Fyrirgefðu elsku barnið mitt!

Elsku hjartans barnið mitt.

Ég veit ekki hvort ég muni nokkurntímann geta sagt þér hvað kom fyrir þig. Þú ert svo lítil, svo dásamlega saklaus og tær.

Mamma hefur ekki getað horft á þig án þess að fá tár í augun síðustu daga, þú hefur komið til mömmu, kysst hana og huggað með dásamlegu orðunum þínum „mamma, þetta att í lagi“ og mamma hefur gefið þér bros.
Mömmu er ekki illt í maganum eins og þú heldur, mömmu er illt í hjartanu.

Litlu þriggja ára gömlu hendurnar þínar hafa vafið sér utan um hálsinn á mömmu til að gefa henni styrk og blíða brosið þitt hefur hlýjað brotna hjartanu.

Sjá einnig: Þjóðarsál: ,,Þau gerðu grín að andláti föður míns”

En ennþá sekkur það, því þú veist ekki enn að það var brotið á þér. Þú skilur ekki hvað er í gangi og mamma getur ekki grátbeðið þig um að fyrirgefa sér eins og hana langar mest að gera.

Fyrirgefðu elsku ástin mín, mamma hefði átt að hlusta á sjálfa sig þegar að hún fann að hún gat ekki treyst þeim sem var að passa þig. Mamma hefði strax átt að fara með þig annað.

Mamma lofaði að vernda þig og gera allt sem hún gæti til að engin gæti brotið þig eins og hún var brotin, en mömmu líður eins og henni hafi mistekist. Fyrirgefðu, ég mun aldrei aftur efast tilfinningarnar mínar og láta þig í hendurnar á einhverjum sem ég treysti ekki 100%.

Sjá einnig: „Ég ákvað að reyna að svipta mig lífi!“ – Þjóðarsálin

Mamma reynir eins og hún getur að vera sterk á daginn, að láta þig ekki sjá að henni líði illa, en þegar að þú sefur skælir mamma. Hún skælir fyrir þig og hvert einasta tár er loforð til þín um að ég verði alltaf þér við hlið og geri mitt besta til að vernda þig.

Fyrirgefðu elsku hjartað mitt að mamma var ekki nógu sterk fyrr en of seint.

Mamma var brotin sem barn, sem ung kona og svo aftur sem móðir – þegar að það var brotið á þér.

Mér þykir þetta svo leitt ástin mín.

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is. Ef þú hefur áhuga á að deila þinni reynslu, skoðun eða upplifun máttu senda hana á thjodarsalin@hun.is.

SHARE