Gerðu haustið töfrandi

Haustið er uppáhaldsárstíðin mín. Litir náttúrunnar eru aldrei fegurri og ferskleiki andvarans meiri. Ég elska rökkrið sem gefur mér tilefni til þess að kveikja á kertum og skapa hlýlega tilveru innanhúss.

En það eru ekki allir sem eru sammála mér og sumum finnst haustið afskaplega erfitt og leiðinlegt, þola ekki myrkrið sem hellist yfir og tilhugsunina um ískaldan veturinn með öllum sínum veðurtilbrigðum.

Hér eru nokkrar tillögur fyrir þá sem ekki kunna að meta haustið um það hvernig hægt er að taka vel á móti haustinu og gera það bjartara og skemmtilegra.

 

Horfðu á náttúruna sjáðu alla litina sem hún hefur að geyma, ef þú virkilega horfir með vitund muntu sjá fleiri liti en áður.

Leyfðu þér að fá þér stöku súkkulaðibolla og setjast með mjúkt teppi og lesa góða bók, eða horfa á þátt. Draslið á heimilinu fer ekkert!

Kveiktu á kertum og á þann hátt gerðu hlýja stemmingu kerti hita herbergið og skapa mjúka lýsingu. Kertaljós getur líka gefið tilefni til þess að krydda aðeins sambandið ef þú ert í sambandi, smá haustrómantík getur aldeilis gert haustið betra.

Löng heit böð með epsomsalti og olíum, kertaljósi, ljúfri músík og já fyrir þá sem það fíla, rauðvínsglas. Þetta er uppáhaldshaust- og vetrarrútínan mín. Fátt betra en að skella sér í heitt bað með öllu tilheyrandi eftir kaldan íslenskan haustdag.

Notaðu haustið til þess að prófa nýtt, farðu á framandi námskeið eða smakkaðu eitthvað sem þú hefur aldrei smakkað.

Ég ákvað að fara á ljóðaupplestur og viti menn það var æðislegt.

Ég hefði aldrei trúað því að ljóðaupplestur væri skemmtun!

Með öðrum orðum gerðu haustið notalegt, daðraðu við það og njóttu þess að vera til.

 

SHARE