Er nóg að hjálpa bara börnunum?

Það var í mars – apríl 2009 að það barst í tal á leikskóla dætra minna að eldri stelpan væri að sýna nokkur merki um ADHD og var rætt við okkur foreldrana um að setja hana í gegnum greiningu. Við vorum að sjálfsögðu mjög ánægð með að þetta kæmi upp í leikskólanum því að ferlið er yfirleitt fljótlegra þar en vorum jafnframt mjög áhyggjufull.

Margt gekk á afturfótunum

Ferlið var sett af stað og hefði ekki mátt vera mikið seinna því að hún átti að byrja í 1. bekk um haustið. Eins og margar mömmur gera þá lagðist ég yfir netið og bækur og las alveg heilan helling af allskonar upplýsingum. Hún kláraði að fá „frumgreiningu“ á leikskólanum og tók þá við biðin eftir lokagreiningu. Hún byrjaði í 1. bekk og var mjög margt sem gekk á afturfótunum hjá henni og voru margir árekstrar bæði við nemendur og starfsfólk. Við byrjuðum vinnuna við lokagreininguna og tók hún nokkra mánuði af viðtölum og svörun á allskonar spurningalistum.

Prófuðu lyf fyrir dótturina og hún öðlaðist nýtt líf

Í febrúar 2010 kom loksins niðurstaðan hennar og hún sýndi afgerandi niðurstöðu um ADHD og þar sem að allt var búið að ganga á afturfótunum hjá henni þrátt fyrir að við værum búin að prufa margt eins og t.d. að breyta mataræðinu hjá henni þá ákváðum við að prufa lyf………. Núna hugsa margir sennilega OMG hvernig gátu þau…….. En jú jú við tókum þessa ákvörðun og fengum að heyra bæði jákvæð komment og neikvæð komment í okkar garð. Það er einmitt alveg ótrúlegt hvað fólk leyfir sér að skipta sér af og dæma mann á punktinum.
Í febrúar 2010 fékk dóttir okkar nýtt líf. Hún byrjaði að blómstra félagslega og námslega en ég er samt ekki að segja að hún hafi eignast 25 vini og fengið 10 í öllu en henni fór að líða mikið betur og það sýndi sig á margan hátt. Hún sagði við mig á 3-4 degi lyfjanna að henni liði eitthvað skringilega í hausnum sínum (ég byrjaði strax að hugsa „Æ nei“) og ég spyr hvernig þá? Hún segir mér að henni finnist hausinn sinn svo rólegur. Þetta þótti mér gott að heyra og fannst þetta einmitt merki um það að við hefðum tekið rétta ákvörðun fyrir hana og ég meina hana því að þetta er mjög einstaklingsbundið hvað hentar hverju barni fyrir sig.

Fór að gruna að hún væri sjálf með ADHD

Yngri stelpan okkar fékk líka frumgreiningu í leikskóla og lokagreiningu í 1. bekk og núna er hún í 2. bekk og það hefur gengið mjög vel hjá henni án þess að hún fái lyf við sínu ADHD.
En í öllu þessu ferli okkar undanfarin 5 ár þá fór mig að gruna að ég sjálf væri með ADHD en ég setti mig alltaf á hilluna aðeins lengur til að fókusa á það sem að stelpurnar mínar þurftu frá mér en síðan komst ég að því að ég get ekki veitt þeim eðlilegar heimilisaðstæður ef mín heilsa (geðheilsa) er ekki í fyrsta sæti. Þannig að ég fékk mína frumgreiningu haustið 2013 og komst að því að ég er með ADHD. Mikið áfall, en samt ekki því ég hafði grun um þetta í nokkur ár.

Ég ákvað að núna skildi ég taka mig á og fá mína lokagreiningu þannig að ég gæti nú hugsanlega farið að líða betur og þar af leiðandi veitt dætrum mínum og eiginmanni skemmtilegri konu á heimilið. Ég fór á stúfana og hringdi í nokkra geðlækna en fékk sömu skilaboðin frá riturunum „hann er hættur að taka við nýjum sjúklingum“. Ég er núna á biðlista hjá ADHD teyminu á Geðdeild Landsspítalans og er mér sagt að það sé um það bil 1-2 ár í bið.

Vonar að möguleikar fullorðinna verði auknir

Ég sé mest eftir því að hafa ekki drifið mig strax í greiningu þegar að mig fór að gruna þetta því að þá voru ennþá geðlæknar sem voru ekki hræddir við að sinna okkur.

En aftur á móti er mín von sú að eitthvað verði gert til að auka möguleikana okkar (fullorðna fóksins) að auka okkar lífsgæði og fjölskyldu okkar því að þetta hefur svo mikil keðjuverkandi áhrif að geta ekki 100 % sinnt börnum, maka, vinnu, skóla, heimili, ættingjum og vinum þó það væri ekki nema kannski 70% þá held ég að við myndum vera alsæl með það.

Kveðja,
mamman sem vill standa sig betur.

SHARE