„En það er ekkert til sem heitir samvitund kvenna”

Ég gleymi honum seint, unga blaðamanninum sem sótti mig heim í Osló rétt fyrir jólin í fyrra. Tilefnið var viðtal fyrir hátíðarblað Hjálparstofnunar Kirkjunnar hér í landi en þema útgáfunar var heimilið í allri sinni dýrð og ljóma.

Hvað gerir hús að heimili? spurði ungi maðurinn mig við eldhúsborðið. Hann hafði fengið veður af þeirri íslensku sem klauf himinn og haf og óð með lítinn Rassa eins og ekkert hefði í skorist til gamla landsins, peningalítil en uppdjörf. Snaraði upp heimili, kom barninu í skóla og hóf svo störf.

Gott fólk og elska, svaraði ég honum kímin og undirleit. Maðurinn, sem er langtum yngri en ég, setti í brúnirnar og spurði hvað ég ætti við með því. Svo ég sýndi honum fallega veggteppið hennar Klöru ömmu minnar sem hún saumaði út stuttu fyrir andlátið og mér áskotnaðist óteljandi árum seinna, þegar hann afi minn kvaddi þennan heim.

Trúin á ljósið sem býr innra með öllum gerir hús að heimili og gæðir herbergin lífi – hélt ég áfram og útskýrði fyrir honum að riddarateppið sem hún amma mín saumaði út og er eftirgerð frummyndar sem hangir á Þjóðminjasafni Íslands, búi yfir ljósorku og óbugandi ást í hverju spori sem gamla konan óf í strigann og ætlaði mér.

Ég hengi það alltaf við innganginn, hvert sem ég fer. Hún amma mín bægir frá ljótu orkunni og varnar myrkrinu að ganga inn. Það geri ég, því heimilið er griðastaður þeirra sem þar búa, okkar eigið heilaga vé og huldi heimurinn okkar. Eigum við ekki heimili sem ljómar af ást, eru mér og syni mínum öll sund lokuð. Hingað sækjum við orkuna sem gerir okkur kleift að kljúfa daginn. Ef eitthvað bjátar á, þá veit ég að við getum alltaf snúið heim og látið grímuna falla við eldhúsborðið. Grátið ofan í bollann og sótt styrk til hvors annars. Borið saman bækur okkar og lagt á ný ráð. Getum við ekki treyst á vígið sem stendur ósigrað við eldhúsborðið, verða híbýlin aldrei annað en sýningarsalur, samansafn hluta sem standa á víð og dreif og hindra áform okkar, flækjast fyrir fótunum á okkur. Heimilið slær í hjarta hverrar manneskju og ferðast með sálinni milli húsa.

Mér er enn minnisstæður undrunarsvipurinn á unga manninum sem hafði borið upp spurninguna og enn hvað ég varð hlessa þegar ég áttaði mig á því að skoðanir okkar virtust stangast á.

Viltu þá meina að heimilið sé eins konar áningarstöð, hleðslutæki fyrir vinnandi fólk? spurði ungi blaðamaðurinn aftur og ég svaraði því játandi og sagði honum að enginn hlutur væri mér nokkurs virði nema sá sem ég gæti gætt lífi og sál, sóttt styrk til, rétt eins og gamla handsaumaða veggteppið hennar ömmu minnar heitinnar sem líka hét Klara.

Það voru konur sem knúðu mig til góðra verka og kenndu mér elskuna, svaraði ég manninum og hélt áfram. Sterkar konur með gott hjartalag og hlýjar hendur sem tóku á móti mér hérna megin við hafið. Því sjáðu til, einhleyp kona er aldrei jafn berskjölduð og við komu til nýrra landsvæða og vei þeirri sem veitir ókunnum manni það vald að stela lífi hennar við upphaf davalar, í þeirri von að öðlast skammvinnt öryggi að launum.

Ég reyndi að segja honum frá samvitund kvenna, sem er samofin árþúsunda langri reynslu formæðra okkar, fíngerðri orkunni sem ferðast milli húsþaka og þeim innri skyldleika sem gerir flestum konum kleift að tengjast böndum þó himinn og haf, ólíkar þjóðtungur og framandi reynsla ætti að orka einmitt á annan veg; hindra þau tengsl sem við erum þó færar um að mynda.

Þannig vinnur samvitund kvenna, útskýrði ég fyrir unga manninum sem var orðinn dálítið vantrúaður á svip. Það voru þær sem hjálpuðu mér yfir fyrsta hjallann. Þær ókunnu, sem mæla sömu tungu og allar konur heims. Brosandi, með kaffibolla og blik í augum. “Kvinnekollektivet, tror jeg det kalles på norsk” hélt ég áfram og sló af enskunni, enda orðin dálítið móð eftir langa ræðu og ekki alsendis viss um að maðurinn skildi mig lengur.

En það finnst ekkert slíkt orð í norsku – svarði ungi maðurinn óþolinmóður og handfjatlaði diktafóninn vandræðalegur á svip. Það er ekkert til sem heitir samvitund kvenna – hélt hann örvinglaður á svip áfram.

Ertu ekki bara að rugla þessu öllu saman, – spurði hann svo og horfði alvarlegur niður á borðið. Þar sem ég sat á móti unga manninum sem kom til að taka viðtal við mig um inntak þess að eiga fjölskyldu og búa ástvinum heimili, rann um leið upp fyrir mér að mér einni er nóg að trúa. Að ákveðnum hlutum er erfitt að koma í orð og að það er allt í lagi. Mér ber engin skylda til að úða visku minni yfir ókunn landsvæði. Hvað þá á blaðsíður jólarits Hjálparstofnunar Kirkjunnar.

Hverju ungi maðurinn hnoðaði saman í grein hafði á endanum lítið með persónulegan skilning minn á heimili að gera. Það eitt var líka í lagi. Ég held að ljósöflin hafi borið hann á bakinu upp að dyrum þennan dag til að leiða mér fyrir sjónir gegnum svörin sem streymdu fram hvert ég sæki minn eigin styrk þegar á bjátar í dagsins önn.

Það skiptir engu hverju aðrir treysta; það er ég sjálf sem þarf að trúa.

Viðtalið “Her kan ingen ta drømmene våre fra oss” er að finna á bls. 17, smellið HÉR

SHARE