Er umgengnisréttur á Íslandi tálsýn? – Íslenskur faðir missti af afmæli barnsins síns og var neitað um umgengni án útskýringa

Er umgengnisréttur á Íslandi tálsýn?

 

Maður býr á Íslandinu góða og telur rétt sinn og barna sinna vel varinn og jafnvel betur en víðast hvar annarsstaðar í nágrenni okkar.

 

En er þetta tálsýn ein þar sem yfirvöld hafa sig í frammi með fallega orðaðar yfirlýsingar um hvað við erum framalega í málefnaflokkum sem og rétti barna til umgengnis við báða foreldra, á sama tíma og regluverkin eru þannig uppbyggð að hægt er svo auðveldlega að traðka á þessum rétti þeirra.  Og nú vil ég vera svo frekur að telja að það sé ekki aðeins traðkað á rétti barnana þegar ungengni við þau er brotin heldur er einnig traðkað á rétti þess foreldris sem missir af börnum sínum. Í þessu tilfelli mínum.

 

Þannig er mál með vexti eins og ég var að reka mig á þessa helgi þegar móðir yngri barna minna neitaði mér um umgengni um „pabbahelgi“ þó fyrir liggi dómsátt  um umgengni, vegna þess eins að hún er ekki sátt við makaval mitt.

 

Gott og vel. Helgin líður í tómlegu húsi og maður rífur sig upp snemma á mánudagsmorgni til að vinna í þessum málum fullefldur af kjarki og þor og leggur leið sína til Sýslumanns.

 

Við mér tekur einstaklega vinaleg stúlka sem tjáir mér það að ég geti sótt um að hún verði beitt dagsektum, hmm, það er kanski lausnin hugsa ég?! Já ég gæti trúað því að það væri bara töluverður þrýstingur á hana að standa við sitt ef hún þarf að greiða sekt ef hún brýtur á okkur. Við frekari eftirgrennslan kemur þó í ljós að til að beita dagsektum þarf hún að brjóta á okkur „ítrekað“  já er það sagði ég, og hvað er „ítrekað“ margar pabbahelgar?

 

Jú, í minnstalagi þrjár.  Semsagt ef ég fæ ekki börnin mín í einn og hálfan mánuð þá er hægt að skoða hvort hún verði beitt sektum að loknum sáttarfundi, sáttarfundi þar sem hún getur nokkurnvegin sagt hvað sem er og komist undan hverju sem er, því orð eru jú bara orð.

 

Og til að bæta aðeins í vitleysuna þá verða þessi „ítrekuðu“ brot að vera í beinu framhaldi, þrjár helgar í röð. Ef ég fæ að sjá börnin mín eina af þrem „pabbahelgum“ þá er aldrei grundvöllur til að fara fram á eitt eða neitt. Engar sektir né annað til að þvinga hana til að standa við sitt.

 

Og eins og þetta sé ekki nægilega mikil vitleysa þá er enn eitt til að fylla alveg uppí þak,

 

Jú dagsektir eru reiknaðar út frá tekjum viðkomandi foreldris. Ég get skilið það að einhverju leiti ef um efnað fólk er að ræða, en hámarks upphæð er 30.000 kr á hvern dag. Gott og vel. Mín næsta spurning var en ef manneskjan er svotil launalaus í námi? Hver er upphæðin þá?  Ekkert svar til, nú já svo það er bara geðþóttaákvörðun fulltrúa í hvert sinn fyrir sig. Jafnvel svo lág upphæð að það snerti ekki á þægindahring viðkomandi.

 

Ég þakkaði fyrir mig furðulostinn og hélt á næsta stað. Barnaverndarstofu!

 

Bjóst við að vera boðið uppá kaffi og setjast með ráðgjafa og ræða við hann hvernig ég teldi verið brotið á börnum mínum á heimili þeirra. Ég ætla ekki að fara inní þau mál hér þó ég gæti alveg gert það síðar meir til að varpa frekara ljósi á stöðu okkar.

 

Enn og aftur tekur á móti mér indæl og góðleg kona sem var öll af vilja gerð til að aðstoða mig, en það sem sló mig við þessa heimsókn var eftirfarandi.

 

Því miður er ekki hægt að tala við ráðgjafa því það eru flestir í fríi og rétta leiðin er að ná inn í símatíma fyrst og ef ráðgjafa finnst tilefni til, þá er tekinn fundur. Gott og vel, ekkert að því að hringja á undan sér og fá tíma, hvert hringi ég sagði ég og tók upp síman til að hringja snöggvast, nei sko, það eru símatímar milli 11 og  12. Jæja sagði ég, ég hringi þá bara á morgun. Nei það gengur ekki því það eru allir í fríi, Ha?! Já það eru allir í fríi og fyrsti mögulegi símatíminn er á fimtud milli 11 og 12. Ég gekk aftur furðulostin út og tók tuðið á unnustu mína, það sem ég man best eftir var þetta, við erum hérna í yfir 100 þúsund manna borg (baðandi höndunum út til beggja átta) og næsti mögulegi símatími er 1 klst eftir 3 daga! hverjar eru líkurnar á að ná inn og koma sínu máli á framfæri á þessum heilaga klukkutíma eftir 3 daga á eftir að koma í ljós og verður spennandi að vita.

 

Það eina sem ég fékk staðfest eftir þennan erilsama og átakamikla dag var að ég og litlu ungarnir mínir stöndum nánast réttindalaus og varnarlaus  þegar kemur að okkar rétti til að vera saman. Til að bæta gráu ofaná svart áttum við að halda uppá afmæli eins þeirra um helgina og var tilhlökkunin mikil hjá okkur öllum. En nei. Rétturinn er hjá því foreldri sem börnin eiga lögheimili hjá og hægt er að níðast á okkur trekk í trekk án nokkura eftirmála og án refsinga. Svarið við spurninguni, er umgengnisréttur á Íslandi tálsýn?  Já hann er það.

 

Kveðja

Íslenskur faðir.

SHARE