Forvitnilegt: 65 ára er konan á hátindi kynþokkans

Æskan er stórlega ofmetin; silfurgrár makki er sexí og örfínu línurnar um augun eru merki um hugrekki, eldmóð og djörfung. Það sýna í það minnsta forvitnilegar niðurstöður Gallup könnunar sem framkvæmd var fyrir stuttu og náði til 80.000 Bandaríkjamanna á öllum aldri.

Spurt var um kynþokka, aldursskeið og sjálfsöryggi og niðurstöðurnar eru ekki bara forvitnilegar, heldur ótvíræðar. Konur sem komnar eru yfir 65 ára markið eru hvað ánægðastar í eigin skinni og kunna til fullnustu að meta kvenleika sinn.

Gallup lagði spurningalista fyrir þáttakendur sem snerist um að svara þessari einföldu spurningu: „Þú ert alltaf ánægð/ur með líkamlegt útlit þitt.” Yfir 65% þáttakenda sem komnir voru yfir 65 ára markið svöruðu þessari spurningu játandi – og slógu þannig öðrum aldurshópum sem þátt tóku í könnuninni ref fyrir rass. 

Alls svöruðu 58% þáttakenda spurningunni játandi – en þáttakendur á aldrinum 18 til 34 ára sýndu einnig jákvæða svörun  við spurningunni, eða 61% þáttakenda.  Fólk á miðjum aldri sýndi hvað mestar efasemdir um eigið ágæti – en einungis 54% þáttakenda á aldrinum 35 til 65 ára virtust sáttir við eigin líkamsvöxt. Hlutfallið fór svo hækkandi að nýju, þegar á eftirlaunaaldurinn var komið. 

 Sambærilegar rannsóknir hafa einnig verið gerðar sem sýna hafa átt fram á hver „töfraaldurinn” er en þannig sýndi bresk könnun frá árinu 2012 fram á að konur væru hvað kynþokkafyllstar þegar þær hefðu náð 28 ára aldrinum, en systurkönnun þeirrar bresku átti síðar eftir að leiða í ljós að konur eru í raun hamingjusamastar um 34 ára skeiðið. 

En Gallup könnunin, sem var ansi viðamikil í framkvæmd og spannar stærsta úrtakið til þessa, leiddi því miður einnig í ljós að konur eru óöruggari en karlar og virðast síður sáttar við líkama sinn og það allt fram á áttræðisaldurinn. Þó má leiða líkum að því að konur nái meiri sjálfssátt með aldrinum þar sem bilið milli kynja virðist dvína um fimmtugsaldurinn og upp úr.  

Af hverju ætli niðurstöður bendi svo ótvírætt til að ellilaunaþegar séu sáttari í eigin skinni en yngra fólk; hvernig getur það staðist að fínar broslínur sem síðar meir dýpka, gráu hárin og jafnvel höktandi göngulag geti gætt fólk auknu sjálfstrausti?    

Justin McCarthy, sem starfar fyrir Gallup og svarar fyrir könnunina sjálfa segir það ekki flókið spursmál að svara:

Félagslegar kröfur og samfélagslegar væntingar til eldri borgara eru aðrar en þær sem gerðar eru til yngra fólks. Almenn viðhorf þeirra sem hafa klofið eftirlaunamarkið eru önnur og kröfur til útlits eru frábrugnar því sem yngra fólkið á að venjast. Þó útlit eldri borgara myndi hrópandi mótvægi við stælta líkama þeirra sem yngri eru, er það engu að síður staðreynd að fólk sem komið er af léttasta skeiði er hvað ánægðast með eigin spegilmynd.  

Að því sögðu er eitt víst; efri árin eru skemmtilegri en margir telja. 

SHARE