Að vera í sambúð krefst samvinnu. Samvinna þýðir aftur það að báðir aðilarnir í sambúðinni leggi sitt að mörkum til þess að öllum innan veggja heimilisins líði vel í lífi sínu og starfi. Samvinna felur líka í sér að báðir aðilar sambúðarinnar virði hvor annan, styðji hvor annan og gefi hvor öðrum tækifæri til þess að þroskast um leið og samband þeirra þroskast. Hamingjan felst í því að láta samvinnuna ganga upp. Óhamingjan er þá skipsbrot samvinnunnar. Það er reyndar algengara en margur heldur. Alltof oft þá ætlumst við til þess af maka okkar að hann eða hún hafi frumkvæðið að einhverju sem eykur hamingju innan veggja heimilisins. Maki okkar á líka að vera tilbúinn til þess að gefa sér tíma fyrir okkur, til þess að rækta ástina og til þess að vera okkur til stuðnings í blíðu og stríðu. Þegar það gengur ekki eftir, þá bregða sumir á það ráð að láta sig einfaldlega hverfa burt úr sambúðinni, slíta samvistum, vegna þess að „makinn er svo leiðinlegur, tillitslaus og hefur engan áhuga á sambandi okkar“, eins og margir segja! Galdurinn við hamingjusama sambúð er aftur á móti fólginn í því að segja ekki „hvað getur maki minn gert…“ heldur „hvað get ég gert fyrir sambúðina okkar…“. Áður en við krefjumst alls af maka okkar ættum við að venja okkur á að líta í eigin barm. Því það er þar sem lykillinn að góðri sambúð er falinn.
Hér á eftir fer listi sem er kallaður „Gátlisti hamingjunnar“. Á gátlistanum eru nokkur atriði sem hver og einn getur gert og haft í huga til þess að auka hamingjuna í sínu sambandi. Ef þér líst vel á listann skaltu prenta hann út og hengja hann upp á ísskáp eða á annan góðan stað. Reyndu svo að „tékka“ við þá hluti sem þér hefur tekist vel með. Þú getur líka bent maka þínum á listann. En munið þið bara að segja ekki við hvort annað „Já, þetta er nú eitthvað sem ÞÚ þyrftir að gera“, heldur segið við ykkur sjálf, „þetta er eitthvað fyrir MIG“. Gangi ykkur svo vel með samvinnuna.
Sjá einnig: 10 vísindalegar staðreyndir um hamingjurík hjónabönd
Gátlisti hamingjunnar
(Eða nokkrir hagnýtir hlutir sem ég get gert til að auðga samband mitt við þá sem mér eru nákomnir.)
- Ég get gefið mér tíma til þess að tala við fjölskyldu mína og/eða nána vini um hluti sem í raun og veru skipta okkur máli.
- Ég get reglulega tekið þátt í einhverju með maka mínum sem auðgar hjónaband mitt þannig að kærleikurinn fái að halda áfram að vaxa hjá okkur.
- Ég get tekið á vandamálum í sambandi okkar í stað þess að forðast að ræða um þau þegar þau koma upp, með því að tala um þau og finna sameiginlega lausn hvenær sem hægt er.
- Ég get talað reglulega og einlæglega, helst á hverjum degi, við þau sem ég bý með, maka minn og börn, um samskifti okkar og vandamál hins daglega lífs.
- Ég get lært að rækta ástina í samskiptum mínum við maka minn með því að fullnægja þörfum okkar beggja fyrir hrós, viðurkenningu, snertingu, hlýju, virðingu og umhyggju.
- Ég get lært að taka þátt í samfélagi og hópum sem styðja mig og næra mig.
- Ég get gagnrýnt á uppbyggilegan og heiðarlegan hátt og tekið gagnrýni.
- Ég get lært að byggja upp fjölskyldu mína með því að segja hvernig mér líður í sambandi okkar, í stað þess að brjóta niður með þögninni.
- Ég get viðhaldið vináttu minni við gamla vini, gert mitt til að eignast nýja með maka mínum og stutt vináttu maka míns við sína vini.
Sjá einnig: Facebook getur valdið vanlíðan og dregið úr lífshamingju