Gera partíið skemmtilegt fyrir alla

Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir mun sjá um EM-umfjöllun á vegum Sjónvarps Símans meðan EM í fótbolta sendur yfir. Sjálf hefur hún aldrei verið í boltanum, en það kemur ekki að sök, enda ætlar hún að finna skemmtilega vinkla á mótið fyrir allskonar fólk.

 

„Þetta leggst brjálæðislega vel í mig og er mjög spennt fyrir þessu. Svo vex spennan eftir því sem mótið nálgast. Það eru bara tvær vikur í þetta núna,“ segir Sigríður Þóra Ásgeirsdóttir sem mun ásamt Hugrúnu Halldórsdóttur sjá um EM umfjöllunina á vegum sjónvarps Símans meðan á Evrópumótinu í fótbolta stendur. Þær eru hluti af teymi Þorsteins J. sem sér um að matreiða mótið ofan í Íslendinga með líflegum hætti.

Eins og Eurovisionpartí

Hlutverk Sigríðar Þóru og Hugrúnar er einmitt að finna mannlega og skemmtilega vinkla sem tengjast mótinu með einhverjum hætti. Sjálf hefur hún aldrei verið í fótbolta og fylgist ekki meira boltanum en meðalmanneskja. „Við ætlum að fanga stemninguna og gleðina sem myndast hjá íslensku þjóðinni. Ísland verður væntanlega allt undirlagt. Þetta er svolítið eins og Eurovisionpartíið, bara miklu stærra. Það skiptir engu máli hvort maður hefur áhuga á tónlistinni eða ekki, manni finnst alltaf gaman að vera í partíinu. Þannig verður þetta núna.“

Hún segir tilganginn með þætti þeirra stallna að gera það skemmtilegt fyrir sem flesta að fylgjast með mótinu. Líka þá sem hafa takmarkaðan áhuga á fótbolta. „Þetta er það stór viðburður og það eru allir að fara að fylgjast með. Við viljum því ná til sem flestra. Gera partíið skemmtilegt fyrir alla,“ segir Sigríður Þóra kímin með annarri tilvísun í Eurovision.

Lærir mikið um fótbolta

Sigríður Þóra hefur ekki mikið verið framan myndavélina sjálf en hún hefur aðallega starfað við dagskrárgerð. Þáttastjórn er því ný áskorun fyrir hana. „Ég vona að þetta takist og vel og mun leggja mig fram um að gera mitt allra besta. Það er mjög spennandi að fá að taka þátt í þessu.“

En hefur hún ekki líka lært heilmikið um fótbolta á því að undirbúa þættina? „Jú heldur betur, sem er mjög skemmtilegt. Ég var einmitt að grínast með það um daginn að í lok sumars yrði ég annað hvort orðin algjört fótboltanörd og aðdáandi, eða búin að fá gjörsamlega nóg af þessu,“ segir hún og skellir upp úr.

Safna hugmyndum

Sigríður Þóra og Hugrún eru þessa dagana að safna sögum og skemmtilegum hugmyndum sem tengjast EM. „Það er t.d. fólk að fara að gifta sig einn af keppnisdögum Íslands, það er verið að sauma kjóla úr íslensku fánalitunum og við ætlum að hitta ömmur íslensku landsliðsmannanna. Við erum því með ýmislegt í pokahorninu sem við ætlum að fanga og segja frá,“ segir Sigríður Þóra, en þær taka öllum hugmyndum fagnandi á netfangið: em2016@siminn.is.

 

SHARE