Fáðu útrás og öskraðu þig hása í Ráðhúsi Reykjavíkur

Öskurklefinn, eða “Black Yoga Screaming Chamber” verður afhentur Reykjavíkurborg að gjöf á morgun kl 15.30 við sérstaka athöfn þar sem öllum formönnum flokkana ásamt fleirum er boðið að vera viðstaddir og fara í klefann. Erna Ómarsdóttir dansari og Ólafur Darri Ólafsson leikari munu afhenda klefann. Klefinn verður svo til sýnis í Ráðhúsi Reykjavíkur næstu vikurnar.  Um er að ræða innsetningu þar sem gestir geta fengið útrás fyrir tilfinningar sínar.

Verkið er eftir Ernu Ómarsdóttur, Valdimar Jóhannsson og danshóp þeirra Shalala, en Jón Gnarr, borgarstjóri vígði klefann við opnun Danshátíðar Reykjavíkur í fyrra og fékk að launum einn kassa að gjöf – sem hann fær nú afhendan.  Hægt er að fara inn í klefann, sem er hljóðeinangraður, einn eða með vini og vera eins lengi og maður vill. Þú getur öskrað af gleði eða gremju, til að gleyma, til að frelsa hug þinn, til að slaka á, til að fá orku, öskra öll vandamál í burtu eða öskra að ástæðulausu. Þetta gæti orðið einstök reynsla.

Að þessu sinni verður unglingum frá frístundamiðstöðum ásamt formönnum flokkanna sem bjóða fram til borgarstjórnarkosninga boðið að fá útrás fyrir tilfinningar sínar og öskra í klefanum. Klefinn verður opnaður á morgun miðvikudag klukkan 15.30 og er öllum velkomið að mæta og öskra að vild. Klefinn er afhenntur núna í tengslum við sýninguna “Inn að beini” sem verður sýnd nú á föstudaginn 24. janúar. Þetta er aukasýning en sýningin var frumsýnd á Reykjavík dancefestival  í haust og komust þá færri að en vildu. Miðasala á midi.is

Ekki missa af þessu einstaka tækifæri til að öskra eins og þú getur í Öskurklefanum!

SHARE