Fíklar eru líka fólk

Drug syringe and cooked heroin on spoon

Málefni fíkla og aðstandenda þeirra standa mér nærri hjarta. Ég hef horft á eftir alltof mörgum deyja af sökum fíknisjúkdómsins og séð hversu ljót þessi veröld undirheimarnir eru.

Þegar ég starfaði sem ráðgjafi fyrir unga fíkla og foreldra þeirra heyrði ég sögur sem voru svo átakanlegar og ljótar að flestum dettur ekki í hug að þær gerist í alvöru, þær hljóta að vera bara í bíómyndum.

Heimur fíkils er bæði harður og ljótur og heimur aðstandenda fíkla er fullur af sorg og ótta. Biðin eftir hinu skelfilega símtali sem tilkynnir að ástvinur þinn fíkillinn hafi fundist látinn.

Samfélagslegir fordómar í garð fíkla og aðgerðaleysi stjórnvalda, þetta eru óþægileg mál og fíklar öllum til ama, eða hvað?

Sú staðreynd að fíkn er viðurkenndur sjúkdómur í greiningakerfum, flokkast sem geðsjúkdómur gleymist allt of oft og sú staðreynd að fíklar eru fólk sem eiga foreldra, systkini, börn og svo framvegis. Já fíklar eru oft foreldrar eða synir og dætur, þau eiga ástvini sem elska þau rétt eins og aðrir elska ástvini sína.

Eins og ég sagði fyrr í þessum pistli hef ég séð alltof marga deyja sökum fíknar. Allt ungt fólk sem dó löngu fyrir aldur fram og sum hver eiga stóran stað í hjarta mínu og ég minnist þeirra reglulega en ekki sem fíkla heldur sem manneskjunnar sem var föst í klóm fíknar. Þessir einstaklingar eru ósköp venjulegir og flestir mjög blíðir en festast í fíknisjúkdómnum sem hefur skelfilegar myndir eins og ofbeldi, þjófnað og annað slæmt.

Nú hefur verið mikil umræða í samfélaginu um niðurskurð og stendur til að leggja niður göngudeild sáá á Akureyri þrátt fyrir fjölgun neytenda. síðasta áratug eða svo hef ég séð hverju meðferðarheimilinu fyrir unglinga lokað af fætum öðrum og séð hvernig heilbrigðiskerfið verður vanhæfara í að sinna þessum hóp. Já og séð þau deyja í kippum.

Nú er janúar og hann er ekki einu sinni alveg búin en samt hafa orðið fimm dauðsföll sem talið er að séu vegna ofneyslu vímuefna. Af þessum fimm einstaklingum þekki ég til þriggja annað hvort fíkilsins sem er látin eða fjölskyldumeðlima. Sú staðreynd segir mér að við þurfum að bregðast við sem samfélag og sú staðreynd að sprautufíklum fjölgar og fjölgar hratt.

Ég hvet okkur sem samfélag að standa upp og krefjast þess að stjórnvöld geri eitthvað í þessum málaflokki. Ég er næstum viss um að flest okkar þekkja einhvern sem berst við alkahólisma eða fíknisjúkdómin.

Ég sjálf elska nokkra sem þjást og sem betur fer nokkra í bata líka, sem er ómetanlegt kraftaverk.

Ást og kærleikur út í cosmosið og megi allir fordómar í garð fíknar leggjast af.

SHARE