Elskaðu þig eins og þú ert – Þú ert alveg nóg

„Af hverju er Naglinn að birta mynd með girt niðrum sig fyrir rúmlega þrettán þúsund manns? Það er svo ansi fín lýsing á klósettinu í ræktinni sem sýnir ekki bara vöðvaskil fyrir bíseppamyndir, heldur sjást húðslitin á berrössuðum þjóhnappa í öllu sínu veldi. Það tók marga, marga daga af innri rökræðum að ákveða að pósta þessari mynd en lét loks vaða, því það er Naglanum mikil ástríða að sýna að við erum öll mannleg. Líka ræktarrottur sem pósta aðallega sperrtum byssum og horuðum snæðingum,“ segir Ragga Nagli í pistli sínum á síðu sinni á Facebook.

Hún birti í gær mynd af lærum sínum og rassi til þess að sýna öllum að hún er mannleg eins og við allar.

„Naglinn er ekki fullkomin, langt í frá. Eins og vegahandbók með slitför upp og niður læri, rass og langt upp á mjaðmir. Naglinn er líka með gatslitin tepokabrjóst, stórt nef og veðurbarðar kinnar.

En vitið þið hvað? Naglanum er núll sama. Að vera góð eiginkona, systir, dóttir, vinkona, frænka er það sem skilgreinir Naglann. Að vera góður sálfræðingur, þjálfari, fyrirmynd og talskona heilsunnar. Að vera hraust og heilbrigð og reyna sitt besta hvern einasta dag og verða besta útgáfan af sjálfum sér. Að borða hollt en gúlla sukk með reglulegu millibili. Að rífa í stál og hrista skankana. Það er það sem gerir Naglann að þeirri manneskju sem hún vill vera. Ekki líkaminn. Ekki útlitið. Ekki húðslit eða fitupokar á læri,“ segir Ragga jafnframt í þessum pistli sínum.

Hún talar um að slit séu minnisvarði, hvort sem það er að hafa komið manneskju í heiminn, bráðþroski unglingsáranna eða dagar víns og rósa.

Pistlinum lýkur hún með þessum orðum: „Í stað þess að eyða orkunni í að skoða það sem þér þykir óæskilegt í speglinum og kalla ljótum nöfnum eins og “kotasælulæri, gatasigti, múffutopp, bingóvængir og ömmusvunta” notaðu þessa orku í eitthvað jákvætt og fagnaðu þínum styrkleikum. Notaðu þann styrk til að hvetja þig áfram á hverjum degi, stoltur og með höfuðið hátt.

Elskaðu þig eins og þú ert. Þú ert alveg nóg.“

 

Takk fyrir Ragga!!!!

SHARE