Hatar þú barnsföður þinn?

Nýlega fékk ég að fara inn í grúbbu á facebook sem heitir forræðalausir feður. Margir feður eru þar saman komnir til þess að hjálpast að en allir eiga þeir það sameiginlegt að þeir eru að berjast fyrir því að fá að hitta börnin sin.

Það gerði mig leiða að sjá þessa feður skrifa sögu sína. Sumir höfðu ekki fengið að sjá börnin sín í marga mánuði og söknuðurinn eðlilega mikill. Ég tók hinsvegar eftir því að yfirleitt var barnsmóðirin reið og bitur út í barnsföðurinn, það var þeirra upplifun allavega.

Lögin á Íslandi eru í raun og veru alltaf móðurinni í hag sem er sorglegt og þarf að breyta. Ef samningur næst ekki á milli foreldra, er móðurinni yfirleitt alltaf dæmd forsjáin. Það gæti verið einhver von á breytingu svo hægt verði að dæma sameiginlega forsjá. Skiljanlega þegar fólk er sárt og reitt þá gerir það allt til þess að koma sér niður á hinni manneskjunni, ég held að við höfum öll einhverja reynslu af því.

Í þessu tilviki snýst þetta ekki um foreldrana heldur barnið og rétt barnsins til þess að þekkja báða foreldra sína og umgangast þá. Börnum á að líða vel með foreldrum sínum, þau eiga ekki að lenda á milli í rifrildi þeirra eða þurfa að heyra foreldra tala illa um hvort annað.

Þó svo að barnsfaðir þinn hafi komið illa fram við þig, sært þig eða haldið fram hjá þér þýðir það ekki að hann sé óhæfur eða slæmur faðir. Það ættu allir að spyrja sig þeirrar spurningar, hvað er best fyrir barnið mitt? Það ættu allir foreldrar að geta svarað því.
Foreldrar sem eru reiðir við hvort annað eða kemur ekki saman þurfa að finna út úr hlutunum.
Góðir foreldrar gera allt í sínu valdi til þess að börnunum líði vel og því ættu foreldrar sem ná ekki sáttum eðlilega að leita til utanaðkomandi aðstoðar eins og sálfræðings eða jafnvel prests.

Ég heyri mjög gjarnan foreldra tala niður til hins foreldrisins fyrir framan börnin. Setningar eins og „spurðu pabba þinn, hann kaupir aldrei neitt“ eða „mamma þín er endalaust tuðandi yfir engu“.
Í eyrum barnanna hljómar það fyrir þeim eins og þau séu byrði á foreldrunum. Það er því góð regla foreldra að tala fallega um hvort annað sama hvernig sem álit þeirra er á hvor öðru. Ræða einnig við ömmuna, afana og nána ættinga um að tala aldrei illa um hina fjölskylduna þrátt fyrir að þau hafi sterka skoðun á þeim. Það gerir ekkert nema slæmt fyrir barnið að heyra endalaust hvað foreldrar þess séu ómögulegir.

Virðum barnsmóður og barnsföður okkar, börnin okkar væru ekki til án þeirra.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here