„Fyrir hverju ertu eiginlega með kvíða?“ – Hugrakkur maður segir okkur reynslu sína

„Fyrir hverju ertu eiginlega með kvíða?“

„Æji, hann er alltaf með einhvern kvíða, sem ég er ekki alveg að fatta.“

„Þetta er bara einhver aumingjaskapur í honum“.

Þetta eru mjög algengar setningar sem maður heyrir um fólk sem þjáist af kvíðaröskun. Það er erfitt fyrir fólk sem ekki hefur upplifað kvíða að skilja hvernig hann virkar. Að útskýra kvíðann sinn fyrir fólki er eiginlega eins og að lýsa tilfinningunni hvernig var að klifra uppá Mount Everest og ná toppnum. Fólk getur ekki upplifað tilfinninguna með manni og skilið nákvæmlega hvað maður gekk í gegnum.
Mér finnst of lítið talað um kvíða í þjóðfélaginu í dag og oft á tíðum eru miklir fordómar gagnvart fólki sem þjáist af þessum sjúkdómi. Það mætti líkja þessu við fordómana gagnvart þunglyndi fyrir ekki svo mörgum árum að það væri bara aumingjaskapur, en sem betur fer hefur skilningurinn á þeim sjúkdómi orðið meiri.

Ég er 33 ára karlmaður og hef þjáðst af kvíða síðan ég man eftir mér. Ég man eftir að mamma þurfti að fara með mér í próf í skólanum þegar ég var orðinn alveg 8 og 9 ára og bíða fyrir utan skólastofuna. Ég gat aldrei sofið nóttina fyrir. Ég kveið ótrúlegustu hlutum þegar ég var barn og unglingur en þá voru það yfirleitt hlutir sem ég gat greint hverjir væru.

Þegar ég var tvítugur byrjaði ég í mínu fyrsta ástarsambandi með strák. Ég upplifði ótrúlegar tilfinningar á þessum tíma. Auðvitað létti að vera kominn út úr skápnum, verða ástfanginn fyrir alvöru í fyrsta skipti og vera farþegi í tilfinningarússíbana sem tók aldrei enda. Ég fann ekki mikinn kvíða fyrstu mánuðina í sambandinu þangað til mig fór að gruna að allt væri ekki með felldu hjá þessum strák. Mig fór að gruna að hann væri að halda við aðra og fór að finna fyrir stanslausum kvíða í maganum. Tegund af kvíða sem ég þekkti ekki áður og var mjög hræddur við. Ég fékk síðan staðfestingu á því að þessi grunur minn var á rökum reistur. Ég hélt samt áfram í sambandinu í nokkur ár.

Kvíðinn minn hefur alltaf komið þannig fram að hann er líkamlegur. Ég missi alla matarlyst, vill ekki hitta fólk, get ekki svarað í síma, er alltaf með stóran stein fyrir brjóstkassanum og finnst ég ekki ná andanum, fæ mikinn höfuðverk og mikla almenna vanlíðan.

Síðustu vikurnar sem ég og þessi strákur vorum saman var ég búinn að leita læknis vegna þessa. Hann setti mig strax á þunglyndislyf, kvíðastillandi lyf og svefnlyf. Það hafði lítið að segja nema ég var skakkur allan daginn. Ég var hættur að geta mætt í vinnuna og vaknaði alltaf eldsnemma á morgnana og drakk kaffi allan daginn og reykti tvo til þrjá pakka af sígarettum á dag milli þess sem ég bruddi pillurnar. Ég var orðinn 49 kíló og leit virkilega illa út og margir farnir að hafa miklar áhyggjur af mér.

Ég var kominn með magasár af kvíða og áhyggjum og var í raun orðinn vannærður bæði á sál og líkama. Þetta var byrjunin á kvíðanum mikla sem ég berst við enn þann dag í dag. En sem betur fer gat ég farið frá þessum strák. Þá tók við heilt ár þar sem ég jók pilluskammtana og bætti áfengi við. Ég hafði aldrei verið neitt sérstaklega mikið fyrir áfengi og finnst víman af því mjög óþægileg.

Árin á eftir hélt ég áfram á þunglyndislyfjum sem höfðu kvíðastillandi áhrif, kvíðastillandi lyfjum (benzodíazepín lyf) og ýmsum öðrum lyfjum til að koma mér í breytt ástand til að flýja kvíðann.

Það sem fólk gerir sér ekki grein fyrir er að það eru til ótal margar tegundir af kvíða. Það er eðlilegt að vera með kvíða upp að vissu marki, annars kæmi maður í raun engu í verk. Það er eðlilegt að fá kvíða og fiðrildi í magann ef maður þarf að halda ræðu eða stíga upp á svið eða eitthvað slíkt. Þetta er allt eðlilegt og ætti nú ekki að þurfa að vera meðhöndlað með neinum lyfjum eða sálfræðimeðferðum.

