Gefum gömlum símum nýtt líf og styrkjum gott málefni – Ertu komin með poka?

Gamlir og bilaðir símar í skúffum og geymslum geta fengið framhaldslíf um leið og landsmenn styrkja gott málefni. Græn framtíð, Pósturinn og Síminn standa að söfnunarátakinu.

Söfnunarpokar hafa verið sendir inn á öll heimili landsins á vegum Póstsins og er fólk hvatt til að finna gamla síma, setja í poka og skila þeim til Símans. Á pokanum má merkja við málefni sem fólk vill styrkja og allur ágóði rennur óskiptur til þess félags sem fólk kýs.

Málefnin eru:

  • Hjálparsími Rauða krossins 1717
  • Samhjálp
  • Skógræktarfélag Íslands
  • Stígamót
  • Eða annað félag sem fólk kýs

Græn framtíð mun sjá um að koma öllum símununum í endurvinnslu og endurnýtingu, en úr ónýtum símum er hægt að nota íhluti til að búa til ný raftæki. Þá er hægt að gera við bilaða síma og koma í notkun á ný.

„Hér á landi eru seldir rúmlega 130 þúsund farsímar á ári og einungis lítill hluti þeirra er endurunninn. Þetta er þróun sem við þurfum að breyta því stöðugt er gengið á afurðir jarðar; afurðir sem geta klárast einn daginn. Við viljum því hvetja þig til að leggja þessu mikilvæga málefni lið og gramsa í gömlu skúffunni; leita í geymslunni eða á vinnustaðnum eftir gömlum og jafnvel ónýtum farsímum,“ segir Bjartmar Alexandersson framkvæmdastjóri Grænnar framtíðar.

Átakið stendur dagana 6. til 16. desember. Merkt er við málefnið á pokanum og ágóði af símtækjunum rennur óskiptur til þess góðgerðarfélags sem valið er.

SHARE