Gekk lengi með hugmyndina í maganum

Inga Fanney Rúnarsdóttir er 25 ára stúlka úr Grindavík sem hafði lengi leitað sér að hinu fullkomna peningaveski en hvergi fundið það. Inga Fanney tók því málin í sínar eigin hendur og hóf að hanna veski, undir merkinu IF reykjavík.

„Ég hafði leitað að veski lengi en fann ekkert sem hentaði mér. Ég gekk svo með þá hugmynd, að hanna mín eigin veski, í hausnum mjög lengi en þorði aldrei að framkvæma hana. Ég skellti mér síðan á námskeiðið „konur til athafna“, þar sem ég sá að ég gat alveg framkvæmt mínar hugmyndir eins og hver annar.“

Undir merkjum IF reykjavík hannar Inga Fanney rúmgóð peningaveski úr leðri og rúskinni, ásamt kortaveskjum úr leðri. „Peningaveskin eru kannski örlítið frábrugðin hefðbundnum peningaveskjum en þau eru afar rúmgóð og rúma heilan helling. Mjög fá veski eru framleidd af hverri týpu þannig að ekki er um fjöldaframleiðslu að ræða. Ég er auðvitað alls ekki að finna um hjólið en á Íslandi er áhugi og markaður fyrir veski og fallegt veski er einfaldlega fallegur fylgihlutur,“ segir Inga Fanney kímin.

Að sögn Ingu var ferlið ekki langt, frá hönnun og að koma fyrsta veski í sölu, þegar hún hugsar til baka. „Á sínum tíma virtist þetta rosalega langt ferli og mikill rússíbani. En í raun tók þetta ekki nema 6-8 mánuði í heildina. Auðvitað langaði mig oft til að leggjast á gólfið, grenja og hætta bara öllu. En það er ekkert í boði – maður verður að taka nákvæmlega þessi augnablik til þess að byggja sig upp og halda áfram. Ég setti mér það markmið að koma veskjunum á markað fyrir síðustu jól og það tókst.“

Hvert einasta veski frá IF reykjavík seldist svo upp fyrir jólin. „Þetta hefur gengið allt svo ótrúlega vel, eins og í sögu ef ég á að segja eins og er. Ég hef sett í sölu 4 týpur af veskjum og öll seljast þau mjög vel. Ný lína er svo væntanleg á næstu vikum og jólalína í bígerð. Draumurinn er auðvitað að geta lifað á þessu en ég lifi bara í núinu og ætla að sjá hvert þetta leiðir mig.“

Nánari upplýsingar um IF reykjavík má finna á Facebook: if reykjavík.

13689517_10154383989308410_376181730_n

Inga Fanney Rúnarsdóttir, eigandi IF reykjavík.

12742837_1002125136535680_1426406885613494485_n

Inga hannar glæsileg leður- og rúskinnsveski.

SHARE