Er unglingurinn að neyta vímuefna?

teen

Þekking á áhættuþáttum og einkennum vímuefnaneyslu getur komið sér vel, í tilfellum þar sem um neyslu vímuefna er að ræða eða hætta er á slíku. Einnig til að koma í veg fyrir misskilning, óþarft vantraust og grunsemdir vegna atvika eða hegðunar sem ekkert hefur með neyslu vímuefna að gera.

Breytt hegðun og nýir vinir geta verið merki um slíka hættu. Þekking getur því hugsanlega komið í veg fyrir alvarlega þróun vímuefnaneyslu unglings eða erfiðleika í samskiptum. Mikilvægt er að þekkja þau efni sem fyrst eru notuð – kynningarefnin – en það eru oftast hass og sniffefni, sem fylgja á eftir áfengi og tóbaki. Þá hefur neysla á alsælu og amfetamíni færst í aukana á síðustu árum. Eftirfarandi er því vert að hafa í huga og fylgjast með:

  • Það sem unglingurinn segir vera „ekkert” eða mold í eldspýtustokk, getur verið hass. Hass er oft geymt í plastfilmu og í eldspýtustokkum eða filmuboxum.
  • Ónotaðir sígarettufílterar, gosflöskur, álpappír og pípur eru tól sem hægt er að nota við hassreykingar.
  • Fylgist með notkun á lími, stórum tússpennum og öðru sem hægt er að sniffa.
  • Litlir pappírsbútar (líkjast frímerkjum) eða töflur með broskörlum eða öðrum flottum, „cool“ myndum á, geta gefið til kynna alvarlega þróun vímuefnaneyslu.
  • Mislitir fingur (afleiðing af að blanda í hasspípu) eða sárar rauðar hendur (eftir snertingu við sniffefni) geta verið einkenni á vímuefnaneyslu.
  • Rauð augu, stórir augasteinar (eða litlir), þreyta, sljóleiki, sólahringnum snúið við, minni áhugi á fyrri áhugamálum, skróp í skóla, pirringur, breytt matarlyst, aukinn áhugi á sætindum eða óeðlilega mikil þörf fyrir vatn – geta gefið til kynna vímuefnaneyslu.
  • Vert er að fylgjast með breyttri skapgerð (þunglyndi) og hegðan (t.d. fliss og fíflalæti) – en sú hegðun getur einnig verið venjuleg hegðun unglings í þroskaferlinum.
  • Hasslykt og önnur torkennileg lykt, t.d. af límefnum, krefjast skjótra viðbragða fullorðinna.

Vert er að hafa í huga að unglingar ganga í gegnum breytingarskeið sem oftar en ekki fylgir breyttur lífsstíll sem hluti af þroskaferli ungs fólks. Ofangreint einungis til viðmiðunar en vert er að hafa vakandi auga með þróuninni og leita sér frekari aðstoðar eða upplýsinga ef þörf þykir. Vonandi á ekkert af þessu við um þinn ungling – en ef þú telur hann í hættu og þarfnast aðstoðar þá er hægt að leita hennar t.d. á heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaga.  Á heimasíðu Velferðarráðuneytisins  má finna upplýsingar  yfir meðferðarúrræði.

 

Fleiri frábærar greinar eru á doktor.is logo

SHARE