Er hugsi yfir því hvers vegna fólk talar niður skólastarf á Íslandi

Eftirfarandi eru hugleiðingar frá Geirlaugu Ottósdóttur grunnskólakennara í Reykjavík.

Ég er hugsi. Hugsi yfir því hvers vegna fólk talar niður skólastarf á Íslandi og segir að skólinn vinni ekkert skapandi starf með börnum. Hugsi yfir því af hverju sjálfskipaðir sérfræðingar í skólamálum spretta alltaf fram í hvert sinn sem kennarar byrja í kjarabaráttu. Hugsi yfir því hvers vegna öllum finnst ekki mjög mikilvægt að kennarar fái góð laun fyrir að veita grunnmenntun til þeirra sem skipta okkur mestu máli í lífinu. Hugsi yfir því hvers vegna útborguð laun mín á mánuði eru 265.000 kr. Hugsi yfir því hvers vegna ég, þrátt fyrir allt, hlakka til á hverjum degi að mæta í vinnuna mína. Fyrir það er ég auðvitað mjög þakklát.

Í síðastliðinni viku var morgunþáttur á útvarpi Sögu þar sem baráttufund kennara í Iðnó bar á góma. Hlustendum var boðið að hringja inn og tjá sig. Sjálfskipaðir sérfræðingar í skólamálum hringdu inn. Sérfræðingar,  sennilega vegna þess eins að þeir höfðu á árum áður sjálfir verið í grunnskóla. Þeir höfðu leyst vanda grunnskólans. Það þurfti bara að árangursmiða laun kennara þannig að þeir fengju laun eftir meðaleinkunn nemenda sinna. Einn stakk upp á að kennari sem hækkaði meðaleinkunn bekkjarins um 30% skyldi fá launahækkun en aðrir ekki. Förum aðeins í huganum inn í venjulega skólastofu í venjulegum grunnskóla í dag. Í bekknum eru 29 nemendur. Af þeim eru sjö nemendur af erlendum uppruna (mis vel tvítyngdir), einn þroskaskertur og á einhverfurófi, einn með Asberger, tveir með ADHD og þrír lesblindir. Þar að auki eru þarna tveir nemendur sem eru með miklar geðraskanir og þola illa við inni í svona stórum bekk. Þetta er venjulegur bekkur í Skóla án aðgreiningar. Ég er ansi hrædd um að kennari þessa ímyndaða bekkjar ætti ekki möguleika á kauphækkun ef hlustendur Sögu þennan tiltekna morgun fengju að ráða!  Skólastarf snýst nefnilega ekki eingöngu um einkunnir og meðaltöl. Það snýst um menntun í víðum skilningi þess orðs. Við kennarar vinnum með lifandi einstaklinga sem hafa mjög ólíkar þarfir. Ábyrgð okkar er gríðarlega mikil. Við berum ábyrgð á dýrmætasta fjársjóði okkar allra, börnunum, í sex klukkustundir á dag. Við erum líka mjög meðvituð um þessa ábyrgð okkar. Okkur þykir vænt um starfið okkar og börnin „okkar“. Sökum þess að við vinnum með lifandi einstaklinga getum við aldrei vitað nákvæmlega hvað næsti dagur ber í skauti sér, sama hversu nákvæm kennsluáætlunin er. Kannski þurfti kvíðasjúklingurinn sérstaka aðhlynningu. Ef til vill gubbaði ein stúlkan á mitt gólfið og þurfti að hringja í foreldrana. Hugsanlega gerðist eitthvað mikilvægt í lífi eins nemandans sem þurfti að sinna. Hann þurfti e.t.v. að fá að sýna myndir og segja bekkjarsystkinum sínum frá. Kennarinn notar allt sem til fellur sem hugsanlega væri hægt að nota til að uppfræða nemendur. Þetta er það sem gerir skólastarfið svo margbreytilegt og skemmtilegt.

Er skapandi skólastarf í grunnskólum Reykjavíkur? Vissulega! Í skólanum þar sem ég kenni og tvö af börnum mínum stunda nám, hefur í nokkur ár verið lagt fyrir svokallað „súkkulaðiverkefni“. Þetta er verkefni sem reynir á íslenskukunnáttu, stærðfræði, sköpun og tjáningu. Börnin finna eða búa sjálf til uppskrift og eina krafan er að í henni sé súkkulaði. Þau þurfa að skrifa hana upp, skrifa verklýsingu, skrifa súkkulaðisögu, tvöfalda uppskriftina og síðast en ekki síst að baka eftir uppskriftinni. Að lokinni þessari vinnu er svo haldin uppskeruhátíð þar sem börnin koma með afrakstur vinnunnar og foreldrum er boðið með hátíðlegu boðskorti sem börnin búa sjálf til. Það er skemmst frá því að segja að önnur eins listaverk hef ég varla séð. Skólinn fyllist af glöðum foreldrum og stoltum börnum og það er frábært að hafa fengið að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni sem móðir. Ef þetta er ekki skapandi skólastarf þá skil ég ekki hugtakið. Þetta tiltekna verkefni er einungis eitt dæmi úr mínum skóla og af nógu er að taka. Ég snertist á hverju ári við marga kennara og kem inn í marga skóla og sé að það er svo sannarlega verið að vinna að sköpun með börnunum.

Fólk má svo sannarlega hafa skoðanir á skólastarfi. En mér leiðist þegar fólk er með sleggjudóma um hluti sem það hefur ekki kynnt sér nægilega vel. Ég hef kennt í nærri tuttugu ár og tel mig vera að gera góða hluti. Ég vil trúa því að ég hafi skipt máli í lífi þeirra fjölmörgu nemenda sem ég hef kennt á þessum tíma. Ég ber mikla virðingu fyrir starfinu mínu og geri alltaf mitt besta. Ég viðurkenni að stundum finnst mér það ekki nóg. Ég viðurkenni að oft efast ég um ágæti hugmyndastefnunnar Skóli án aðgreiningar. Ég viðurkenni að ég vildi óska að börnunum væri búinn betri kostur. Ég viðurkenni að það vantar fjármagn til að hægt sé til fulls að uppfylla þau markmið sem Aðalnámskráin kveður á um. Ég fullyrði hins vegar að í skólunum starfar upp til hópa gott fólk sem vinnur af hugsjón og áhuga að menntun og velferð barna.

Geirlaug Ottósdóttir – grunnskólakennari

SHARE