Síðustu ár og enn þann dag í dag er ég með þannig kvíða að ég get ekki útskýrt af hverju hann er. Það er það sem fólk skilur ekki. Að ég skuli vera með kvíða en veit ekki hverju ég kvíði? Einkennin eru einmitt þessi líkamlegu einkenni, steinn í maganum, vanlíðan, höfuðverkur og oft nær kvíðinn alveg tökum á mér og þá gerist það versta. Þá koma kvíðaköstin. Þá er eitthvað sem platar líkamann og hann greinir hættuástand og fer í algert uppnám. Ég hef lent í því nokkrum sinnum.

Ég get lýst einu slíku kasti sem ég fékk fyrir nokkru. Ég var staddur á starfsdegi í vinnunni og Jón Gnarr kom óvænt með uppistand til okkar í hléinu. Við hlógum og höfðum gaman en skyndilega leið mér eitthvað furðulega og fór fram og inn á klósett. Ég byrjaði að anda mjög ört og vissi ekki hvað var að gerast. Þetta lagaðist aðeins þegar ég fór fram svo ég fór aftur inn. Þetta kom síðan aftur og ég hljóp inn á klósett og kúgaðist og kúgaðist. Ég byrjaði að ofanda það mikið að ég var kominn með svima og vissi ekki hvað snéri upp né niður. Vanlíðanin var slík að mig langaði virkilega að deyja eða að ég gæti svifið upp úr líkamanum meðan þetta gengi yfir. Ég byrjaði að dofna í andlitinu og fann ekki fyrir hálfu andlitinu á mér þegar ég snerti það. Ég var skíthræddur og virkilega bað Guð um að bara taka mig til sín. Þetta stóð í um hálftíma og ég var keyrður heim og upp í rúm. Líkaminn var gersamlega búinn á því eftir þetta og ég svaf í marga klukkutíma á eftir og gat varla talað.

Þegar maður fer til læknis og segist þjást af kvíða lætur hann mann yfirleitt fá lítinn skammt af kvíðastillandi lyfjum. Alprazolam, Tafil (Sama og Xanax sem er frægt í bíómyndunum), Sobril, Lexotan osfrv. Ég hef ótal sinnum lent í vítahring með þessi lyf. Þau eru ekki ætluð til langtímanotkunar, í mesta lagi í 2-3 vikur því maður myndar þol gegn þeim og þarf stærri og stærri skammta. Eftir langtímanotkun þessara lyfja byrja þau að virka öfugt. Þau fara að valda kvíða. Ég hef þrisvar sinnum farið á Vog til þess að fara í afeitrun af þessum lyfjum og það er ekki nein skemmtiferð. Það tekur lengstan tíma að hreinsast af þessum lyfjum heldur en nokkrum öðrum fíkniefnum enda er þetta bara tómt læknadóp.

Ég hef lifað við þetta það lengi að ég er farinn að læra á kvíðann. Það fyrsta er að vera ekki hræddur við hann. Ef maður finnur hann koma þá bara bjóða hann velkominn því hann gengur yfir. Þá yfirleitt hættir hann við að hrella mann mikið. Það er gríðarlega mikilvægt að borða reglulega og drekka sem allra minnst af kaffi eða orkudrykkjum eða nokkru sem er örvandi. Eitt annað vandamálið mitt er að ég veit vart annað betra á bragðið í heiminum en kaffi en ég get ekki drukkið heilan bolla. Þá kemur kvíðinn yfir mig eins og byssukúla. Ég fæ mér nokkra sopa stundum sem er í lagi og þá er ég sáttur. Ég veit að það er klisja að borða reglulega, hreyfa sig osfrv en það virkar! Það versta sem maður gerir líka er að drekka áfengi. Ég get það ekki því það er ávísun á kvíðakast daginn eftir.

Mig langaði aðeins að skrifa þetta til þess að vekja athygli á hversu margar tegundir af kvíða er til. Það er það sem fólk áttar sig ekki á. Og það eru til ótal leiðir til þess að halda honum niðri og bendi ég á Kvíðamiðstöðina sem eru með mjög góð námskeið.

Við erum EKKI aumingjar. Við getum ekki að því gert að þetta herjar á okkur. Kvíðinn er lúmskur og getur komið hvenær sem er, oftar en ekki þegar allt er í fínu lagi hjá manni.
Vonandi mun fólk reyna að skilja þennan sjúkdóm betur í framtíðinni og það besta er að tala um þetta.

Davíð Nóel Jógvansson

davidnoel

SHARE