Finnur þú fyrir stirðleika í liðum?

Sin er vefur sem tengir vöðva við bein. Sinaslíður eru slíður sem mynduð eru úr himnum sem liggja utan um sinar vöðvanna og minnka núning þannig að þegar vöðvarnir dragast saman gerist það mjúklega og sársaukalaust. Sinaslíðursbólga kallast það þegar þessar himnur bólgna. Sinarnar geta einnig bólgnað og kallast það sinabólga. Þetta tvennt fer þó oft saman. Hver er orsökin? Orsök sinaslíðursbólgu er oft ekki þekkt, en getur verið tilkomin eftir áverka, ofnotkun, síendurteknar hreyfingar og hreyfingar sem ekki eru framkvæmdar rétt, tognun eða mikið álag við líkamsþjálfun. Þetta er leið líkamans til að láta vita að nú sé álagið orðið of mikið. Með aldrinum missa sinar teygjanleika sinn og aukast þá jafnframt líkur á því að bólgur komi í sinar. Sinaslíðursbólga er í einstaka tilfellum tilkomin vegna sýkingar. Algengast er að sinaslíðursbólga verði í úlnliðum, höndum, öxlum og ökklum, en getur hinsvegar lagst á allar sinar sem hafa sinaslíður.

Hver eru einkennin?

Sársauki við að beygja og rétta liðamót.

Stirðleiki í liðum.

Verkir í liðum og eymsl í kringum liði, sem versna við hreyfingu og í sumum tilfellum á nóttunni.

Bólga í liðum.

Sjá einnig: Í hvað getur þú notað Aloe Vera?

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Út frá sjúkrasögu og skoðun en oftast finnst bólga og eymsli yfir sinum.

Meðferð

Markmið meðferðar er að minnka verki og bólgur. Hvíld er mikilvæg og í slæmum tilvikum þarf að spelka liðamótin til að hindra hreyfingar. Notuð eru bólgueyðandi og verkjastillandi lyf til að ná niður bólgunum og minnka verki og einnig er gott að nota kalda og heita bakstra. Í slæmum tilfellum getur reynst nauðsynlegt að sprauta inn sterum og jafnvel deyfilyfjum og í undantekningartilfellum er skurðaðgerð nauðsynleg. Í þeim fáu tilfellum þar sem sinaslíðursbólga er tilkomin vegna sýkingar eru notuð sýklalyf.

Sjá einnig: Blessaðir túrverkirnir

Ýmis holl ráð

Gott er að nota heita og kalda bakstra til skiptis, hvorn í um 10-15 mínútur í senn því það myndar ákveðna „pumpu“ á æðakerfið og eykur því blóðflæðið (ath. endað er með köldum bakstri). Það er þó ekki víst að þetta henti öllum og sumum finnst kaldur bakstur einn og sér henta betur í byrjun einkum ef svæðið er bólgið. Þá er einnig gott að hafa í huga að ekki er gott að hafa bakstra lengi í einu, heldur taka frekar örstutt hlé á milli.
Þegar bólgurnar fara að minnka er gott að nota hita á svæðið, en tilgangur hans er einkum að auka blóðflæðið um svæðið og losa um, en hætt er við að sinar og sinaslíður „festist“ saman. Það er mikilvægt að hafa í huga að þrátt fyrir að hvíld geti verið nauðsynleg, er einnig mikilvægt að hreyfa svæðið, án áreynslu ef þess er nokkur kostur til að minnka þessa viðloðun. Ef viðkomandi ofgerir sér er gott að setja kaldan bakstur á svæðið til að draga úr bólgumyndun. Þá er einnig mikilvægt að gera teygjur til þess að koma í veg fyrir að vöðvar á svæðinu dragist saman. Þá er ekki síður mikilvægt að skoða hvað það var sem olli bólgunni og hvað gerir hana verri og sjá hvort eitthvað er hægt að gera til að koma í veg fyrir hana, t.d. breyta vinnuaðstöðu og/eða líkamsbeitingu.

Batahorfur

Batahorfur eru góðar með réttri meðferð og sjúkraþjálfun eða sjúkranudd. Sjúkraþjálfunin miðar að því að ná upp fyrri styrk og liðleika og koma þannig í veg fyrir að sjúkdómurinn taki sig upp, en mjög algengt er að það gerist.

SHARE