Er þetta ekki misnotkun?

ATH. Þessi grein er aðsend. Lesendum er frjálst að senda inn greinar undir nafnleynd í Þjóðarsálina, en þær skoðanir sem birtast hér í Þjóðarsálinni endurspegla hvorki ritstjórnarstefnu né skoðanir HÚN.IS

Ég er ung stúlka og hef gengið í gegnum ýmislegt. Ég veit ekki hvar ég á að byrja, þetta er svo mikið sem ég þarf að koma frá mér. Ætli ég telji ekki rótina vera hvernig faðir minn niðurlægði mig í gríð og erg. Eða mér fannst það að minnsta kosti. Ég var aldrei nógu góð og ég gerði aldrei neitt rétt af því að ég kaus yfirleitt að gera hlutina eins og mér fannst þægilegt að gera þá, en ekki eins og faðir minn vildi að ég gerði þá.

Það var öskrað á mig og ég niðurlægð, kölluð öllum illum nöfnum. Ég var skömmuð í bak og fyrir en ég vil taka það skýrt fram að það var aldrei lögð hendi á mig. Þetta braut auðvitað niður sjálfstraust mitt, gerði mig alveg niðurbrotna.

Ég lenti einnig í einelti í grunnskóla. Ég var í litlum skóla þangað til í áttunda bekk. Þá fór ég í bekk með jafn miklum fjölda og var í öllum skólanum sem ég hafði verið í. Fólki í kringum mig fannst þetta kannski ekki vera einelti en ég tók þessu þannig. Stelpurnar rottuðu sér saman með eitthvað goggamál sem ég skildi ekki upp né niður í og ég mátti aldrei vita hvað þær voru að tala um.

Ég hef ætíð verið frekar þykk, eða aðeins í þyngri kantinum. Ég hafði aldrei tækifæri á því að æfa neinar íþróttir því að ég fékk ekki far heim af æfingum. Það var alltaf ég sem lenti í því að það væri ekki pláss fyrir mig í bílunum og það voru alltof margir kílómetrar að labba heim, eða yfir 30 kílómetrar. Þannig að alltaf eftir skóla fór ég heim og hékk í tölvunni.

Ég fékk mína fyrstu tölvu þegar ég fermdist 14 ára gömul og þá fór ég að leita huggunar á spjallrásum á Skissu, Trivu og fleiri stöðum og addaði fólki á MSN. Þar hitti ég eldri karlmenn og stráka sem vildu sjá allt mögulegt og ég sýndi þeim af því að þeir hrósuðu mér. Þeir sögðu að ég væri falleg og sæt og með fallegan líkama. Þeir hrósuðu mér fyrir brjóstin mín og þetta jók sjálfstraustið mitt. Ég treysti líka þessum köllum á netinu en auðvitað tóku þeir screenshot…

Svo er það myndbandið sem allir á landinu virðast vita um. Ég bjó til myndband og sendi vini mínum það af því að ég taldi mig geta treyst honum. En svo virtist ekki vera heldur áframsendi hann það á vinkonu sína sem sendi það á fleira fólk. Þetta myndband poppar ennþá upp í dag þegar fólk kemst að því hver ég er, sama hvað ég hef reynt að setja þetta tímabil að baki mér þá er þetta ennþá þarna úti. Ég má aldrei kynnast nýju fólki án þess að þetta myndband poppi einhversstaðar upp og það er hreint út sagt ÓÞOLANDI!

Ég veit að þetta flokkast undir misnotkun en ég var ung og vitlaus 14 ára stelpa og nú eru komin hátt í fimm ár síðan að þetta skeði og þetta hefur ennþá áhrif á mig í dag.

Ég var líka með strák sem misnotaði mig alvarlega en við vorum saman um stutt skeið og það leið ekki sá dagur sem hann vildi kynlíf tvisvar, þrisvar, fjórum sinnum á dag. Ég nennti því nú ekki alveg alltaf en ég gaf undan svo hann myndi bara þegja. Það hefur þau áhrif á mig í dag að ég nýt þess eiginlega ekki að stunda kynlíf. Ég vil helst bara klára þetta af sem fyrst og fara að gera eitthvað annað. Ég get ekki notið þess til fulls út af því sem þessi strákur gerði mér fyrir þremur árum síðan. Er þetta ekki misnotkun? Mér finnst það. Þetta hefur alltsaman áhrif á mig enn þann dag í dag.

Það líður varla sá dagur sem ég hugsa ekki um að taka mitt eigið líf, en ég þori aldrei að framkvæma það. Það líður varla sá dagur að mig langi ekki í eiturlyf þótt ég hafi aldrei verið í virkri neyslu. Alltaf langar mig í eitthvað til þess að deyfa sársaukann sem að stafar af einhverjum ástæðum sem ég veit ekki hverjar eru. Mér líður illa og ég virðist ekki geta talað við neinn. Ég á helling af góðum vinum en einhverra hluta vegna get ég ekki talað um þetta við þau….

Kv. Nafnlaus.

SHARE