Getur ekki gefið börnum sínum jólagjöf þessi jól – Þjóðarsálin

ATH. Þessi grein er aðsend. Í Þjóðarsálinni getur fólk sent inn greinar, nafnlaust. Skoðanir sem að birtast í innsendu efni endurspegla ekki skoðanir Hún.is

Desember mánuður er flestum mikill gleðitími, hátíð ljóss og friðar þar sem fjölskyldur hittast og gleðjast saman. Því miður er þetta bara alls ekki allstaðar svona gott.
Ég man það svo vel hve spennt ég var fyrir jólunum, þá fengum við fullt af rauðum eplum, mandarínum og smákökum og hver man ekki eftir öllum teiknimyndunum í sjónvarpinu á aðfangadag og svo var toppurinn að fá að opna jólapakkann frá mömmu og pabba, stundum voru það náttföt, stundum nærföt. Já þetta var áhyggjulaus tími.
Núna er ég orðin fullorðin. Gæfan hefur gefið mér fjögur heilbrigð og góð börn sem eiga allt gott skilið. Tvö eru orðin fullorðin og flutt að heima en hin tvö eru ennþá heima.
Í stað þess að syngja glöð í ljósum prýddu húsinu sit ég um hánótt sorgmædd og kvíðin eftir að hafa séð vonbrigðin hjá yngstu börnunum þegar ég sagði þeim að mamma gæti ekki gefið þeim jólaföt og að því miður gæti ég ekki heldur gefið þeim neinar jólagjafir í ár. Áður en sú yngsta sofnaði kallaði hún á mig og spurði mig hvað hún ætti eiginlega að segja vinunum þegar hún yrði spurð um það hvað hún hafi fengið frá mér í jólagjöf. Ég vissi ekki hvað ég átti að segja við hana en reyndi þó að útskýra fyrir henni að það væru til börn sem hefðu það mikið verra en hún.
Það er ótrúlega erfitt að tala um þetta, því skömmin er mikil en samt held ég að það sé ágætt að þjóðin fái að vita hvernig staðan er hjá mörgum í dag. Það eru bara ekki allir sem fá leikjatölvur, síma, sjónvörp og spjaldtölvur í jólapakkann sinn. Sumir eru bara glaðir ef það verður matur á borðum.
Og þá komum við aftur að mér, þar sem ég sit ennþá á sama stað og það er alveg að koma morgun. Kosturinn við að það styttist til jóla er að það styttist jafn mikið í að jólin verði búin. Nú er bara að þurrka tárin úr augunum og reyna að setja upp brosið því bráðum vakna börnin.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og megi allar stjörnur himinsins lýsa upp veginn framundan.

SHARE