Facebook og Apple greiða konum styrk til að frysta egg

Facebook og Apple hafa tekið risavaxið skref sem tryggja á konum sem starfa hjá tæknirisunum aukin þægindi og öryggi í starfi; en bæði fyrirtækin hyggjast nú standa straum af frystingu og varðveislu eggja kvenkyns starfsmanna.

Launauppbót sem ætluð er sem fjárfesting í hæfileikaríkum sérfræðingum

Facebook hefur þegar hrint sinni aðgerðaáætlun af stað en Apple hyggst byrja í janúar á næsta ári. Um er að ræða talsverða launauppbót fyrir kvenkyns starfsmenn vestanhafs, þar sem kostnaður við sjálfa aðgerðina getur hlaupið á 600.000 til 1.500.000 íslenskra króna, sé aðgerðin framkvæmd í Bandaríkjunum en varðveisla eggja hleypur á bilinu 60 til 100.000 íslenskum krónum hvert ár.

Vilja mæta því flókna útspili að halda úti starfsframa og reka fjölskyldu

Það er Danielle Friedman hjá bandaríska miðlinum NBC sem ritar um málið og segir að tæknirisarnir tveir hyggi á tvær skyldar leiðir til að styðja við kvenkyns starfsmenn sína:

Apple hyggst veita frjósemisstyrk meðan Facebook hefur sett upp staðgöngumæðrunarstyrk, en bæði fyrirtækin veita konum sem hjá þeim starfa fjárstyrk upp að allt til 2.500.000 króna.

Talið er að styrkurinn muni skila sér sem fjárfesting í störfum kvenna hjá tæknirisunum en Danielle  segir einnig.

Helsti ávinningurinn er sennilega sá að konur sjái sér hag í því að halda í stöður sínar lengur, sem mun skila sér í auknum mannauði. Kostnaður við mannaráðningar og þjálfun í starfi mun að sama skapi verða minni. Konur á framabraut sem vilja bíða með barneignir og láta frysta egg sín snemma á lífsleiðinni, geta með þessum hætti komið í veg fyrir að nota gjafaegg seinna á lífsleiðinni eða kostnaðarsamar frjósemisaðgerðir þegar rétti tíminn til barneigna loks rennur upp.

Frysting eggja oftlega sögð létta ákveðnum þrýstingi af konum

Jafnvel þó kona sem hefur látið frysta egg sín kjósi að lokum að nota þau ekki og verði þunguð eftir eðlilegum leiðum, getur frysting eggja þjónað sem ákveðin trygging vilji konan eignast barn seinna á ævinni. Framtak Apple og Facebook þykir í það minnsta vera brautryðjandi fyrir þær fjölmörgu konur sem starfa innan tæknigeirans og eru eftirsóknarverðir starfskraftar.

Vonir standa til að fleiri fyrirtæki fylgi fordæmi hátæknirisanna

Megi framtak Apple og Facebook marka upphaf að barnvænni vinnuumhverfi fyrir konur og það er óskandi að fleiri stórfyrirtæki taki upp eftir hátæknirisunum í þeim tilgangi að greiða götu þeirra hæfileikaríku sérfræðinga sem eru af mýkra kyninu og þurfa oftar en ekki að leggja fram formúu fjár í þeim eina tilgangi að eignast fjölskyldu, með skerta möguleika á gæðastundum með ungum börnum sínum.

SHARE