Gerir kokteila úr villtum íslenskum jurtum

Gísli Matthías Auðunsson, matreiðslumaður á Slippnum, notar óvenjulegt hráefni í kokteilana sína, en það er allt fengið úr nærumhverfinu í Vestmannaeyjum.
Túnfíflar, skessujurt, kerfill og hundasúrur eru kannski ekki þær jurtir sem koma fyrst upp hugann þegar talað er um kokteila, en þær eru einmitt meðal þess hráefnis sem Gísli Matthías Auðunsson, matreiðslumaður og einn af eigendum veitingastaðarins Slippurinn í Vestmannaeyjum, notar til að útbúa drykki. Allt jurtir sem hægt er að sækja í hans nánasta umhverfi í Eyjum. En það á reyndar við um flest allt hráefnið sem notað er á Slippnum. Staðinn rekur Gísli ásamt systur sinni og foreldrum sínum, en hann er einungis opinn á sumrin.

Tíu gerðir af kokteilum

„Það er af nógu af taka hérna í Vestmannaeyjum. Endalaust af villtum jurtum og svo erum við með okkar eigið gróðurhús, að ógleymdum fiskinum. Við byrjuðum að þróa kokteilana þriðja starfssumarið okkar og erum nú komin með tíu gerðir af kokteilum. Nýjasti kokteillinn á seðlinum inniheldur túnfífil og Bourbon viskí.“ Aðspurður hvernig túnfífill bragðast segir Gísli hann líkjast hunangi þegar búið er að gera úr honum síróp. „Það hentar einstaklega vel með smá Bourbon og sítrónu.“

Heldu námskeið í New York

Gísli segir kokteilana hafa vakið mikla lukku og þeir hafa meira að segja vakið athygli út fyrir landsteinana. Fyrir einu og hálfu ári bauðst Gísla að vera með „popup“ af Slippnum í New York, í tilefni norrænnar matarhátíðar, og sló hann á sama tíma upp námskeiði í kokteilagerð. „Það var mjög súrrealískt að koma frá Vestmannaeyjum í eina stærstu kokteilaborg heimsins. Það gekk rosa vel og fólk var mjög áhugasamt um það hvernig við nýtum hráefnið í kringum okkur í kokteila. Það er svo oft þannig að „lókal“ hráefnið fer einungis í matinn, en það er ennþá áhugaverðara að nota það í hvort tveggja.“

Gaman að kynna eyjuna

Fyrir rúmum mánuði var Slippurinn svo með „popup“ veitingastað í London, en þá var reyndar eingöngu um mat að ræða. „Þá tók ég slatta af vestmanneysku hráefni með mér, eins og hvönn og sjávarfang. Við höfum því svolítið verið að kynna okkur. Það gefur manni mjög mikið og þá áttar maður sig líka svo vel á því hvað við erum heppin með hráefni á Íslandi. Svo langar okkur líka að halda gott „popup“ í Reykjavík, aðeins að kynna eyjuna og hafa gaman af þessu,“ segir Gísli sem er að vonum stoltur af því sem hann er að gera.

Fengu góða viðurkenningu

Síðasta haust fengu þau þær fréttir að Slippurinn hefði verið valinn annar besti veitingastaður á Íslandi í hinu virta WHITE GUIDE, sem er veitingarýnirit sem inniheldur 300 bestu veitingastaði á Norðurlöndunum. „Þetta er sama fólk og sér um MICHELIN GUIDE. Þetta er alveg ótrúlegur heiður og góð viðurkenning hreinlega fyrir allar Vestmannaeyjar.“

 

Uppskrift að túnfífilskokteil

Það sem þarf:

500 gr túnfífill, gulu blöðin
600 ml vatn
400 gr sykur
100 gr túnfífill, græni parturinn
50 ml vodka eða hreinn vínandi
Bourbon viskí
Eggjahvíta
Sítrónusafi.

Aðferð:
Túnfífilsblöðin soðin í vatni í u.þ.b. 10 mínútur. Plast sett yfir pottinn og leyft að liggja í yfir nóttu inni í ískáp.
Daginn eftir er vökvinn sigtaður og sykri bætt í. Hrært saman þar til sykurinn er uppleystur.

Græna partinum og vodka blandað saman í blender og sigtað og hreinlega notað sem „bitter“ í kokteilinn.
Þegar kokteillinn er lagaður er hann settur í kokteilhristara ásamt klökum. Skreyttur með túnfífilsblöðum.

Uppskrift að kokteilnum:

9cl túnfífilssíróp
4,5 cl Bourbon viskí
4,5 cl sítrónusafi
2 skvettur túnfífilsbitter
1,5 cl eggjahvíta.
26877 - túnfífilskokteill1

 Þessi grein birtist fyrst í amk, fylgiblaði Fréttatímans.

SHARE