Gallsteinar og gallblöðrubólga

Það eru steinar, ýmist úr kólesteróli eða galllitarefni, sem myndast einkum í gallblöðrunni. Þeir geta verið allt frá nokkrum millimetrum upp í nokkurra sentimetra stórir. Ef gallsteinn festist í gall- eða briskirtilgangi orsakar hann gallsteinakast.

Gallsteinar eru til staðar hjá 10 – 20% Vesturlandabúa en nákvæmt algengi er ekki þekkt. Gallsteinar eru misalgengir eftir landssvæðum. Þeir eru sjaldgæfir í Austurlöndum og Afríku en algengir í Chile og Svíþjóð. Gallsteinar eru tvisvar sinnum algengari hjá yngri konum en körlum, munurinn minnkar þó með aldrinum. Talið er að lífsstíll og matarvenjur séu orsök þess hversu algengir gallsteinar eru á Vesturlöndum.

Hvernig myndast gallsteinar?

Gall er samsett úr vatni, söltum, gallsýru, kólesteróli, fosfólípíðum og bilirúbin. Ef röskun verður á þessarri samsetningu (oftast of mikið kólesteról) verða til litlir kristallar sem síðan safnast saman í gallstein/gallsteina.

 

Sjá einnig: 5 staðreyndir um geirvörtur og heilsuna

Hverjir fá gallsteina?

Allir geta fengið gallsteina. Sjúkdómurinn er sjaldgæfur hjá börnum og yngra fólki en verður því algengari með aldri.

Áhættuþættir:

  • fjölskyldusaga um gallsteina
  • offita
  • mikil megrun á stuttum tíma
  • hátt kólesteról í blóði
  • ýmis lyf t.d. getnaðarvarnarpillan
  • aðrir sjúkdómar undirliggjandi t.d. skorpulifur og sykursýki
  • hækkandi aldur
  • kyn (konur fá oftar gallsteina samanborið við karla).

Hver eru einkennin?

Um það bil 2/3 þeirra sem hafa gallsteina eru einkennalausir.

Um það bil 1/3 fær einhvern tíma einkenni

Gallsteinakast (algengt):

Sár verkur í efri hluta kviðar eða undir hægri rifjaboga. Verkurinn magnast smám saman og verður síðan stöðugur. Verkinn getur leitt upp í hægri öxl eða aftur í hægra herðablað. Á meðan verkjakastið stendur yfir getur viðkomandi svitnað, verið óglatt og jafnvel kastað upp. Hvert kast getur staðið allt frá nokkrum mínútum upp í 2-3 klukkustundir. Það er mjög einstaklingsbundið hversu oft köstin koma og hversu lengi þau vara. Það getur verið erfitt að greina gallsteinakast frá öðrum verkjaköstum t.d. af völdum bakflæðis magasýru í vélinda, magasárs, hjartverks, lungnabólgu eða nýrnasteina.

Sjá einnig: Bjartsýni getur bætt heilsu þína til muna

Gallblöðrubólga (sjaldgæf, en alvarlegt einkenni):

Megineinkenni er verkur um ofanverðan kvið og undir hægri rifjaboga. Verkurinn er stöðugur og versnar með tímanum. Stundum leiðir hann aftur í bak og upp í axlir. Þessu geta fylgt ógleði og uppköst. Sjúklingurinn er oftast mikið veikur, með hita og andar grunnt. Við þreifingu eru eymsli undir hægri rifjaboga sem versna við innöndun. Gallblöðrubólga orsakast ekki eingöngu af gallsteinum.

Gula og gallgangabólga (sjaldgæft, en alvarleg einkenni):

Gulur blær á húð og augnahvítu. Hægðir verða ljósar og þvag dökkt. Sömu einkenni og fylgja gallsteinakasti eru oft undanfari þessarra einkenna.

Hver eru hættumerkin?

  • Skyndilegir og sárir magaverkir sem sjúklingurinn kannast ekki við.
  • Gallsteinakast sem varir lengur en 3-4 klukkustundir.
  • Gallsteinakast ásamt hita og kuldahrolli.
  • Gula ásamt ljósum hægðum og dökku þvagi.

Sjálfshjálp

  • Í gallsteinakasti (þegar sjúklingurinn þekkir sjálfur einkennin) má taka verkjalyf. Það má prófa að setja hitapoka á magann (varast ber að brenna ekki húðina).

Fyrirbyggjandi aðgerðir:

  • halda kjörþyngd
  • neyta fitusnauðrar fæðu.

Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?

Gallsteinakast:

Sjúkrasagan ásamt almennri líkamsskoðun er megingreiningaraðferðin. Til frekari stuðnings er tekin blóðprufa þar sem skoðaður er almennur blóðhagur og lifrarpróf. Nákvæmari greining er gerð með ómskoðun af gallblöðru og gallgöngum.

Aðrar tegundir gallsteinasjúkdóma:

Krefjast yfirleitt sjúkrahúsinnlagnar þar sem viðkomandi gengst undir ýmsar rannsóknir t.d. ómskoðun og hugsanlega tölvusneiðmyndatöku. Ef grunur leikur á að um sé að ræða gallstein í gallgangi er tekin röntgenmynd af gallgöngunum með skuggaefnisgjöf um magaspeglunartæki (ERCP). Með þessari aðferð má staðsetja gallsteinana og í framhaldinu fjarlægja hann.

Hver er meðferðin?

Ef sjúklingurinn er einkennalaus og gallsteinarnir hafa fundist fyrir tilviljun er ekki þörf á meðferð.

Gallsteinakast

Ef um skyndilega og kröftuga verki er að ræða sem sjúklingurinn kannast ekki við ber honum að leita læknis. Læknirinn mun gefa eða ráðleggja lyf til frekari verkjastillingar.

Hægt er að lækna gallsteina með því að fjarlægja gallblöðruna. Oftast er það gert með skurðaðgerð í gegnum kviðsjá en slík aðferð skilur einungis eftir lítil ör. Stundum þarf þó að notast við „opna skurðaðgerð“ og þá verður skurðurinn stærri. Skurðaðgerðir af þessum toga er mjög öruggar en þó er mikilvægt að hafa skýrar ábendingar fyrir aðgerð.

Gallblöðrubólga

Sjúklingurinn leggst strax inn á sjúkrahús. Meðferðin samanstendur af sýklalyfjagjöf og skurðaðgerð þar sem gallblaðran er fjarlægð.

Gula af völdum gallsteina

Sjúklingurinn leggst strax inn á sjúkrahús. Ef orsökin er sýking þarf viðkomandi að fá sýklalyf. Gula er meðhöndluð með ERCP þ.e. speglunartæki er þrætt niður í gegnum magann og niður í skeifugörnina að þeim hluta þar sem sameiginlegur gangur gall- og brisganga kemur inn í. Þá er skuggaefni sprautað inn í bæði gangnakerfin til greiningar á steinum í göngunum. Um leið má nota tækifærið og fjarlægja gallsteina sem koma í veg fyrir eðlilegt rennsli galls úr gallblöðru niður í skeifugörn. Oft er vöðvinn sem lokar fyrir gallganginn inn í skeifugörnina víkkaður með litlum skurð þannig að gallið komist frekar leiðar sinnar.

 

SHARE