Flensutíð og ég sem hélt ég myndi sleppa enda ekki vön að ná í svona kvikindi nema með einhverju árabili á milli.

Nei flensukvikindi réðist á mig af offorsi, svo fast að það gerði lítið úr breytingaskeiðinu og vefjagigtinni. Á núll einni breyttist miðaldra kona í ungabarn með hor og eyrnaverk, sáran háls og lekandi augu!

Frábært að berjast fyrir því að opna öndunarvegin með snýtupappír og verða blóðrisa í kringum nefið af átökum, fá vænlegar harðsperrur í rifjahylkið eftir endalausan hósta sem náði upp einni og einni slímkúlu. Hausverkur og eyrnarverkur sem mynnti helst á mjög slæma túrverki. Svo maður tali nú ekki um vinnutapið sem þetta kvikindi leiðir til og hvernig það heftir mann til daglegra athafana. Eða kostnaðinn við verkjalyf, slímlosandi, hálsbrjóstsykur og allt mögulegt og ómögulegt sem á að hjálpa.

Hver hefur tíma í þetta og hver bauð þessu flensukvikindi í bæinn?

Nú 8 dögum seinna, stútfull að hori, heimilið á hvolfi, ískskápurin tómur, karlin í útlöndum, reyni ég að pakka niður og þvo létta sumarkjóla, það er jú flug í fyrramálið í sólina.

Lít svo í spegill sé að breytingaskeiðið hefur fengið að blómstra óáreitt, stíf hökuhár bíða eftir plokkaranum og augabrúnir komnar niður á hné. Rakstur á leggjum og allt mögulegt annað eftir að græja eins og lakka táneglur og finna sandala.

Með hausin fullan af bómull rembist ég við að græja og gera svo vona ég bara að horið sogist úr mér í fluginu!

Það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera kona en vá hvað ég skal njóta og draga inn hvern einasta sólargeisla í spánverjalandinu!

Gleðilegt sumar elsku lesendur og munið að njóta hvers einasta sólargeisla.

SHARE