Frá víti til Fenris – Einlæg frásögn íslenskrar konu af sigri

Það er nú svo að ég hef upplifað margt og sálin fengið að kenna á því í kjölfarið. Mig langar að segja aðeins frá ferðalagi mínu, hvað ég hef prófað og hvað virkaði best, í von um að manneskjur þarna úti sem eru í svipuðum aðstæðum fái von um að ástandið muni lagast og með hvaða leiðum það gæti virkað.

Átti erfiða æsku

Æskan mín var ekkert til að hrópa húrra fyrir. Ég bjó við heimilisofbeldi í ein 10 ár eða svo og horfði ég á mann móður minnar berja úr henni sjálfstraust og ólst þar af leiðandi upp við slæma ímynd af karlmönnum. Ég horfði á þennan stóra og sterka mann sem átti að vera klettur fjölskyldunnar, berja niður fjölskylduna, rífa traust, brjóta vonir og ræna okkur saklausu barnæskunni. Heimilið og móðir mín var tikkandi tímasprengja og ég vissi aldrei við hverju mátti búast þegar ég kom heim eftir að hafa verið í leik úti með öðrum krökkum. Mér leið ekki vel inn á þessu heimili og ást og umhyggju vantaði, enda móðir mín ekki í standi til að gefa neitt frá sér.

Ástandið skánaði svo ekki mikið þegar ég fór í skólann því þar var mér mikið strítt vegna stærðar. Ég var bráðþroska og stækkaði upp úr öllu valdi og var höfði hærri en bekkjarfélagar mínir. Ég var stór, sláni og eins og sumir strákar orðuðu það, of stór til að einhver myndi vilja vera með mér.

Á meðan bekkjarfélagar mínir sögðu þetta, sögðu eldri karlmenn annað. Kennarar fóru að segja að ég væri falleg í svona flegnum bolum, menn sem ég var að vinna hjá fóru að veita ákveðnum líkamspörtum athygli, vinnufélagar sem voru eldri menn byrjuðu að senda mér sms. Allstaðar var mér veitt athygli af eldri karlmönnum og ég var eins og ryksuga á hrósin, stóri sláninn sem fékk allt í einu svona mörg hrós var allt í einu prinsessa í augum þroskaðra karlmanna.

Ég lifði á þessum hrósum og þó að líkaminn gæfi mér viðvörunarmerki um að eitthvað væri ekki rétt þá hundsaði ég það því ég var orðin háð hrósunum, eins og fíkill. Þar af leiðandi þurfti ekki mikið til að ég veitti aðgang að líkama mínum og sál. Kynlíf byrjaði ég að stunda snemma og ekki af neinni væntumþykju og ást, fyrir mér var líkaminn meira eins og tæki sem ég notaði svo fólki líkaði vel við mig. Ég vildi bara vera samþykkt, passa inn, ekki vera öðruvísi. Ég vildi ekki vera stór, ég vildi vera lítil og krúttleg, ekki nota svona stórt skónúmer, ekki vera með svona miklar mjaðmir, ekki heita Ingibjörg Hulda og allra síst ekki vera rauðhærð! Ég byrjaði meðal annars að lita á mér hárið í 4. Bekk. Ég gleymi því aldrei þegar ég var á irc-inu sem var það heitasta í denn og ég var að tala við strák sem spurði hvernig ég liti út. Ég svaraði rauðhærð með græn augu og svarið sem ég fékk til baka var OJ. Ég var nú fljót að leiðrétta það svo þessi strákur myndi ekki hætta að tala við mig og sagðist vera að grínast, ég væri ljóshærð með blá augu. Það virkaði vel því stráknum sagðist hafa létt við að heyra það.

Vel þekktur einstaklingur misnotaði traust mitt og braut á mér
Allt í einu við 15 ára aldur, byrjaði strákur sem var töluvert eldri en ég að tala við mig. Þetta var vel þekktur einstaklingur, sérstaklega meðal stelpna því hann var mjög myndalegur. Ég var mjög spennt og trúði ekki að hann væri að tala við mig, stóra rauðhærða slánann! Eitt kvöld samþykkti ég að fara heim til hans (og það mátti meðal annars enginn vita af því) en þar misnotaði hann traust mitt og braut á mér, gerði hluti sem ég vildi alls ekki gera og hélt þeim áfram þó að ég segði nei. Ég gerði samt ekkert í því seinna meir af því að mér fannst þetta ekki nauðgun, ég samþykkti að fara heim til hans, ég gat bara sjálfri mér um kennt.
Löngu seinna, held það hafi verið fyrir 2 árum, komst móðir mín að þessum atburði. Hún gekk á mig og spurði og ég sagði henni sannleikann. Þar af leiðandi fór ég að fara í viðtalstíma hjá Aflinu þar sem ég sagði einni trúnaðarmanneskju öll þau leyndarmál sem ég átti sem ég hafði aldrei sagt neinum. Ég fékk útrás fyrir vandamál mín og vanlíðan, en þetta var svosem engin meðferð, ég hafði bara aukinn skilning á ástandi mínu og hugsunum.

