„Ettafareikka?“ – Klara Egilson flutti til Noregs

Marglitur kokteill í glasi, ævintýralegar bókasafnsferðir, menningarblik í augum og afar litrík ástarævintýri. Moldríkir útlendingar og æsispennandi atvinnutilboð. Ég, Íslendingurinn sjálfur, með framandi hreim, komin heim til gamla landsins. Útvalda barnið, hæfileikaríka stúlkan með djarfa hugmyndaflugið og „reddessu” genið í fararbroddi. Íklædd gömlum pels af ókunnu dýri, tíu ára gömlum gallabuxum og smá ódýru H & M glossi. Það verður að fá að fylgja með. Við segjum bara engum frá því. Þykjumst allar klæðast Chanel og leigjum svo handtöskur í second hand verslunum þegar enginn sér til.

Þetta átti allt að verða einhvern veginn svona þegar ég fluttist erlendis fyrir tveimur árum síðan. Lagði niður pennann við hátíðlega athöfn, sagði upp dagvinnunni, deildi íslenska þjóðsöngnum á Facebook sólarhring fyrir flug, klæddi þriggja ára gamalt barnið mitt að síðustu í vetrarfötin og kvaddi nágrannann; huggulega unga stúlku sem þá starfaði sem hjúkrunarfræðingur á meðferðarstöð í stigaganginum. Bað unnusta hennar fyrir alla muni að styðja við stúlkuna, sem átti í mestu erfiðleikum að komast yfir þröskuldinn. Klukkan var jú fjögur á laugardagsnóttu og parið var spariklætt. Ég gleymi aldrei orðum stúlkunnar sem reyndi þvoglumælt að óska mér góðs gengis þar sem ég stóð með föður mínum og þriggja ára gömlum syni mínum klukkan fjögur að nóttu í stigaganginum heima hjá mér og bjó mig undir að ganga út um dyrnar að síðasta sinni.

„Ettafareikka?”

„Ég er að flytja til Oslóar.”

„Ha?”

Fjórar ferðatöskur. Svefnvana faðir minn fékk það verkefni að bera þær inn í bílinn. Þegar öllu er á botninn hvolft, er faðir minn höfuð fjölskyldunnar og tók að sér það fallega hlutverk að aka mér í flugstöðina með drenginn. Mér þótti vænt um það. Þetta var hans leið til að kveðja.

Það er dálítið sérstakt. Síðustu metrarnir. Aksturinn út í óvissuna. Leifsstöð fær á sig framandi blæ, íslenska myrkrið verður ókunnugt á leið til Keflavíkur og skyndilega grípur um sig nagandi vissa á síðustu metrunum.

ÍSLENSKA KRÓNAN ER VERÐLAUS. ÆTLI HUNDRAÐÞÚSUND DUGI FYRIR KAFFI?

Ykkur að segja tekur furðanlega mikið á að fljúga milli landa þegar ætlunin er að snúa ekki aftur. Það er eins og flugið snúist í loftinu. Þaulvanar flugfreyjurnar verða allt að því mónólógískar þarna í mörg þúsund fetunum og farþegarnir áhugalausari en áður. Það tekur nefnilega á að flytja. Meir en orðum tekur að nefna. Svo dramatískir voru flutningarnir að þegar flugið var hálfnað, langaði mig mest af öllu að standa upp og öskra:

„Skilur enginn að ég ætla ekki að koma heim? Ha? Að ég deildi þjóðsöngnum? Seldi sófasettið? Að ég er í ónýtum strigaskóm? Að ég sagði upp íbúðinni? Að ég tala ekki málið? Að konan á efri hæðinni var FULL þegar ég yfirgaf landið?”

Ég veit ekki með hverju ég reiknaði. Umhyggjusömu faðmlagi frá ókunnri konu? Aukreitis drykk frá áhöfninni? Steinvölu af Þingvöllum frá svörnum þjóðernissinna? Hverju hélt ég í raun og veru að samlandar mínir myndu taka upp á, ef ég aðeins stæði upp og segði sannleikann í miðju flugi? Var ég að vonast eftir flísteppi frá Icelandair?

Því taldi ég svona víst að íslenska þjóðin stæði á öndinni yfir brottför minni?

SHARE