Fegraðu húðina með ananas

Nú er ananas ekki lengur bara í kokteila og til að borða! Ananasinn er pakkaður af C-vítamíni sem hjálpar til við að losa húðina við bólur og fílapennsla, ýtir undir kollagen myndun og græðir húðina með amino sýrum. Í honum eru einnig ensím sem brjóta niður protein í húðinni sem veldur því að húðflögnun á sér stað. Talað er um að ananasinn minnki húðholur, fínar línur og húðin verði silki mjúk á eftir.

Auk alls þessa minnkar ananasinn bólgur og þrota í húðinni, gefur húðinni glóa, stinnir hana og viðheldur teygjanleika. Öll þessi virkni er eitthvað sem ég þori að fullyrða að við viljum allar!

Aðferðin við þetta er svo einföld að hún gefur enga afsökun til að gera þetta ekki. Þið einfaldlega skerið bút af ananasinum og nuddið á hreina húðina, leyfið að bíða í 5-10 mínútur og skolið af. Farið varlega í kring um augun, húðin þar þolir ekki það sama og húðin á restinni af andlitinu. Fullkomið hreinsunina svo með andlitsvatni og berið á ykkur gott rakakrem. Þetta má gera tvisvar í viku.

Eins og ég minntist á áður í greininni gegna ensímin í ananasinum miklu hlutverki í að fá þessa virkni og því er nauðsynlegt að hann sé ferskur, ananas úr dós mun ekki virka. Einnig er alltaf gott að prufa allt nýtt á húðinni bak við eyrað til að sjá hvernig hún bregst við og þá sérstaklega þær sem eru með viðkvæma húð.

 

Gangi ykkur vel!

 

 

SHARE