær slíkan brennandi áhuga á nærmyndum úr íslenskri náttúru? „Ég ætlaði ekki endilega að mynda flugur. Ég fór bara út að taka myndir og eitt leiddi af öðru í göngutúrnum. Ég sá þessa litlu flugu og svo sá ég aðra flugu annars staðar og eitt leiddi af öðru. Áður en ég vissi af var ég búin að smella af og þannig búin að festa minninguna um litlu fluguna á mynd.”

 

10639565_10152371096322993_3837528360590208286_n
Allar birtingarmyndir ástarinnar eru fallegar; húsflugur í mökunarhug

Norðurljósin, fjölbreytt fuglaflóran og íslensku flugurnar skipa heiðurssess

Ásta fer nær daglega í rannsóknartúra með linsuna að vopni og segir síðdegin vera spennnadi tíma, allt fram á kvöld og fram yfir miðnætti þegar bjart er úti. Um vetur má gjarna sjá glitta í Ástu í þykkum klæðum undir stjörnubjörtum himni, en hún hefur einnig fangað æði fallegar myndir af norðurljósunum*-*. Engar eru þó teknar með jafn útsmoginni tækni og skordýramyndirnar, sem urðu óvart til og þykja gullfallegar.

 

305142_10150305315537993_1043246315_n
Ásta úti í íslenskri náttúru með aðdráttarlinsuna að vopni

Geymir enn allar gömlu filmurnar í leyndarmálaskúffunni heima

Fyrstu vélina keypti Ásta aðeins fimmtán ára að aldri en í þá daga voru stafrænar vélar ekki enn komnar á markaðinn. „Ég var bara unglingur í þá daga og hafði ekki endilega mikinn pening á milli handanna til að kaupa filmur og fara með í framköllun. en ég lét mig þó hafa það. Ég hef aldei hent filmu á ævi minni og á enn allar filmurnar frá fyrstu dögum mínum sem áhugaljósmyndari. Þetta eru orðnar ansi margar filmur og þær eru nokkrar skúffurnar sem þær fylla hér á heimilinu í dag.”

 

10649484_578276975610164_2720136996794248586_n
Loðin, brúskuð og fín; þarna er goðsögnin um býfluguna og blómið komin ljóslifandi á mynd

Brjálaðist úr gleði þegar stafræna tæknin kom á almennan markað

Þegar stafræna öldin rann upp fékk Ásta sína fyrstu stafrænu myndavél í hendur og ekki var aftur snúið. „Ég gjörsamlega trylltist þegar ég eignaðist fyrstu stafrænu vélina mína. Ég varð bara óstöðvandi. Það er svo miklu auðveldara að prófa sig áfram með stafrænu tækninni en filmunum frá því í gamla daga. Ég get smellt af og hent að vild. Það gat ég ekki áður. Ég notast við 100 mm macrolinsu þegar ég fanga skordýrin en sú linsa nýtist mjög vel í allt svona smátt og á smáfuglana nota ég oftast 500 mm linsu.”

 

10563117_10152332730577993_358661513873637115_n
Íslensk og voldug könguló í miðjum vef; tígurleg ásýndar og með sterka bitkjamma

Hrífst af litum og formum fremur en uppruna tegunda

En gerir Ásta sér grein fyrir því um hvaða flugur og skorkvikindi er að ræða, eða eru það formin sem heilla fremur en uppruni og tegundir? „Ég hrífst af litum og formum,” svarar Ásta. “Ég veit ekki hvað þær heita, flugurnar sem ég hef verið að mynda, en þó þekki ég býfluguna, húsfluguna og geitunginn. Brúnu fluguna þekki ég hins vegar ekki. Mér fannst hún bara falleg.”

Ásta heldur úti Facebook síðu þar sem hún deilir gjarna augnablikum úr síðustu ævintýratökum, smellið á tengilinn til að skoða fleiri myndir úr íslenskri náttúru séð gegnum aðdráttarlinsuna góðu.

 

SHARE