Er hægt að stunda of mikla líkamsrækt?

Hreyfing skiptir miklu máli bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu. Mælt er með að einstaklingar stundi hreyfingu flesta daga vikunnar. Það gæti því komið sumum á óvart að hægt er að æfa of mikið. Til þess að verða sterkari og hraðari þarf að reyna á líkamann og vöðvana, en það má ekki gleyma því að það þarf að hvíla inná milli. Hvíld er mjög mikilvægur hluti þess að æfa. Hvíld gerir líkamanum kleift að jafna sig fyrir næstu æfingu. Ef hvíldin er ekki nægileg á milli æfinga þá getur það leitt af sér lakari frammistöðu sem og líkamleg vandamál.

Álag til lengri tíma

Það getur komið í bakið á einstaklingnum að reyna of mikið á sig, sérstaklega til lengri tíma. Það getur valdið einkennum eins og að geta ekki framkvæmt æfingar af sama styrkleika og áður, vera þreyttari en venjulega, þurfa lengri hvíld til að jafna sig, skapsveiflur, eiga í erfiðleikum með svefn, fá álagsmeiðsli, verða oftar veikur, finna fyrir kvíða sem oft er hægt að tengja við æfinguna og missa áhugann á æfingunni. Ef einstaklingar fara að finna fyrir þessum einkennum þá dugar oft að hvíla alveg í 1-2 vikur og leyfa líkamanum að jafna sig. Oft er hvíld það eina sem þarf. Ef það gengur ekki og einstaklingurinn er ennþá þreyttur eftir 1-2 vikur af hvíld þarf að leita til heilbrigðisstarfsmanns. Í sumum tilfellum þarf að hvíla í mánuð eða jafnvel lengur.

Hlustaðu á líkamann

Það besta sem hægt er að gera til að forðast ofþjálfun er að hlusta á líkamann og fá næga hvíld. Önnur atriði geta þó skipt máli líka en það er m.a.

Drekka nóg af vatni á æfingum, borða nógu mikið af hitaeiningum í samræmi við æfingarnar.

Reyna að fá a.m.k. 8 klst svefn á nóttunni.

Æfa minna eða hætta því alveg þegar einstaklingnum líður ekki vel eða er undir álagi.

Ekki æfa í of miklum kulda eða of miklum hita.

Hvíla í a.m.k. 6 klst á milli æfinga og hvíla alveg einn dag í viku.

Einnig er mikilvægt að draga úr æfingum fyrir keppni.

Hjá sumum getur það orðið að áráttu að æfa, en það er þegar æfingin er ekki lengur eitthvað sem einstaklingurinn velur að gera heldur finnst eins og það sé eitthvað sem hann verður að gera. Hann getur t.d. fundið fyrir sektarkennd eða kvíða ef hann æfir ekki, hann heldur áfram að æfa þótt hann sé meiddur eða veikur, vinir og fjölskylda hafa áhyggjur af því hvað hann æfir mikið, æfingin er ekki lengur skemmtileg, hann sleppir að mæta í vinnu, skóla eða félagslega viðburði til að æfa. Einnig geta konur hætt að fara á blæðingar.

Ofþjálfun getur haft neikvæð áhrif á líkamann og því þarf að hafa samband við heilbrigðisstarfsmann ef: einstaklingur finnur ennþá fyrir einkennum ofþjálfunar eftir 1-2 vikur af hvíld, ef grunur er um að æfingin er orðin að áráttu, ef einstaklingar hafa misst stjórnina á hversu mikið þeir æfa og ef þeir hafa misst stjórnina á hversu mikið þeir borða.

Höfundur greinar

Grein þessi birtist fyrst á Doktor.is og er birt með góðfúslegu leyfi þeirra.

SHARE