Fæðingasaga – Gabríel Þór

Eftir alveg svefnlausa nótt með miklum verkjum fórum við uppá sjúkrahús í mæðraskoðun kl. 10:00, 23/07. Eva Laufey ljósmóðir tók á móti okkur og setti okkur í mónitor, allt kom vel út þar og mældust 6 mínútur á milli verkja.

Um hálf 12 kom Orri fæðingarlæknir og skoðaði og þá var útvíkkun ekki nema rúmlega 3 cm og kollurinn ennþá frekar ofarlega. Eftir skoðunina var okkur sagt það að við gætum skotist heim og sótt það helsta sem við þyrftum, tannbursta o.þ.h. en ættum svo að koma aftur því það ætti að leggja okkur inn og við færum ekkert heim aftur fyrr en eftir fæðingu.
Við skutumst þá heim og tókum til það sem okkur vantaði, fórum svo heim til mömmu og létum vita hver staðan væri. Við ákváðum svo að taka smá ísrúnt áður en við færum aftur uppá deild og vorum svo komin þangað um hálf 1. Þá þurftum við aðeins að bíða eftir því að klárað væri að græja fyrir okkur herbergi og fórum svo á stofu 1. Það var svo önnur skoðun um 13:40 og þá var útvíkkunin orðin rúmlega 4 svo það var eitthvað að gerast. Svo kom Eva Laufey og sprautaði verkjalyfi og róandi og nú átti að reyna að sofna og ná upp einhverri orku fyrir það sem koma skal. Sofnaði og vaknaði svo aftur um 16:50 svo það var rúmlega tveggja tíma svefn, sem var mjög gott. Lá svo aðeins uppí rúmi og fann vel fyrir verkjunum. Það var svo komið og skoðað aftur um 17:40 en það var nú ekki mikið að gerast og útvíkkunin enn sú sama. Svo vorum við sett í mónitor kl 19:00 sem sýndi fína samdrætti og flottan hjartslátt hjá krílinu. Sofnaði svo á meðan ég lá í mónitornum og vaknaði aftur um korter yfir 8, á meðan voru vaktaskipti og við fengum nýja ljósmóður sem heitir Birna Málmfríður.
Um 9 leitið var svo skoðað aftur og engin breyting orðin á útvíkkun svo það var settur upp æðaleggur og sett dripp. Kollurinn var enn of hátt uppi til þess að hægt væri að sprengja belginn og þess vegna var drippið sett fyrst. Ákváðum við að rölta aðeins fram og fá okkur smá kvöldkaffi til þess að vera nú búin að borða eitthvað fyrir stóru stundina. Eftir að við borðuðum voru verkirnir orðnir mun verri og styttra á milli þeirra. Það var svo um klukkan 22:10 sem ég fékk glaðloft til þess að nota með verkjunum og það bjargaði mér alveg. Svo þegar klukkan var orðin 22:52 var belgurinn sprengdur og þvílíkt magn af legvatni. Eftir það ágerðust verkirnir mjög hratt og hringt var í ömmu Gullu til þess að segja henni að nú mætti hún fara að koma. Hún var komin til okkar stuttu seinna eða um 23:15. Svo var hringt á svæfingarlækni og fengin mænudeyfing um 23:30, þá löguðust verkirnir aðeins en ég vildi samt ekki sleppa glaðloftinu. Svo var skoðað og full útvíkkun komin kl. 00:59, mér brá svo mikið við það að ég fór að hágráta. Þá mátti ég byrja að rembast þegar ég fyndi rembingsþörf. Eftir þó nokkurn rembing var ég orðin mjög þreytt og vildi bara hætta við. Var farin að segja þetta týpíska „ég get ekki meira“, „Ég vill fara að sofa“ og auðvitað „ég er hætt við“.
Það var auðvitað ekki hægt svo ég hélt áfram að rembast. Mænudeyfingin var svo hætt að virka og of seint að fá meiri deyfingu svo þetta var gert með glaðlofti eingöngu. Krílið sneri svo öfugt í grindinni og ég orðin svo þreytt að ég gat ekki náð honum út. Þá var kallað í Orra fæðingarlæknir sem kom og aðstoðaði.

Ég rifnaði aðeins og þurfti að sauma nokkur spor. Þetta gekk allt eins og í sögu samt sem áður. Það var svo reynt að gefa brjóst um 03:30 og hann tók brjóstið klukkan 03:34. Eftir það var hann mældur og vigtaður. Hann var 51 cm og 3752 gr eða um 15 merkur

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here