Galdur hins hæfa og góða kennara er að hann vísar nemendum leiðina

Eitt af sérkennum skólastarfs er að kennarinn getur hvorki látið nemendur
sína læra né getur hann lært fyrir þá. Galdur hins hæfa og “góða” kennara er
að hann vísar nemendum leiðina, reisir vörður sem þeir geta farið eftir og
reynir svo að hafa áhrif á þá að þeir gangi hina vörðuðu námsleið í leit að
þekkingu. Það er ef til vill vegna þessa sérstaka eðlis kennslu-starfa að
fólki gengur misvel að átta sig á störfum kennara og meta þau. Því verður
sá sem gerir það að lífsstarfi sínu að fræða aðra og annast uppeldi þeirra,-
sá sem er kennari – að vanda mjög til verka sinna sjálf sín
vegna. Hann verður dag hvern að kosta öllu til, vinna aðeins betur í dag en
í gær.
Þannig getum við vonast til að við höldum hugarró okkar og sjálfsvirðingu. Við
megum ekki gera minna en hið besta. Látum engan segja okkur að önnur leið
sé fær.  Við megum vænta þess að störf okkar eigi sér stoð í traustri þekkingu sem við  höfum öðlast í kennaranáminu og þekkingu sem við munum halda áfram að afla okkur. Fari þetta tvennt saman, traust þekking og kærleikur til meðbræðranna er farsæld í starfi vís.

Áður var sagt að heimur færi versnandi og vel getur það verið. Hitt er alveg víst að heimur minnkandi fer. Öll varðar okkur um þróun í samskiptum þjóða, bæði þegar við
hugsum sem borgarar og  fagmenn. Þannig varðar kennara mjög  um
þróunina  í samskiptum þjóða, hún getur haft bein áhrif á líf og aðstæður nemenda þeirra.
Kennara ber skylda til að fylgjast vel með ákvörðunum stjórnenda landsins, hverjir sem þeir eru og láta sig þær varða. Okkur varðar um hvað stjórnendur ákveða, því að fyrr eða síðar snertir það líf okkar allra. Og okkur ber skylda til að koma þeim
skilaboðum áleiðis til hvers annars og til þeirra sem með stjórn fara,-
hafa farið- og munu fara að stjórnmál eiga ekki að vera valdatafl
einstaklinga heldur einfaldlega þjónusta, þjónusta við náungann, þjóðfélgið
og komandi kynslóðir.
Ef kennari hefur þessa skoðun kynnir hann nemendum sína hana með orðum og í daglegum samskiptum við þá..

Nú má spyrja hvort kennarinn eigi ekki einungis að fást við fræðslu og láta foreldra og einhverja aðra um uppeldið. Þau viðhorf hafa vissulega heyrst frá forystu kennarasamtakanna. Í stuttu máli hafna ég þeirri skoðun og kýs að vera þeirrar skoðunar að starf kennarans sé jöfnum höndum uppeldi, andleg og stundum líkamleg aðhlynning og miðlun margslunginna fræða.

 

Þannig tel ég að kennari freisti þess eins og kostur er að standa vörð um hagsmuni skjólstæðinga sinna og reyni um leið að rækta með þeim hollan þegnskap.

Sá mæti skólamaður Þórarinn Björnsson, skólameistari á Akureyri sagði eitt
sinn við skólaslit:
”Mannshugsjón norrænna manna var drengskapur, en drengur heitir vaskur maður
og batnandi, segir Snorri. Þessi skilgreining er stórmerkileg. Fyrst er
talað um vaskleika. Það þarf vaskleikann, átakið til alls manndóms. Og þó
er hitt orðið, sem valið er, batnandi, enn merkilegra. Krafturinn einn er
ekki nógur. Hann getur verið bæði af hinu góða og illa. Hann verður að meta
siðferðilegu mati. Og það er ekki einu sinni nóg að vera góður, heldur
batnandi. Mestu varðar að stefna í rétta átt, sækja á brattann, upp hærra.”

Seint fæ ég þakkað sem mér finnst vert að hafa fæðst á Íslandi, alist hér
upp, hafa mótast af íslenskum viðhorfum og náttúru landsins.

Mig  langar til að eiga þátt í að börn og unglingar sem ég kenni og hef kennt taki virka afstöðu- bæði á sviði vitsmuna og tilfinninga til þess að vera Íslendingar. Það kann að
vera nær en við áttum okkur á að við verðum að taka þessa afstöðu.

Halldór Laxness málaði eftirfarandi mynd:

Hve bjart er veður,
og blómið glatt er morgundöggin seður!
Ó, græna lífsins land!
Ó, lífsins Grænaland, ó lands míns gróður,
leyf mér að elska þig og vera góður.

Hve margt sem gleður.
Í gljúpri lækjarseyru smáfugl veður.
Ó dýra lífsins land!
Ó lífsins Dýraland, ó land míns bróður,
hvers lítils fugls og draumur vorrar móður.

Höfundur greinar: Bryndís Víglundsdóttir.
Bryndís var kennari um 50 ára skeið, hún kenndi bæði á Íslandi og í Boston í Bandaríkjunum á Perkins school for the blind.  Hún var skólastjóri Þroskaþjálfaskóla Íslands í rúm tuttugu ár og lætur sig enn mannlífið miklu varða.

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here