Gallerí Gámur: Ævintýralegt listasafn á faraldsfæti

Mig langaði að prófa eitthvað nýtt, eitthvað annað en hefðbundin sýningarrými og listasali þar sem fremur lokaður hópur fólks kemur til að njóta listar. Það var í raun kveikjan að tilraunaverkefninu Gallerí Gámur en með verkefninu langar mig að færa myndlistina nær fólkinu og með því móti vil ég kynna mig fyrir almenningi.”

Þetta segir myndlistarkonan Mekkín, aðspurð um þá hugdettu að setja upp listasýningu í stórum gám og bjóða gestum að ganga inn. „Ég fékk smá styrk frá Eyþing og samstarf við Landflutninga, sem gerði mér kleift að hrinda ævintýrinu af stað en sem stendur er ég með litla sýningu eftir sjálfa mig í gámnum. Ég er öll að sjóast til í gámaflutningum og hef kynnt mér hátíðir um allt land og næsta sumar langar mig því að gera verkefnið enn stærra og ferðast um allt land með Gallerí gám.”

[new_line]

R.Mekkin.Ragnarsdottir.juli.2014.33

[new_line]

Gallerí Gámur er víðförul sýning sem flakkar milli landshorna

Mekkín hefur þegar haldið nokkrar sýningar; hana var að finna á Mærudögum á Húsavík og segir hún viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum. Þá skaut henni upp kollinum með gáminn góða á hátíðinni Ein með Öllu sem haldin var á Akureyri en næst verður Mekkín með sýningu á Akureyrarvökunni sem haldin verður í lok ágúst.

„Gámurinn færir mig nær fólkinu og ég eyði miklum tíma í að ræða við almenning um tilgang myndlistar á sýningum mínum. Og skemmtilegast er að fólk sem aldrei myndi leggja það verk á sig að ganga inn á hefðbundna myndlistarsýningu kemur óvænt inn í gáminn og svo fer spurningaflóðið í gang. Auðvitað gerist það líka að einhver snýr sér hálfhring, yppir öxlum og gengur svo út. En þeir eru mun fleiri sem gefa sér tíma og segja mér að þau fari aldrei á listasýningar og hafi litla hugmynd um listir yfir höfuð. Þetta eru oft skemmtilegustu gestirnir og ég skemmti mér konunglega í samræðum við fólkið og börnin eru alveg dásamleg þegar þau fara að spá, spegúlera og spyrja.”

[new_line]

R.Mekkin.Ragnarsdottir.juli.2014.27

[new_line]

Skoðar líkamsímynd gegnum leikföng barna

Sýningin sem nú stendur yfir í Gallerí Gám er úrval af verkum Mekkín sjálfrar en þema sýningarinnar eru málverk þar sem hún skoðar líkamsímynd í gegnum leikföng barna og er þar að finna portrettmyndir af nöktum dúkkum fyrir stráka og stelpur.

„Ég er líka með perluð verk til sýnis og sölu, en ég lærði að perla t.d eftir hefðum Indjána í Bandaríkjunum þar sem ég eyddi ágætum tíma á eyjunni Dear Isle við perlunám. Perlumenningin er svo til að segja engin hér á Íslandi. Fyrir Íslendingum eru perlur bara perlur. Og þar stoppar það. Indjánarnir eiga aftur á móti ríka perluhefð en í verkum mínum nýti ég þeirra aðferðir og tækni en með mínu lagi og nota mitt eigið mynstur og liti, ég vel þær perlur sem henta mér best.”

[new_line]

R.Mekkin.Ragnarsdottir.juli.2014.13

[new_line]

Sérpantar glerperlur og vinnur listaverk með flókinni tækni

Mekkín sérpantar perlurnar sem hún vinnur úr verkin frá Bandaríkjunum frá glerlistakonu sem býr og starfar ytra, en um er að ræða glerperlur sem lagaðar eru eftir kúnstarinnar reglum. „Ég lærði meðal annars hjá einum fremsta perlulistamanni heims í dag, David Chatt, en hann perlar öll sín verk.Hann hvatti mig til þess að fara út fyrir rammann og perla eftir mínu höfði sem ég hef gert. Núna legg ég frá mér uppskriftirnar og nýti mér reglurnar til þess að tjá mína list. Ég hef mínar eigin hugmyndir um hvernig ég vil notfæra mér perlur.”

Gersamlega heilluð af perlunum og hyggur á stærri myndverk í framtíðinni

Perlurnar segir hún vera ástríðu sem hún notar gegnum listina líka. „Ég hef þó áttað mig á hvers vegna listamenn perla ekki verk sín með þessum aðferðum; það skiptir engu hversu klár og laginn maður er – að perla er seinvirk vinna og ef reiknað er í tímakaupi, þá þarf hvert verk að kosta talsverða peninga til að vinnan borgi sig að lokum. Ég er hins vegar gersamlega heilluð af þessari aðferð og á eftir að skila af mér fleiri perluverkum í framtíðinni. Þau muni eflaust kosta skildinginn vegna vinnunnar sem ég legg í hvert verk, en þó vinnan sé flókin og tímafrek er ég samt heilluð af perlunum og þannig má sjá dúkku á sýningunni sem stendur yfir núna sem ég huldi algerlega með perluklæðum.”

Til gamans má geta að Mekkín hannar einnig og selur skartgripi úr perlumynstri sem sjá má á sýningunni og eru á viðráðanlegu verði. „Þeir borga sig ekki í kapítalískum skilningi fyrir mig, en ég hef gaman að verkinu og það skiptir mestu.”

Eins og fram kom hér að ofan verður Mekkín næst með sýningu á Akureyrarvökunni sem haldin verður í lok ágúst, en í meðfylgjandi myndasafni má sjá svipmyndir af Gallerí Gám og sýningunni sem nú stendur yfir.

SHARE