“Ertu í fýlu?” – Nei, en mér finnst stundum gott að vera ein

Mér finnst ótrúlega gott að fá stundum að vera ein með sjálfri mér. Það er mér í raun alveg nauðsynlegt. Það þýðir þó ekki að ég sé ekki félagslynd, í rauninni þvert á móti, ég hef gaman af því að hitta skemmtilegt fólk og eyða tíma með þeim sem mér þykir vænt um. Það breytir því þó ekki að ég kann að meta einveruna. Ég fer stundum ein í sund og nýt þess að sitja í heita pottinum og tæma hugann, ef að það er lítið næði á heimilinu fer ég stundum inn á bað, loka að mér, fer í heita sturtu eða bað og er í dágóða stund að dekra við mig. Það þarf stundum ekki meira.

Ég hef stundum fengið spurningu eins og “Ertu fúl?” Eða “Er ekki allt í lagi?” Eða ef ég segist hafa farið í sund, “Bara ein??” Eins og það sé voðalega slæmt. Ég kem oftast af fjöllum þar sem hugur minn er svo allt annarsstaðar en að vera í einhverri fýlu. Sumir eru nefnilega bara þannig, og þar á meðal ég, að þeim finnst stundum gott að vera einum. Ég held að það sé hollt að geta stundum verið einn með hugsunum sínum. Stundum, þegar ég hef fengið að vera í ró og næði, ein með sjálfri mér kem ég endurnærð til baka. Það er líka yndislegt þegar maður fær tíma til þess að lesa bók, það er að vísu eitthvað sem ég hef ekki haft tíma til að gera í langan tíma og sé ekki fram á að það gerist í náinni framtíð en mikið hlakka ég til þess dags sem ég get leyft mér að sitja og gera ekkert annað en að lesa góða bók!

Ég man þegar ég var yngri þá skyldi ég ekki hvað mamma var eiginlega að hugsa þegar við spurðum hana hvað hana langaði til að fá í afmælisgjöf og hún sagði: “Að fá að vera í ró og næði í smá stund og lesa bók.” LESA BÓK? Var það það sem hana langaði að fá í afmælisgjöf, þessu náði ég ekki fyrr en ég varð unglingur og ég skil hana alltaf betur og betur.

Ég skammast mín ekkert fyrir það að finnast gott að vera stundum ein. Það þýðir ekki að ég sé ófélagslynd eða þunglynd heldur einfaldlega bara týpan sem þarf stundum smá einveru.

SHARE