Fitusog – Allar helstu upplýsingar

Fitusog er algeng aðgerð

Þó aðeins séu nokkrir áratugir frá því að fitusog kom til sögunnar hefur það skipað veglegan sess í röðum aðgerða hjá lýtalæknum og hefur verið ein algengasta aðgerð lýtalækna í mörg ár. Í dag virðist ekkert lát vera á þessari þróun.

Það er mjög misjafnt hvernig holdafar okkar er og ráða þar bæði erfðafræðilegir og umhverfislegir þættir. Frá fæðingu og þar til á gelgjuskeiði aukum við fitumagn líkamans með því að fjölga fitufrumum. En eftir það breytist fitumagn líkamans með því að hver fitufruma stækkar og minnkar eftir atvikum. Einnig er fitudreifing líkamans misjöfn eftir kynjum. Konur safna fitu á mjaðmir og læri en karlar á búkinn. Síðan þekkjum við að í sumum ættum virðist fólk hafa tilhneigingu til að fitna meira en í öðrum. Umhverfisáhrifin vega líka þungt á metunum. Við erum það sem við borðum. Að sjálfsögðu er besta leiðin til að grenna sig og líta vel út, að borða hollan og góðan mat og brenna aukakílóunum með aukinni hreyfingu og útiveru.

Hvar er framkvæmt fitusog ?

Best er að gera fitusog á einstaklingum sem eru í eða nærri kjörþyngd en hafa ákveðin svæði sem eru til vandræða eins og til dæmis mjaðmir og lærapokar. Þannig má segja að verið sé að laga línurnar frekar en að fjarlægja aukakílóin þó svo að þau fjúki auðvitað í leiðinni. Þetta er afar mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um fitusog. Stundum er þó fitusog notað þó svo að viðkomandi sé ekki í kjörþyngd og stundum í bland með öðrum aðgerðum. Algengustu staðir fyrir fitusog eru læri, mjaðmir, hné, kviður og undirhaka. Konur koma oftar en karlar í fitusog, en tíðni karla hefur aukist á undanförnum árum.

Hver er góður kandidat ?

Algengast er að fitusog sé framkvæmt á fólki á aldrinum 18-50 ára. Þá hefur skinnið góðan teygjanleika sem er mikilvægt svo að góður árangur náist.

Hvers má maður vænta ?

Við fitusog eru fitufrumur fjarlægðar og þær koma ekki aftur. Ef að viðkomandi bætir við sig eftir fitusog, má segja að línurnar haldist þó svo að allt svæðið gildni, en búngar nú ekki út eins og áður.

Hver gerir fitusog ?

Fitusog er framkvæmt af lýtalæknum og gert á aðgerðarstofu. Fitusog er framkvæmt með vél sem myndar lofttæmi og notaðar eru svokallaðar “canulur” eða þunn rör sem stungið er í gegnum húðina eftir að örlitlir skurðir hafa verið gerðir. Magnið sem fjarlægt er er afar mismunandi, frá 100-200 ml við sog á undirhöku og í 1000-3000 ml ef um mörg svæði er að ræða. Stærri fitusog eru gerð, en afar sjaldgæf. Við fitusog er ýmist notuð deyfing eða svæfing eftir því hvaða svæði er um að ræða og magni þess sem er fjarlægt.

Tekur það langan tíma ?

Aðgerðin tekur um 1-2,5 klst. eftir atvikum. Einstaklingurinn getur farið heim samdægurs eftir svona aðgerð. Notaðar eru teygjuumbúðir, eða teygjuföt (teygjuhólkar o.þ.h.) í 3 – 6 vikur eftir aðgerð. Þessar teygjuumbúðir veita svæðinu aðhald og hjálpa skinninu að dragast saman. Flestir fara í vinnu eftir örfáa daga. Hreyfingu og sport má hefja þegar viðkomandi treystir sér til, venjulega innan viku en sjálfsagt er að fara rólega af stað. Eðlileg íþróttaiðkun er í lagi eftir 4 – 6 vikur.

Eru einhverjar aukaverkanir ?

Aukaverkanir eru sjaldgæfar en geta komið fyrir eins og sýking, blæðing og óreglulegt yfirborð húðar.

untitled

 

Tengdar greinar:

10 manns sem hafa farið of langt í lýtaaðgerðunum

Lýtaaðgerðir á efri handleggjum kvenna eru vinsælar

Hefur ekki brosað í 40 ár

SHARE