Ert þú með rykmauraofnæmi?

Rykmaurar eru litlir (um 0,3 mm) áttfætlumaurar og eru því skyldir mannakláðamaur, heymaurum og köngulóm. Þessum maurum var lýst í náttúrunni á síðustu öld og þá voru þeir flokkaðir og fengu nafn. Rykmaurar fundust hins vegar ekki í hýbýlum fólks fyrr en árið 1964. Hér á landi eru þekktar tvær tegundir rykmaura sem lifa í hýbýlum manna. Rykmaurar þrífast best ef hitastig er stöðugt, yfir 20° og rakastig yfir 50%. Þeir dafna hins vegar illa ef rakastig er undir 45% og þeir þola ekki frost. Rykmaurar nærast einkum á húðflögum manna og dýra og á sveppum sem vaxa á húðflögunum. Í einu grammi af ryki er algengt að séu 100 til 500 rykmaurar en þeir geta verið allt að 20 þúsund. Í einu rúmi geta þeir skipt hundruðum þúsunda. Hver maur lifir í 3-4 vikur og á þeim tíma getur kvenmaur af sér 25-30 afkvæmi.

Mauraskítur berst í öndunarfæri manna

Rykmaurar hafa hamskipti nokkrum sinnum á vaxtarskeiði sínu. Við góðar aðstæður getur rykmaurum fjölgað mjög hratt. Hver maur gefur frá sér 10-20 örsmáar skítakúlur á dag og þessar kúlur eru svo smáar að þær þyrlast auðveldlega upp í loftið, t.d. þegar gengið er á gólfteppi, og berast þannig í öndunarfæri manna. Um 90% af þeim sem eru með ofnæmi fyrir húsryki eru með ofnæmi fyrir rykmauraskít.

Hvað inniheldur húsryk?

Húsryk er fjölbreytt blanda af ýmis konar efnum sem er breytileg frá húsi til húss eftir því hvers konar byggingarefni og gólfefni hafa verið notuð, gerð húsgagna og gluggatjalda, hvort gæludýr eru á staðnum og ýmsu öðru. Húsryk getur innihaldið þræði úr fötum, gólfteppum og öðrum ofnum efnum, húðflögur af fólki og dýrum, dýrahár, bakteríur, veirur, myglu, leifar skordýra (t.d. kakkalakka þar sem þeir eru plága), fæðuleifar og fleira. Það sem líklega skiptir mestu máli er að húsryk inniheldur í flestum tilvikum talsvert af rykmaurum, rykmauraskít, leifum eftir hamskipti og leifum dauðra maura.

Sjá einnig: Handþvottur – Einföld leið til að halda heilsu

90% sjúklinga með ofnæmisastma hafa rykmauraofnæmi

Í meltingarfærum rykmaura eru prótein sem valda ofnæmi og er mikið af þeim í skít mauranna. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að ofnæmi fyrir rykmaurum er algengt og meðal sjúklinga með ofnæmi er það mjög algengt. Í enskri rannsókn fannst að 10% af öllu fólki og 90% af sjúklingum með ofnæmisastma höfðu rykmauraofnæmi. Bandarísk rannsókn sýndi að a.m.k. 45% af ungu fólki með astma voru ofnæmir fyrir rykmaurum. Á árunum milli 1980 og 1990 var gerð önnur viðamikil rannsókn sem náði til fjölmargra landa og landssvæða með mismunandi loftslag og margvísleg hýbýli. Þessi rannsókn leiddi í ljós að þar sem mikið var af rykmaurum var mikið um rykmauraofnæmi og ofnæmisastma. Einnig fundust landsvæði, t.d. með köldu og þurru loftslagi, þar sem lítið sem ekkert fannst af rykmaurum og lítið var um ofnæmisastma. Sumar rannsóknir gefa til kynna að skaðsemi rykmaura sé mest í frumbernsku; ef börn voru vernduð fyrir rykmaurum fyrstu 9 mánuði ævinnar kom í ljós að við 2 ára aldur var minna um ofnæmi fyrir rykmaurum og einnig fyrir köttum í samanburði við börn sem voru í snertingu við rykmaura í venjulegu heimilisumhverfi. Samkvæmt þessu virðist sem það að anda að sér rykmaurum og rykmauraskít í bernsku auki hættu á alls kyns ofnæmi og astma síðar á ævinni.

Hvað er til ráða?

Hvernig getum við losnað við rykmaura úr umhverfi okkar eða a.m.k. fækkað þeim? Ýmislegt er hægt að gera en ekki er til neitt eitt ráð sem leysir vandann, þó er gott að halda rakastigi undir 50% (best er að halda rakastiginu á bilinu 35-45%). Flest bendir til að við eigum að einbeita okkur að gólfteppum og svefnherbergjum.

Rykmaurar þrífast vel í gólfteppum en illa á dúkum og trégólfum. Gólfteppi ættu aldrei að vera í svefnherbergjum og ef fólk vill endilega hafa teppi annars staðar, ætti að velja teppi með stuttum hárum. Pokaryksugur ná upp mauraskít sem fer beint í gegnum pokann og út í andrúmsloftið, þær ná ekki miklu af maurum vegna þess að þeir sitja djúpt í teppunum og halda sér þar fast. Maurarnir geta síðan fjölgað sér í ryksugupokanum þannig að næst þegar ryksugan er sett í gang dreifir hún rykmauraskít út um allt.

Til eru ryksugur með þéttari pokum en mauraskíturinn er svo smágerður að hann fer að líkindum í gegnum flesta poka. Ryksugur sem sía rykið í vatni eru taldar vera bestar í þessu samhengi. Sængur og koddar fyllt með gerviefnum eru betri en þau sem eru fyllt með dún eða fiðri en í öllum tilvikum er gott að viðra reglulega sængur, kodda, teppi og dýnur. Sumir mæla með því að setja rúmdýnur í loftþétta plastpoka.

Hreinsa má mauraskít úr sængum og koddum með því að setja þá í plastpoka og tæma loftið úr með ryksugu. Sumar sængur og koddar skemmast við slíka meðferð og þetta gerir takmarkað gagn vegna þess að maurarnir lifa áfram. Vegna þess að rykmaurar þola ekki frost er mögulegt að losna við þá, t.d. úr koddum eða tuskuleikföngum, með því að setja hlutinn í frysti.

Einnig má forðast bólstruð húsgögn, uppstoppuð dýr, þung gluggatjöld og annað sem safnar ryki sem erfitt er að þrífa. Föt á að geyma í lokuðum skápum eða skúffum. Nú eru komin á markað efni sem bera má í gólfteppi einu sinni til tvisvar á ári til að halda rykmaurum í skefjum en reynslan af þeim er ekki mikil ennþá.

Batahorfur aukast ef maurum er haldið í skefjum

Svo mikið er víst að ef gerðar eru ráðstafanir til að halda rykmaurum í skefjum fer mörgum sjúklingum með ofnæmi eða astma að líða betur. Þetta getur þó tekið sinn tíma (oft einn til tvo mánuði) vegna þess að jafnvel þó okkur takist að fækka maurunum er mauraskíturinn áfram í umhverfinu í langan tíma.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE