Er eitthvað að mér?

Lífið gerir miklar kröfur til okkar. Þó að lífsbaráttan hafi minnkað á Vesturlöndum með batnandi kjörum hafa kröfurnar aukist á öðrum sviðum. Skilaboðin frá umhverfinu er þau að við eigum að standa okkur í skóla og vinnu, vera skemmtileg, falleg og eiga nóg af peningum. Hraðinn eykst, menn þurfa að hafa sig alla við til þess að fylgjast með. Það þarf því engan að undra að fólk sé meira leitandi og ráðþrota en fyrri kynslóðir.

Allir sem lenda í erfiðleikum finna bæði til líkamlegra og geðrænna viðbragða. Viðbröðgin eru hins vegar breytileg frá einum einstaklingi til annars. Fólk er félagsverur og mannkynið lifði af til forna með samhjálp og samstöðu. Það gildir einnig núna og enginn á að þjást einn. Það er til fullt af fólki sem er þjálfað í að veita aðstoð. Skoðaðu listann og leitaðu hjálpar

Hefur þú einhver þessara einkenna?

Ef nokkur neðangreindra atriða eiga við þig skaltu íhuga að leita aðstoðar og tala um líðan þína við lækni, sálfræðing eða einhvern fullorðinn sem þú treystir, náinn aðstandanda eða prest. Þú getur líka hringt í Vinalínuna (öll kvöld frá 20 – 23) s. 561 6464 og 800 6464 eða Rauða kross húsið, s. 800 5151. Þar er opið allan sólarhringinn.

  • Ég sef miklu meira en vanalega.
  • Ég sef ekki vel.
  • Ég vakna mjög snemma á morgnana.
  • Ég sofna oft á daginn.
  • Matarlyst mín hefur breyst, ég hef greinilega lést eða þyngst.
  • Ég er eirðarlaus.
  • Ég hef einangrast frá vinum og fjölskyldu.
  • Ég á erfitt með að einbeita mér.
  • Ég hef misst áhuga á því sem ég hafði áður gaman af.
  • Ég hef glatað voninni.
  • Ég hef sektarkennd.
  • Ég hef breyst í skapi og haga mér öðruvísi.
  • Ég var áður róleg/ur, en nú þjáist ég af eirðarleysi.
  • Áður var ég félagslynd/ur, en nú er ég mest útaf fyrir mig.
  • Mér finnst lífið ekki þess virði að lifa því.(Aðeins eitt líf, fræðslurit Geðverndarfélags Íslands, 1999)
SHARE