Elskar þú einhvern með krabbamein?

Krabbamein kemur öllum við og hefur áhrif á alla sem eru tengdir þeim veika.

Sem betur fer hefur orðið mikil þróun og krabbamein ekki sami dauðadómur og áður fyrr með tilkomu betri lyfja og fleiri nýjunga.

Ég sjálf, er eiginkona krabbameinssjúklings, maðurinn minn er í raun ótrúlegur maður hann hefur fengið 4 tegundir af krabbameini með vissu millibili síðustu 22 ár. Hvert sinn sem hann hefur greinst hefur það verið áfall og vakið með okkur ótta.

Síðasta greining sem var fyrir tæpum tveimur árum var okkur reiðarslag, hann var að fara í lokaeftirlit eftir að hafa verið krabbameinsfrír í 5 ár, útskrift úr eftirliti því fimm ár eru ákveðin sigur.

En NEI, símtalið kom og hann segir mér að myndatakan hafi sýnt ný mein nú í hálsi og lungum. Ég brást við eins og kjáni því ég átti alls ekki von á þessum fréttum og var alltof lengi í símtalinu viss um að hann væri að grínast, mín leið til að afneita vondu fréttunum.

Áfallið var enn meira þegar nánari rannsóknir sýna fram á að um er að ræða 4 stig, sem er ólæknanlegt krabbamein. Af stað fer erfið lyfjameðferð og erfið andleg og líkamleg líðan hjá okkur.

Ég ætla aðeins að lýsa því hvernig það er að vera aðstandandi krabbameinssjúklings, í mínu tilfelli eiginkona.

Fyrstu viðbrögð var ofsalegur sársauki andlega og líkamlega, ég fylltist ótta og sorg, varð reið og fannst þetta ömurlega ósangjarnt. Ég sjálf, á við langvinn veikindi að stríða, vefjagigt og hún tók upp sína verstu mynd við þetta áfall. Heimilislæknirinn minn skrifaði mig í sjúkraleyfi og ég upplifði skömm yfir því að vera svo mikill aumingi að vera komin í sjúkraleyfi og öll í klessu, það var ekki ég sem var að greinast með ólæknandi krabbamein. Maðurinn minn var í erfiðri lyfjameðferð og það var sárt að sjá þennan sterka mann fara í gegnum erfiðar aukaverkanir.

Mitt hlutverk snarbreyttist úr því að vera eiginkona, móðir, þroskaþjálfi og bara ég, í það að verða talsmaður, ritari, ummönnunaraðili, bílsstjóri og allt mögulegt annað sem snýr að krabbameini auk þess sem ég þurfti að takast á við eigin veikindi sem lýstu sér í óeðlilegri síþreytu og miklum verkjum um allan líkama.

Ég gerði það sem ég gat til þess að styðja við mig og læknirinn minn var mér sem algjör klettur. Hann kom mér í endurhæfingu hjá Þraut þar sem ég fékk hjálp með mín veikindi og krabbameinslæknirinn hans og hjúkrunarkona krabbameinsdeildar bentu okkur á Ljósið og Krabbameinsfélagið.

Og ber ég báðum stöðum góða sögu og frábært starf.

Ég hef sótt mér mikinn stuðning hjá Krabbameinsfélaginu og á þeim ótrúlega mikið að þakka og finnst starfið þar sem snýr að aðstandendum frábært.

Mig langar að benda öðrum aðstandendum á að nýta sér það sem er í boði hjá þeim og ekki síst aðstandendafundum sem eru fyrsta fimmtudag í mánuði en þar koma aðstandendur saman og spjalla og fara svo í jóga nidra sem er eitt öflugasta slökunarform sem til er að mínu mati.

Hér koma smá upplýsingar um þetta:

Ráðgjafarþjónusta krabbameinsfélagsins býður aðstandendum þeirra sem greinst hafa með krabbamein að koma saman í kaffispjall fyrsta fimmtudag hvers mánaðar frá kl. 16:00-17:30 . Félagsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur eða sálfræðingur eru alltaf á staðnum. Við vitum að þegar einstaklingur greinist með krabbamein hefur það oft mikil áhrif á nánustu aðstandendur. Oft er þörfin fyrir stuðning og hvatningu mikil í þessum aðstæðum.

 

Næstkomandi fimmtudag Þann 7.mars ætlum við að bjóða aðstandendum að þiggja Jóga Nidra og hljóðslökun frá kl. 17:00 -18:00. Þórey Viðarsdóttir jógakennari mun leiða þessa djúpslökun með orðum og spili á tíbeskar söngskálar og kristalsskálar. Hægt er að liggja á dýnu undir teppi eða sitja í stól. Húsið opnar kl. 16:00 fyrir spjall, kaffi eða te.

 

Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins er fyrir þá sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur.  Boðið er upp á einstaklingsviðtöl við ráðgjafa, án endurgjalds en einnig eru boði fjölbreytt námskeið, djúpslökun og fleira. Hægt er að panta tíma í gegnum netfangiðradgjof@krabb.is en einnig er hægt að líta við án þess að gera boð á undan sér. Nánari upplýsingar er að finna á www.krabb.is eða á facebook síðu Ráðgjafarþjónustunnar. Hjá Ráðgjafarþjónustunni starfa hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar, sálfræðingur og kynfræðingur.

Þetta fallega fólk sem er á þessari mynd á allar mínar þakkir fyrir að vera til staðar fyrir mig, því það reynir oft á að vera aðstandandi og geta ekkert gert nema elska sinn karl og styðja hann eftir bestu getu en til þess að geta það verð ég að sinna mér með allri þeirri aðstoð sem ég mögulega get fengið.

Ég hvet þig sem elskar einhvern með krabbamein að kíkja á dagsskrá hjá félaginu og prófa að koma á svona aðstandendafund.

SHARE