Slæm reynsla af fitness
2011 keppti ég í fitness. Ég hélt að ef ég yrði svona flott þá myndi allt lagast, ég yrði ánægðari með sjálfa mig, öllum myndi finnast ég flott, ég væri á toppi veraldar. Allt kom fyrir ekki, ég barði sjálfa mig áfram þennan tíma sem ég var í niðurskurði. Mér leið illa því ég gat ekki borðað það sem ég vildi og ég varð heltekin af mat. Það kom fyrir að ég tók átköst í eldhúsinu og svo sá ég ímynd af mér upp á sviði, feitari en allar hinar, ekki vera eins og hinir, vera öðruvísi. Hvað var við því að gera? Jú fara inn á klósett og skila þessu í Gustavsberg.
Á keppnisdag var ég á toppi veraldar, allt stritið hafði borgað sig, engin appelsínuhúð, húðin brún, fallega máluð, maginn sléttur, hárið slegið. Keppnin var mjög skemmtileg en þessar stóru mjaðmir voru alltaf fyrir mér, á toppi veraldar voru þær meira að segja ennþá fyrir. Ég fór svo inn á svið þar sem ég sýndi dómurum afrakstur minn en þeim leist ekki nógu vel á það sem þeir sáu og endaði ég í 8. Sæti í mínum flokki, sem ég var nú samt alveg ánægð með.
5 dögum eftir mót hafði ég þyngst um 8 kg, ég leit út eins og körfubolti og við tók annað tímabil af sjálfsniðurrifi. Ég byrjaði að reyna að borða aftur eins og í niðurskurði en samlokan og kökurnar voru of góðar, en voru þó ekki eins góðar á leiðinni út aftur. Og að hreyfa sig, mæta í ræktina? Úff ég var komin með ógeð, fyrir utan það að ég skammaðist mín að hafa fitnað svona og vildi ekki að fólk í ræktinni myndi sjá mig. Þegar ég svo mætti í ræktina var enga útrás að fá, ég kom heim með verra sjálfsálit eftir allar speglastörurnar sem ég átti við sjálfa mig.

Bardagaíþróttir hjálpuðu
Í fyrra, 2012 fór ég að fara til sálfræðings sem greindi mig með alvarlegt þunglyndi og alvarlega kvíðaröskun. Ég byrjaði í meðferð og á lyfjum sem munaði rosalega miklu fyrir mig. Ég var hætt að sinna heimilisstörfum, veitti ekki barninu mínu athygli, hreyfði mig ekki neitt og lá bara undir sæng og vildi sofa í myrkrinu. Þetta ástand kom sambandinu mínu í voða en með hjálp sálfræðimeðferðar gat ég reynt að leiðrétta aðstæðurnar.
Þá kom árið 2013. Kærasti minn gaf mér kort í félag sem heitir Fenrir, á Akureyri. Ég hugsaði að bardagaíþróttir væru það sem ég fengi útrás fyrir og þar hafði ég rétt fyrir mér. Ég var mjög hrædd við að mæta, hrædd við að ég yrði auminginn á svæðinu, að kannski ég ætti ekki heima þarna. Einn daginn mætti ég og það var ekki snúið aftur. Þjálfararnir og allir sem voru að æfa þarna voru æðisleg, tóku hlýlega á móti manni, maður var hvattur til að kýla fastar, sparka fastar, fá útrás. Loksins fann ég stað þar sem útlitið mitt skipti ekki máli og var mér til hagnaðar ef eitthvað var. Það sem áður voru veikleikar voru nú styrkleikar. Þjálfararnir prentuðu því inn í hausinn á mér að ég væri stór og sterk og ef að ég myndi klikka á tækni íþróttarinnar þá gæti ég notað þunga minn og styrkleika í að reyna að sigra mótherjann.

Dag eftir dag fór sjálfstraustið að aukast, ég var ekki lengur stóri sláninn, ég var stóra sterka stelpan sem gat klifið fjöll og firnindi. Útlitið skipti engu máli, það hafði engin áhrif á sigur eða tap, það velti ekkert á útlitinu. Ég þurfti ekki að neyða líkama minn til að hreyfa mig þangað til að ég myndi svitna, í von um að brenna einhverju af þessu smjöri utan af mér, heldur var svo gaman að hreyfa sig og mæta á æfingar að ég áttaði mig ekki á því hversu sveitt ég var fyrr en æfingin var búin.

Er búin að keppa á einu móti og á leið á annað
Ég fann hillu í lífinu sem var merkt mér, þarna fittaði ég inn, þarna notaði ég styrkleika mína til að komast áfram, stanslaus hugsun um galla minnkaði, ég fékk útrás fyrir reiði og vanlíðan. Ég mætti oft í móki vanlíðunar á æfingu en fór alltaf heim með bros á vör, kófsveitt og búin að brenna kaloríum án þess að taka eftir því, því það var svo gaman.
Enn núna, nokkrum mánuðum seinna er ég að, það þarf aldrei að pína mig á æfingar og þetta er hápunktur dagsins að hitta allt þetta fólk og hnoðast eftir gólfinu í Brazilian Ju Jitzu, Boxi, Þrektímum eða öðru. Ég er búin að keppa á einu móti og er á leiðinni á annað. Það er stressandi en jafnframt krefjandi. Ég þarf að standa andspænis manneskju sem ég gæti tapað fyrir og allir horfa á það en eftir á er ég stolt af árangri mínum, reynslu og hafa þorað að koma fram eins og ég er.
Ekki nóg með það heldur fæ ég líka þjálfun í samskiptum og félagslegum tengslum þar sem ég var fengin til að kenna tíma sem heitir Teygjur og liðleiki, en það er einn af styrkleikum sem ég vissi ekki að ég hafði, að ég væri liðug.
Ef einhverjir þarna úti þjást af þunglyndi, kvíða, félagsfælni, hræðslu um að vera öðruvísi, sjálfsniðurrifi eða finnast þeir ekki passa inn, þá mæli ég með þessu. Fenrir bjargaði minni líðan, veitti mér útrás og veitti mér félagslegan stuðning og viðurkenningu. Stærsti sigurinn af þessu öllu er að ég get farið hvert á land sem er og borið höfuðið hátt, ég er sterk, ég get varið mig og það getur enginn gert mér neitt sem ég vil ekki gera!

SHARE