Ertu góð fyrirmynd fyrir börnin þín?

child girl kid

Börn eru áhrifagjörn og læra frekar af því sem þau sjá en heyra.

Fyrirmyndir barnanna okkar eru þeir sem hafa áhrif á þau dags daglega.  Mikilvægustu fyrirmyndirnar eru foreldrar og/eða þeir sem veita þeim hlýju og kærleika.

Foreldrar átta sig oft á sínum siðum eða ósiðum þegar þeir sjá börnin sín apa eftir þeim. Þetta gerist oft þegar börnin eru mjög ung, jafnvel nýfarin að tala.

Á kaffistofunni heyrði ég einn föður tala um, að þegar sonur hans var farinn að geyma tyggjóið ítrekað í efri vörinni, að hann sjálfur ætti að fara að hætta að taka tóbak í vörina.  Það er mikilvægt að geta leiðrétt sig en þetta dæmi sýnir hve sterk áhrif fyrirmyndir hafa á börnin og hve mikilvægar fyrirmyndir foreldrarnir eru.

Sjálf lenti ég í því að ritskoða sjálfa mig í tali þegar ég heyrði dóttur mína nota orðið „sko“ í enda hverrar setningar sem hún lét út úr sér.  Mér fannst hrikalega fyndið þegar ég heyrði hana segja „ég fór í bað, sko“ í allskonar útgáfum og fór að tala um þetta við leikskólann og það var ekki fyrr en þá, sem ég áttaði mig á því að það væri ég sem talaði svona.

Börn líta þó upp til fleiri aðila en þeirra nánustu, sem hjálpa til við að móta gjörðir og hegðun í t.d. skólanum, við vinina og þegar það stendur frammi fyrir að taka erfiða ákvörðun.  Börn munu á lífsleiðinni líta upp til ættingja, kennara og jafningja.  Sum ef ekki flest börn munu jafnvel horfa til áberandi aðila, eins og aðila í skemmtiiðnaðinum og íþróttafólks, jafnvel tölvuleikjafígúra.  Því er mikilvægt fyrir foreldra að átta sig á því hvað það er sem börnin eru að gera, upplifa, sjá og hvernig hegðun þau verða vitni af, því ef foreldri vill að barn eigi að forðast einhverja ákveðna hegðun þá er betra að stýra þeim í aðra átt svo það sjái ekki fyrirmyndir sínar stunda þá hegðun.

Það er þó ekki alltaf hægt að hafa áhrif á það sem börnin upplifa og sjá, því ekki er hægt að halda neikvæðum hlutum eða óæskilegum gjörðum frá börnum að eilífu þó það sé hægt að stýra því upp að ákveðnu marki.  Því er mikilvægt að kenna barninu að átta sig á því hvaða fyrirmyndir það vill notast við í lífinu.

 

Hér eru hugmyndir hvernig þú getur kennt barninu að átta sig á því hvað eru góðar fyrirmyndir.

  •  Fáðu barnið til að nefna hvaða eiginleika það kann að meta hjá þeim sem það lítur hvað mest upp til. 

 

  •  Talaðu um aðila sem þú telur að hafi jákvæða eiginleika og hafi góð áhrif á aðra. 

 

  • Talaðu um þá sem þú lítur upp til, til að gefa innblástur og leiðbeiningar og útskýrðu hvers vegna.

 

  • Útskýrðu fyrir barninu að sumir aðilar geta haft bæði jákvæð og neikvæð áhrif sem fyrirmyndir og hægt er að taka það góða til að vinna með.

 

  • Talaðu við barnið um að það er mikilvægt að barnið átti sig á sínum eigin eiginleikum og að það geti verið það sjálft þó það notist við jákvæðar fyrirmyndir.

 

 

 

 Tengdar greinar: 

Sjálfstæðisbaráttan „Terrible two“ – 1. hluti

Sjálfstæðisbaráttan „Terrible two“ – 2. hluti

Sjálfstæðisbaráttan „Terrible two“ – 3. hluti

Sjálfstæðisbaráttan „Terrible two“ – 4. hluti

SHARE