Flóamarkaður haldinn á Kex Hostel – Allur ágóði rennur óskertur til Umhyggju

Hún Linneaa ætlar að halda góðgerðarflóamarkað á Kex Hostel í byrjun október þar sem áhugasamir seljendur geta selt hluti. Seljendur leigja borð á Kex og sá peningur rennur óskertur til Umhyggju, sem er félag til stuðnings langveikum börnum og fjölskyldum þeirra.

„Ég á íslenskan mann og við eigum eina dóttur saman. Eftir að hún fæddist breyttust áherslur mínar í lífinu en hún er 4 mánaða í dag. Ég er farin að hugsa öðruvísi um lífið og mig langar að halda þennan markað til að styrkja gott málefni,“ segir Linneaa.

Umhyggja er búin að starfa í rúm þrjátíu ár og hefur reynt að styðja og hjálpa fjölskyldum langveikra barna með ýmsu móti. Félagið hefur verið með styrktarsjóð þar sem fjölskyldur langveikra barna geta sótt um fjárhagslegan stuðning vegna veikinda barna sinna.

Einnig hefur félagið verið að reyna að eignast tvö sumarhús þar sem allur aðbúnaður og hjálpartæki eru til staðar fyrir hreyfihömluð börn. Helstu stefnumál Umhyggju er að veita upplýsingar um þarfir langveikra barna og samhæfa þjónustuna til að geta fundið bestu mögulegu lausnir fyrir hverja fjölskyldu fyrir sig, svo hægt sé að skapa henni bestu mögulegu skilyrði til góðra lífsgæða, þrátt fyrir veikindi barnsins. Frekari upplýsingar eru á heimasíðu Umhyggju.

Verið velkomin á Kex Hostel laugardaginn 5. október til að gera góð kaup og styrkja gott málefni.

Ef  þú hefur áhuga á að selja á flóamarkaðinum geturðu haft samband á netfanginu linneaahleclaar@hotmail.com.

 

SHARE