Forboðni markaðurinn: Syndsamlega flottur sunnudagsrúntur

Hverri húsmóður er hollt að halla höfði sínu að hollum hugðarefnum. Hversu sem það nú stuðlar, þá eru leyndarmálin ekki bara bundin við ævintýraskóginn, heldur allar litlu stundirnar sem ég eyði í höfuðborginni um helgar.

 

Sunnudagarnir eru bestir; letiblandnir morgnar sem hefjast á kaffibolla þegar líða tekur að hádegi. Ég upplifi iðulega þennan ljúfsára söknuð í lok hverrar helgar, hryggðin yfir yfirvofandi mánudegi lúrir í bakgarðinum og einhvern veginn sækir létta örvæntingu að mér; hvernig ég geti kreist út síðustu dropa helgarinnar og knúið fram eitthvað stórvirkið sem gengur með mér inn í nýja vinnuviku.

 

10488739_251104008420251_426050785_n

 

Svarið við öllum mínum spurningum virðist búa á Brenneriveien, sem lúrir djúpt í iðrum listamannahverfis borgarinnar. Ég sæki stundum þangað á sunnudögum; kasta nokkrum aurum í nýbakaða vöfflu og brosi við sölufólkinu sem sumt situr við prjóna. Einhverjir sitja með kaffibolla í hönd, örfáir virðast flæða án tilgangs – rétt eins og ég sjálf – og aðrir dilla sér einfaldlega með hljóðfallinu; margróma röddunum sem mæla á flestum tungum heims.

 

4794b53eec8711e28dba22000a1f97e5_7

 

Það er gaman að ganga Brenneriveien á sunnudögum í gömlu borginni. Svífa léttstíg niður götuna og bera götulistina augum. Góna opinmynnt á gömlu geitina sem lúrir við innganginn, svört á lit og agnarsmá. Mæra volduga kristalskrónuna sem trónir yfir götunni og var stolið fyrir nokkru, skilað að lokum og merkir innganginn að síbreytilegum sunnudagsmarkaðinum sem geymir gömul gull, nokkrar hljómplötur og iðulega listmuni frá flestum heimshornum.

 

00689eb6f25c11e291bd22000a1fbf1d_7

 

Ég hef aldrei augum litið jafn litríkan markað og þann sem lúrir í listamannahverfinu, alþjóðlegt umhverfið sem tekur stöðugum breytingum og virðist eilíflega stöðugt en er á sömu stundu aldrei eins. Á Brenneriveien hef ég fest kaup á sælgætisskál sem gerð var úr haganlegri vinylplötu, mátað handprjónaða ullarvettlinga, keypt stofuklukku sem var gerð úr gamalli barnabók og gælt við gamla leðurjakka. Drukkið vont kaffi, hlýtt á jazz, daðrað við erlenda tónlistarmenn og gengið í fullorðinna manna tölu. Allt á letiblöndnum sunnudagseftirmiðdögum, angurvær yfir vinnuvikunni sem vofar iðulega yfir – staðráðin í að draga síðustu andartök helgarinnar á tálar og agndofa yfir síbreytileikanum sem lúrir á Brenneriveien 9 og kviknar til lífsins klukkan 12 á sunnudögum.

 

d028cacaeee911e2952822000a1f9695_7

 

Þó ég fegin vildi færa ykkur heiminn að dyrum, er mér ógerlegt að etja kappi við fjarlægðirnar. Þó get ég sagt með sanni að það kostar ekki nema nokkrar krónur að leigja bás á Brenneriveien og ekki loku fyrir það skotið að ég taki mig til einhverja helgina, smelli í nokkur handprjónuð leikföng og brosi mínu blíðasta upp á íslensku.

Myndirnar hér að neðan tala sínu máli – síbreytilegar, skrýtnar og skorinortar, rétt eins og sunnudagsmarkaðurinn sjálfur. Lesa má meira um Sunnudagsmarkaðinn HÉR en litrík augnablikin sem líða hjá á Brenneriveien um helgar eru engu lík:

 

 

SHARE